07.04.1937
Efri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í C-deild Alþingistíðinda. (2193)

96. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Frsm. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Mér kemur það ókunnuglega fyrir sjónir, ekki meiri umr. en hér eru yfirleitt í d., að hæstv. forseti skuli beita valdi sínu á þenna hátt. (JAJ: Nýju þingsköpin! — MJ: Jú. var ekki hv. þm. með þeim?). Jú, en ströngustu ákvæðum þeirra hefir aldrei verið beitt í þessari deild, enda ekki verið ástæða til þess. Ég get þegar tekið það fram, að mér endast engar 10 mínútur til þess að taka það allt fram, er ég vildi sagt hafa.

Hv. frsm. meiri hl. vildi kenna mér um það, að ég hefði komið þessum umr. út á of breiðan grundvöll. En það var hann, sem byrjaði á því að rekja forsögu málsins, svo að hann má sjálfum sér um kenna, en ekki mér.

Ég verð að láta mér nægja að taka til athugunar nokkur af frækornum hv. 1. þm. Eyf. Hann sagði, að það hefði verið með sérstökum skilyrðum frá Framsókn, að bráðabirgðalögin væru samþ. En sjálfur sagði hann við atvmrh., að hann væri með lögunum. Hér er því um beina brigðmælgi af hans hálfu að ræða.

Hv. þm. vildi halda því fram, að núverandi verksmiðjustj. hefði ekki reyzt vel, og fékkst einkum um það, að hún sýndi hlutdrægni í starfsmannavali. Þetta hefir nú allt verið hrakið áður, og hv. þm. verður að sætta sig við það, að svo fjölmennur flokkur sem Alþýðufl. er á Siglufirði fái rétta hlutdeild í vinnu við verksmiðjurnar. Hv. þm. varð líka að kingja því, að útgerðarmenn væru óánægðir með verksmiðjustjórnina. Sú óánægja hefir hvergi komið fram, nema í hinni grein, er Ingvar Guðjónsson skrifaði eftir pöntun Þormóðs Eyjólfssonar. Hann gat heldur ekki neitað því, að friður ríkti nú um verksmiðjurnar, þvert á móti því sem verið hefir áður. (BSt: Það ríkir nú líka friður í Þýzkalandi!). Já, en hér er ekki stjórnað með neinum vopnum. verkamannastéttin á Siglufirði er nú ánægð í stað þess, að áður ríkti þar svo mikil óánægja, að hvað eftir annað lá við vinnustöðvun, ef okkar menn hefðu ekki komið í veg fyrir það með lagi.

Hv. 2. þm. Rang. virtist í rauninni síður en svo vera hrifinn af þessari breyt. á verksmiðjustjórninni, þótt hann þættist vera að mæla með frv. Ég get líka vel skilið það hugarfar hans, ef honum er það alvara, að ríkisverksmiðjunum eigi að vera stjórnað af nýtum mönnum, en ekki af einhverjum, sem láta troða sér inn, hversu óhæfir sem þeir hafa reynzt áður. Og ég vil ljúka máli mínu með því að óska þess, að þau óheillaöfl, sem með bráðabirgðalögunum var bægt frá verksmiðjunum, eigi þangað ekki afturkvæmt.