10.04.1937
Efri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í C-deild Alþingistíðinda. (2198)

96. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Pétur Magnússon:

Ég er ákaflega ánægður með að heyra, að þau orð, sem fellu hjá mér um þetta mál, skuli hafa sannfært hv. 4. þm. Reykv. Ég lét í ljós, að þegar stjórn slík sem þessi væri valin, væri farið eftir einhverju öðru en pólitískum sjónarmiðum. Þessi sannleikur virðist þó ekki hafa opnazt fyrir hv. 4. þm. Reykv. við fyrri umr. um þetta mál, því að þeir, sem hlustuðu á hann þá, muna, að hann virtist ekki álíta þá, að stjórnarnm. síldarverksmiðjunnar þyrftu að uppfylla önnur skilyrði en að vera rétttrúaðir í einhverjum stjórnmálaflokki, en nú er hann kominn á þá skoðun, að nauðsynlegt sé, að þessir menn hafi þekkingu á sínu starfi. Það er gott fyrir minnihlutamenn, að verða þess varir, að einhverntíma á kjörtímabilinu hafa orð þeirra haft áhrif á menn úr meiri hl.

Hv. þm. talaði mikið um það, hversu dæmalaust vel hefði tekizt með skipun þessarar stj. hjá ráðh., hversu valinkunnir dánumenn þetta væru, og hversu prýðileg stjórn verksmiðjanna vari. Það er síður en svo, að ég ætli að neita því, að þetta séu valinkunnir dánumenn, og það liggur ekki heldur fyrir, að skrifa neina palladóma um þá, en mig langar til að spyrja hv. þm. um það, hvaða sérstök skilyrði þessir 3 menn hafi haft til þess að taka að sér stjórn þess fyrirtækis, sem hér er um að ræða. Það væri t. d. ákaflega fróðlegt að heyra, hvaða samband væri milli þekkingar á bókaútgáfu og svo síldarbræðslu og sölu á síldarolíu. Getur vel verið, að eitthvert samband sé þarna á milli, en ég þekki það ekki. Annar maðurinn er gamall barnakennari, sem hefir að vísu fengizt við stjórn útgerðarfyrirtækis, en mér vitandi hefir hann aldrei komið nærri slíkri starfsemi áður. (MG: Hann er póstmaður, það er skylt síldarhræðslu, eins og allir sjá). Þriðji maðurinn hefir eitthvað fengizt við útgerð, en að starfsemi slíkri sem þessari hefir hann aldrei komið, svo að ég viti. Hversu prýðilega sem þessi stjórn hefir tekizt, þá var ekki hægt að sjá fyrirfram þau sérstöku skilyrði, sem þessir menn höfðu fram yfir alla aðra til þessa starfa. Þeir höfðu enga reynslu, enga æfingu, enga sérstaka þekkingu. En þegar verðlag er hækkandi, er ekki ákaflega mikill vandi að reka slíkt starf, svo að ekki verði halli á rekstrinum. Ég efast ekki um, að ef við fyndum upp á að byggja stjörnuturn og settum hv. 4. þm. Reykv. þar sem yfirmann, þar sem hann hefir lesið siglingafræði og hefir þá um leið verið kennt eitthvað í stjörnufræði, a. m. k. að þekkja sól og tungl og kannske nokkrar fastastjörnur, — ég efast ekki um, að þegar hann færi að horfa í kíkinn sinn, þá mundi hann finna tunglið. En að þetta væri nægilegur undirbúningur til þess, að hægt væri að trúa honum fyrir þessu starfi, held ég, að yrði álitamál. Og í því máli, sem hér er um að ræða, er mjög svipuðu máli að gegna. Þetta getur blessazt, þegar vel gengur, en það er ákaflega hæpið að trúa mönnum, sem enga sérstaka þekkingu hafa og enga sérstaka hæfileika eða kunnáttu hafa til slíks starfs, það er ákaflega hæpið að trúa þeim fyrir því, þó að það geti slampazt af. Ég held því, að hv. 4. þm. Reykv. hafi ekki með þessum lofræðum sínum um þá annars ólöstuðu verksmiðjustjórn tekizt að sannfæra hv. þm. um það, að þessi útnefning sé óræk sönnun fyrir því, að alþjóðarhagsmunir hafi verið hafðir fyrir augum, þegar stjórnin var skipuð.