10.04.1937
Efri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í C-deild Alþingistíðinda. (2201)

96. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Bernharð Stefánsson:

Mér virðast þessar umr. nú vera komnar nokkuð langt frá efni frv. Ég ætla ekki að eltast við að svara einstökum atriðum í ræðum manna her, heldur víkja að örfáum atriðum, sem mér finnst sérstaklega ástæða til að taka nokkuð fram um.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að ekki hefðu verið færð önnur rök fram fyrir þessu máli en þau, að við þm. Eyf. vildum slíta þeirri stjórnarsamvinnu, sem verið hefði á milli stjfl.

Þegar stj., sem nú situr, var mynduð, þá var gerður skriflegur samningur um þá samvinnu, og sá samningur var birtur alþjóð. Og það stóð ekkert í þeim samningi um það, að einstakir þm. í flokkunum mættu ekki bera fram lagafrv. Hefði slíkt staðið í þeim samningi, þá hefðum við þm. Eyf. a. m. k. aldrei stutt að þeirri samningagerð eða stutt stj. á þeim grundvelli. Það hefir sýnt sig áður, að við þm. Eyf. höfum leyft okkur að bera fram frv., sem Alþfl. hefir verið á móti. Á Alþ. 1935 bárum við fram frv. um styrk til ábyrgðarmanna lántakenda í Kreppulánasjóði. Alþýðuflokksmenn voru á móti því, að það væri samþ. En það varð enginn brestur út af því. Það kurraði eitthvað í alþýðuflokksmönnum, en ekki slitnaði upp úr stjórnarsamvinnunni fyrir það. Enda álít ég, að slíkt hefði verið óhæfa. Alþfl. átti heldur engan rétt á að banna okkur að bera fram það frv. eða önnur, sem okkur kynni að sýnast rétt að bera fram.

En svo er annað að athuga í þessu efni. Hvenær bárum við þm. Eyf. þetta frv. fram? það var ekki fyrr en eftir að alþýðuflokksmenn báru fram frv. í mjög svo þýðingarmiklu máli, algerlega að Framsfl. forspurðum. (SÁÓ: Hvaða mál var það?). Það var Kveldúlfsmálið svo kallaða. A. m. k. var Alþfl. búinn að tilkynna það áður en þetta frv. kom hér fyrir, að hann mundi bera það mál fram. Nei. Það sem fyrir okkur þm. Eyf. vakti, var það, að finna heppilegt fyrirkomulag á stj. verksmiðjanna. Og frv. bárum við svo fram í samræmi við það, sem okkur þótti heppilegt vera, en gátum ekki farið eftir áliti annara manna um það. Þessi einn var tilgangur okkar með því að flytja þetta frv., en alls ekki sá, að stuðla neitt sérstaklega að því að slíta stjórnmálasamvinnu.

Þá vil ég alveg mótmæla þeim orðum, sem sami hv. þm. talaði, að flutningur þessa frv. væri dulbúin árás á atvmrh. Í þessu frv. felst aðeins breyt. á bráðabirgðal., sem atvmrh. gaf út um verksmiðjustj. á síðasta vori. (JBald: Þessi árás er nú ekkert dulbúin). Hún er hvorki dulbúin né ódulbúin, því að frv. þetta er alls ekki árás á atvmrh., heldur eins og ég sagði í sjálfu sér aðeins breyt. á bráðabirgðal., en borin fram sem sérstakt frv. af þeirri einföldu ástæðu, að við þm. Eyf. áttum þess engan kost að bera till. okkar fram sem brtt. við bráðabirgðal. En hinsvegar er það ákaflega algengt, að bornar séu fram brtt. við bráðabirgðal. og samþ., og ráðh. sá, sem viðkomandi bráðabirgðal. hefir gefið út, sitji eftir sem áður og láti sér hvergi bregða. Mér þykir það nokkuð mikil viðkvæmni, ef hæstv. atvmrh. skoðar það sem sérstakt vantraust á sér, þótt gerðar séu breyt. n þessum bráðabirgðal. Og í þessu frv. er einmitt því atriði haldið, sem bráðabirgðal. breyttu frá fyrri löggjöf, að ekki skuli vera nema 3 menn í stj. verksmiðjanna. Bráðabirgðal. eru í sjálfu sér ekki um annað en það að fækka stjórnarnefndarmönnunum úr 5 í 3, og því atriði höldum við í okkar frv. Það kemur hinsvegar ekki til nokkurra mála, að það hafi verið ætlunin með skipun stj. þessarar á síðasta ári, að verksmiðjustj. skyldi vera stjórnskipuð til frambúðar. Eins og form. n. tók hér fram við 2. umr., þá var það vitanlega meiningin, að þegar hægt væri að koma því við, þá yrði verksmiðjustj. kosin af Alþ. eða á einhvern hátt kosin af flokkum þingsins. Og ég býst við, að hv. 4. landsk. neiti því ekki, að það var alltaf talað um það af Framsfl. hálfu, að í henni yrði sinn maðurinn úr hverjum flokki.

Ég geri ekkert úr því, sem hv. 4. landsk. var að tala um, að þetta fjölmenna ráð yrði notað. alþfl. til miska, þannig að á það yrði bent sem tákn þess, hvað ríkisrekstur væri dýr og þungur í vöfum o. s. frv. Í fyrsta lagi eru, eins og gengið er frá þessu í frv., engar líkur til þess, að þetta ráð kosti nema hverfandi litla upphæð fjár, þar sem meðlimir þess eiga ekki að hafa kaup. Og ég álít ástæðulaust að kjósa þá stofnun þannig, að ferðakostnaður meðlima verksmiðjuráðsins verði gífurlegur. Og hvað, sem um það er, þá er ómögulegt, að Alþfl. hafi skömm af þessu ráði á neinn hátt. Mér finnst hv. 4 landsk. geti verið rólegur, hvað það atriði snertir. Ég sé ekki, að Sjálfstfl. standi vel að vígi til að svívirða Alþfl. út af skipun þessa verksmiðjuráðs. Ég veit ekki, hvaða taugaóstyrkur hefir gripið hv. 4. landsk. út af þessu. Það er eins og hann máli vissa persónu á vegginn alveg á ólíklegustu stöðum.

Þá hefir af ýmsum hv. þm. verið talað hér langt mál um þá menn, sem nú eiga sæti í stj. verksmiðjanna. Það hefir komið fram hjá einum hv. þm. svona nokkur efi um hæfileika þeirra og frá öðrum hv. þm. hafa aftur fallið mörg hróssyrði í þeirra garð. Ég vil algerlega mótmæla því, að þetta frv. sé borið fram sem nokkurt vantraust á þessa menn persónulega. Það er eins og sumir hv. þm. hér geti ekki gert greinarmun á mönnunum og fyrirkomulaginu. Ég tek dæmi af því, þegar stj. landsins var breytt. Þegar það fékkst loks eftir langvarandi baráttu, að landshöfðingjaembættið var afnumið og sett ráðherrastjórn, sem Alþ. réði yfir, þá var hjá miklum hluta þjóðarinnar ekki um nokkurt vantraust að ræða á hendur landshöfðingjanum. Þvert á móti naut hann mikils trausts persónulega hjá miklum hluta þjóðarinnar. Vantraust hefir hann kannske haft hjá sumum, en alls ekki hjá þeim fl., sem var í meiri hl., heldur var það fyrirkomulagið, sem menn vildu breyta. Það, sem meiri hl. vildi, var, að Alþ. hefði réttinn til þess að ráða fyrir því, hver æðsti yfirmaður í landinu væri, án tillits til þess, hvaða maður sat í þeirri stöðu þá. Ég þekki 2 af stjórnarnefndarmönnunum í verksmiðjustj., og ég get sagt, að ég ber fullt traust til þeirra, nefnilega þá Þorstein M. Jónsson og Finn Jónsson. Ég álít, að þeir séu góðir menn í stj. verksmiðjanna. Þriðja manninn þekki ég ekki. Má vel vera, að það sé ágætur maður. En það er bara það, að þessir menn eru ekki settir til frambúðar í þessa stj. á réttan hátt. Það er eðlilegt með fyrirtæki eins og þetta, að fulltrúar landsmanna velji stjórnendur þess í réttu hlutfalli við það atkvæðamagn, sem stendur á bak við þá, en ekki, að ráðh. geri það, og það hversu góður sem sá ráðh. kann að vera. Og ég vil undirstrika það, að ég mótmæli algerlega öllum ásökunum um það, að frá hendi okkar flm. frv. felist nokkurt minnsta vantraust til Þorsteins M. Jónssonar, í því, að við berum fram þetta frv. Við álítum bara, að verksmiðjurnar hafi ekki til lengdar fullt traust útgerðarmanna, sjómanna og annara, sem hag sinn eiga undir rekstri þeirra, nema því aðeins, að svo sé um hnútana búið, að þeir geti skoðað stjórnendur þeirra sem sína fulltrúa. Það er þessi tilgangur, sem fyrir okkur vakir. Hvort við höfum fundið hina heppilegustu leið til þess að ná þeim tilgangi, skal ég ekkert um segja. Og við hefðum verið frá upphafi reiðubúnir til samninga um það. En til okkar hefir ekki verið beint neinu í þá átt að semja um breyt. á frv., a. m. k. ekki af Alþfl. hálfu. Sá fl. hefir ekkert um frv. rætt í öðrum tilgangi en þeim, að koma því bara fyrir kattarnef.