10.04.1937
Efri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í C-deild Alþingistíðinda. (2202)

96. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Magnús Jónsson:

Ég ætla ekki að taka mikinn þátt í þessum umr., sem mér þykja nú orðnar hálfskoplegar á pörtum. Þessi þingfundur er eins og einskonar sáttanefndarfundur. Það er sagt, að þegar menn áður fyrr hafi átt lengi í krít sín á milli, þá hafi verið settur fundur og þar hafi hinir ósáttu fyrst rifist ákaflega, en svo hafi sáttasemjarar verið hafðir á fundinum, sem koma áttu því til vegar, að hinir ósáttu að lokum féllust í faðma og kysstust. Maður sér næstu daga, hvort síldin og mjólkin eiga að verða tákn kossins og hvort flokkarnir taka sig á og gera samúðina betri en hún hefir verið. Annars virðist mér það dálítið leiðinlegt, úr því að umr. hafa snúizt upp í það að verða stórpólitískar, að hæstv. ráðherrarnir flýi, þegar talað er til þeirra. Vonandi er ekki komin í þá Deildartunguveiki, eins og sagt er stundum, að sé komin í hv. þm. þegar þeir tolla illa á fundum.

Mér virtist hv. 4. landsk. í þessum stórpólitísku umr. koma dálítið upp um sig um það, hver er hinn raunverulegi tilgangur hans. Því að hann byrjaði á því að veitast hart að hv. l. þm. Eyf., en áður en hann vissi af, var hann farinn að skamma Sjálfstfl. Virðist þá hans sanna innræti hafa komið fram. Það kom enn fram hjá honum þetta skoplega, þegar þeir alþýðuflokksmenn tala um, að engri hlutdrægni hafi verið beitt í veitingu vinnu við verksmiðjurnar. Þessir 2 menn, sem þar fengu vinnu sem fastir menn og um hefir verið rætt, voru annar alþýðuflokksmaður og hinn framsóknarmaður. Og þar með er ekkert um það að segja. Hvernig í ósköpunum á svo sem að fara að gagnrýna það meira. Það skiptir engu, hvort annar er glæpamaður og hinn fábjáni eða þetta eru heiðursmenn, fyrst annar er jafnaðarmaður og hinn er framsóknarmaður — og þegið þið svo. Það er bara rifrildið um það, hverjir eigi að fá fleiri bitana. Og það er ekki hægt að rífast um þetta. Þeir fengu jafnt, sinn bitann hvor, og þá eiga menn að þegja.

Annars sannar framkoma hv. 4. landsk. það, sem oft hefir breytt á hjá jafnaðarmönnum, að þeim er ákaflega gjarnt til að líta svo á, að reynsla og þekking sé gersamlega tómur hégómi sem verðleiki, þegar um slíkar stöðuveitingar sem þessar er að ræða. Það lá við, að hann væri að reyna að sanna, að hv. 4. þm. Reykv. mundi verða svona dágóður til þess að stjórna stjörnuturni, þó að hv. 4. þm. Reykv. sjálfur þó mótmælti því sem fjarstæðu. Það var eins og hv. 4. landsk. í ræðu sinni gerði sér mest far um að sanna, að það gerði ekkert til, þó að maður hefði verið við önnur störf alla tíð, þangað til sá hinn sami maður væri skipaður í ábyrgðarmikla stöðu ólíka öllum hans fyrri störfum. Hann gæti verið jafngóður til þeirrar nýju stöðu fyrir því. Það eru náttúrlega margir, sem stunda fleiri störf en eitt um æfina, og að nokkru leyti eðlilegt, þótt hv. 4. landsk. hætti til að hugsa eins og hann virðist gera, því að sjálfur var hann fyrst prentari. (JBald: Smali fyrst), svo varð hann forstjóri fyrir brauðgerð, síðan bankastjóri, svo að, það er vor, að svona maður haldi því fram, að menn geti vel sett sig inn í sitt af hverju. En eftir hverju á þá að fara, þegar verið er að veita forstjórastöður við fyrirtæki? Í 4 ára áætluninni var sagt, að það ætti að gefa mönnum kost á að keppa um stöðurnar. En það hefir nú reyndar í stjórnartíð jafnaðarmanna ekki alltaf verið farið eftir því, sem þar stendur. En um þessar og þvílíkar stöður ætti að láta menn keppa í samræmi við 4 ára áætlunina.

Mér skildist eftir ræðum hv. jafnaðarmanna hér í þessari hv. d. að dæma, að þeirra meining sé helzt sú um þessa 3 menn í stj. síldarverksmiðjanna, að meðmælin með Þórarni Egilsyni séu þau, að hann hafi alla sína æfi stundað útgerð, og meðmælin með Finni Jónssyni eigi að vera þau, að hann hefir stundað útgerð stutt og með vafasömum árangri, en meðmælin með Þorsteini M. Jónssyni, að hann hefir aldrei stundað útgerð. Meðmælin eru þá þessi með núverandi stjórnarmönnum, að einn þeirra hafi stundað útgerð um langt skeið, annar um skamma stund með misjöfnum árangri og hinn þriðji alls ekki!

Ég verð að segja eins og mér finnst um þetta frv., að ég tel það hégóma, þótt flokkarnir fái hlutfallslega fulltrúatölu í þessu 12 manna ráði, þegar þeim, sem leggja til hráefnin, er alveg hægt frá þátttöku í því, en hinsvegar skuli álíka ópólitískar stofnanir og Alþýðusamband Íslands og S. Í. S. eiga þar fulltrúa, og loks Fiskifél. Ísl.

Ég vil mótmæla þeim ummælum hv. 4. landsk. að við sjálfstæðismenn höfum ekki viljað gegna störfum í utanríkismálanefnd eða yfirleitt neitað þátttöku um opinber mál, nema brýn ástæða hafi verið til þess. (JBald: Ég sagði, að þeir hefðu svikizt um að gegna störfum þar). Um þetta lá fyrir skýr yfirlýsing frá flokknum, svo að hér var ekki um nein svik að ræða, eins og t. d. gagnvart 4 ára áætluninni. Flokkurinn lýsti yfir því, að hann starfaði ekki í utanríkismálanefnd, meðan þar ættu sæti menn, sem notuðu aðstöðu sína til þess að rægja og svívirða samnefndarmenn sína, of því að þeir væru bundnir þagnarheiti. En í slíkri n. verður auðvitað að vera þagnarskylda um mörg mál, og því er það svívirðilegt verk, að læða út grun um þá menn, sem eiga þar sæti, af því að þeir geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér.

Önnur ásökun hv. 4. landsk. á hendur Sjálfstfl. var í því fólgin, að hann hefði bannað mönnum sínum að taka sæti í stjórn síldarverksmiðjanna. Þetta var aðeins gert í mótmælaskyni gegn því dæmalausa gerræði, að gefa út bráðabirgðalög um breytingar á verksmiðjustjórninni aðeins tveim dögum eftir að þingi var slitið, enda þótt þessar breytingar væru ákveðnar löngu áður, eins og sest á kosningu endurskoðanda LR af hálfu Alþfl. Einn þm. flokksins hafði t. d. sagt mér, að Sigfús Sigurhjartarson yrði ekki kosinn endurskoðandi að nýju vegna þessara fyrirhuguðu breytinga, eins og líka kom á daginn.