10.04.1937
Efri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í C-deild Alþingistíðinda. (2204)

96. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Jón Baldvinsson:

Hv. 1. þm. Reykv. taldi það hlutdrægni að ráða tvo menn sinn af hvorum flokki. En það myndi hafa komið í ljós, að ef um 3 menn hefði verið að ræða, myndi einn þeirra hafa verið sjálfstæðismaður, ef honum hefði þá ekki verið bannað að taka við starfinu. Hv. þm. talaði í þessu sambandi um glæpamenn og fábjána, ef menn væru valdir til starfa úr Alþýðu- og Framsóknarflokknum. Ég skal ekki svara honum með öðru en því, að benda honum á eina stóra stofnun hér í bænum, sem flokkur hans ræður yfir, þar sem orð leikur á, að flestir starfsmennirnir séu afbrotamenn.

Þá var hv. þm. að finna að stjórn síldarverksmiðjanna. Hann fann formanni hennar það til foráttu, að hann hefði stundað útgerð með misjöfnum árangri. Ætli það mætti ekki segja eitthvað svipað um Kveldúlfsbræður, sem hv. þm. telur þó „autoritet“ í öllum sjávarútvegsmálum. (MJ: Vill hv. þm. fela þeim stjórn síldarverksmiðjanna?). Ég hefi ekkert um það sagt. En ég vil aðeins benda á það, að Samvinnufélag Ísfirðinga hefir eingöngu starfað síðan að tók að halla undan fæti fyrir útgerðinni og hefir ekki gróðaskeið Kveldúlfs að baki sér. Þessi útgerð hefir að nokkru leyti verið rekin sem atvinnubótafyrirtæki til þess að forða fólkinu frá neyð, eftir að einkaframtak útgerðarmanna hafði bilað með öllu.

Þá taldi hv. þm. það mikinn ljóð á ráði Þorst. M. Jónssonar í verksmiðjustjórninni, að hann hefði aldrei stundað útgerð. En ég veit ekki betur en að hv. þm. sjálfur eigi sæti í stjórn Landsbankans, þótt hann hafi lært til prests og gegnt þeirri stöðu, skrifað bók um Pál postula og kennt guðfræði, en aldrei verið í banka. Hvort sem þetta er af því, að seint fyllist sálin prestanna, eða ekki, þá er þetta nú svona.

Ég sagði að Sjálfstfl. hefði svikizt um að starfa í utanríkismn. Og ég stend við það. Flokkurinn gaf loforð um að starfa í n. með því að láta kjósa fulltrúa sína í hana.

Þá vil ég víkja nokkuð að hv. 1. þm. Eyf. Hann sagði að það væri ekki í samningi stjórnarflokkanna, að einstakir þm. mættu ekki bera fram þau frv., er þeim sýndist, eða a. m. k. hefðu þm. Eyf. ekki skrifað undir slíkt. En auðvitað er aldrei hægt að taka allt fram skriflega í slíkum samningum, heldur verður fyrst og fremst að gera ráð fyrir því, að báðir aðiljar hagi sér á „lagalegan“ hátt, en það hafa hv. þm. Eyf. ekki gert í þessu máli. Auðvitað er þeim heimilt samkv. þingsköpum að bera fram hvaða frv., sem þeir vilja, þótt þeir rjúfi með því gerðan samning. Hv. þm. sagði, að í frv. talist engin árás á atvmrh. En ég get ekki litið öðruvísi á en að svo sé, þegar með frv. eru tekin af honum völd og verkefni, sem samningur við Framsfl. hafa veitt honum. (BSt: Ekki nema til bráðabirgða.) Þetta frv. er árás á samstarf flokkanna og hlýtur að rýra það, ef samþ. verður.

Hv. þm. vildi halda því fram, að Alþfl. hefði fyrst borið fram mál, sem valdið gæti samvinnuslitum milli flokkanna, þar sem Kveldúlfsmálið væri, og mátti skilja á honum, að þetta frv. ætti að vera svar við því. En áður en nokkrar tillögur um Kveldúlfsmálið komu fram í Alþfl., var ég búinn að fá staðfesta frásögn, sem ég veit, að hv. 1. þm. Eyf. véfengir ekki, um það, að frv. ætti að koma fram, enda varð þess vart í viðtölum í vetur, að þetta viðhorf var til innan Framsfl. Auðvitað er það atvmrh. að segja, hvað hann vill gera. Vel getur farið svo, að hvorki þetta frv. né briðabirgðalögin, sem eru fyrir Nd., nái fram að ganga, og Þormóður Eyjólfsson komist þá inn aftur og Alþfl. nefni til sömu menn og áður. (BSt: Á þá að sparka Finni?). Annars get ég vel fallizt á það með hv. 1. þm. Reykv., að réttara væri, að við sætum saman og drykkjum mjólk og ætum síld, heldur en að lengja þessar umr. öllu meira.