30.03.1937
Efri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í C-deild Alþingistíðinda. (2215)

97. mál, verðlag á almennum nauðsynjavörum

*Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég hefi leyft mér að flytja þetta frv. fyrir tilmæli hæstv. atvmrh. En tilefni frv. er það, eins og segir í hinni stuttu grg., að n., sem var skipuð til þess að athuga verðlag á vissum vörutegundum, komst að þeirri niðurstöðu, að óumflýjanlegt væri, að n. yrði skipuð, sem hefði það verksvið, að fylgjast með verðlagi í landinu og setja mælikvarða á það. Þessi n. fékk þá reynslu, að full ástæða væri til þess að gera þetta.

Ég hygg, að það hafi líka verið uppi háværar raddir meðal ýmsra flokka hér á landi, að n. sem þessi þyrfti að komast á laggirnar. Ég skal geta þess, að þing Alþýðusambandsins, og ef ég man rétt einnig flokksþing framsóknarmannanna, áleit þörf á þessu.

Ég býst við, að ekki verði deilt um það, að verðlag nú í okkar landi hefir stigið hröðum skrefum, af ástæðum, sem að vísu er ekki hægt að ráða við, m. ö. o. af takmörkun á innflutningi erlendra vara. Þetta á svo sinn þátt í því, að eftirspurnin er svo mikil yfirleitt, að þeir, sem selja vöruna, geta sett þann mælikvarða, sem þeim þóknast. En þó að svona sé ástatt með aðfluttu vörurnar, þá þykir kenna þess sama á verðlagi þeirrar vöru, sem er á boðstólum á innlendum markaði. Og það er ekki síður vegna þessa, að verðlagsn. þarf að starfa, að hemil þarf að hafa á því, hvaða verð er á þeim vörum, sem yfirleitt eru seldar meðal almennings og til almennings. Ég tel ekki nauðsynlegt að nefna dæmi, sem staðfesti þessa skoðun mína, að verðlagið sé of hátt, en ef þess er krafizt, þá væri hægt að nefna ýms dæmi, sem sanna, að þetta er á rökum byggt. Hinsvegar er engin ástæða til þess, þótt takmörkun sé framboði einhverra vöruteg., að setja hærra verðlag á þær en myndi almennt teljast nauðsynlegt. Vitanlega þarf sá, sem selur vöruna, að hafa eðlilegan verzlunargróða, en þar, sem fram yfir það fer, er full ástæða fyrir hið opinbera að taka í taumana.

Í sambandi við þetta má benda á, að mikill hluti iðnaðarvörunnar er unninn í landinu, og það þykir kenna þess, að verð þeirrar voru hafi hækkað óþarflega mikið í skjóli þess, að ekki eru til neinar sambærilegar útlendar vörur, sem geti keppt við þær innlendu. Og það sama má segja um allar þær vörur, sem svo er takmarkaður innflutningur á, að sá, sem selur þær, getur sett á þær það verðlag, sem honum sýnist. Fyrir þetta er ætlazt til, að hægt verði að girða með þeim ákvæðum, sem sett eru í þessu frv. með opinberri verðlagsn., sem hefir vald til þess að kynnast öllu því, sem að verðlagi lýtur, og ef henni finnst ástæða til, þá megi hún gripa fram í og setja verð á þá vörutegund, sem um ræðir.

Þessi n., sem ég vitnaði í áðan, hefir í sambandi við vissar vörutegundir komizt að raun um, að það væri e. t. v. full ástæða til þess, að setja takmarkanir um verðlag þeirra. Að vísu hafði hún ekki nema fáa vöruflokka til meðferðar, en hún mun á sínum tíma gera grein fyrir þeim niðurstöðum, sem hún hefir komizt að þar. En n. hefir rekið sig á, að það er talsverðum erfiðleikum bundið að komast að því sanna og rétta í þessum efnum, nema vald sé fyrir hendi til þess að geta krafizt allra upplýsinga gagnvart hverri einstakri vörutegund á hverjum tíma. En einmitt með þessu frv. er slíkri n., sem gert er ráð fyrir, að skipuð verði, ætlað að hafa það vald, að geta krafizt nauðsynlegra upplýsinga til þess að geta myndað sér ákveðnar skoðanir um það, hvort verðlag sé of hátt eða ekki.

Ég hygg, að hér hjá oss sé fullkomin nauðsyn að koma þessu eftirliti á, því að það er ekki útlit fyrir, að á næstunni getum vér haft svo haftalausan innflutning á nauðsynjavörum yfirleitt að vér verðum ekki að reikna með þessum möguleika, að verðlagið sé ekki eftir þeim réttu hlutföllum, sem það ætti að vera, miðað við hæfilega álagningu. — skal ekki að öðru leyti fara mikið út í þetta frv. Aðalefnið er þessi nefnd og það vald, sem henni er ætlað að hafa til þess að inna starf sitt af hendi, og markmiðið er að firra almenning því, að þurfa að kaupa vöruna dýrara verði en rétt er.

Ég hygg, að þetta mál eigi heima í allshn. eftir eðli sínu, og geri ég því að till. minni, að því verði þangað vísað, að þessari umr. lokinni, og gefst þá tækifæri til að fara nánar út í einstök atriði frv. En ég tel ekki á þessu stigi málsins ástæðu til að fara nánar út í þetta mál, því að það liggur á tilfinningu manna, að hér sé á ferðinni mál, sem fullkomlega sé ástæða til að gefa gaum að.