12.04.1937
Efri deild: 37. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í C-deild Alþingistíðinda. (2221)

97. mál, verðlag á almennum nauðsynjavörum

Magnús Guðmundsson:

Eiginlega ætlaði ég nú ekki að taka til máls, en af því að ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, þá vil ég segja nokkur orð. Fyrirvarinn lýtur að því, að ég vildi áskilja mér rétt til að bera fram brtt. við frv., en það get ég alveg eins gert við 3. umr., sérstaklega ef útlit er fyrir, að frv. verði að l. á þessu þingi. En ég verð að segja það sama eins og ég sagði í n., að ég sé mér ekki fært að setja mig upp á móti því, að sett sé n. til þess að hafa hönd í bagga með álagningu og verðlagi, einmitt vegna þess að það er orðið mjög lítið um vörur og þess vegna miklar freistingar fyrir kaupmenn að setja verðið of hátt. — Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að þetta er bein afleiðing innflutningshaftanna. En það er ekki annað að gera en að taka því, fyrst ekki er hægt að losa sig við öll þessi höft. Meira að segja, það lítur út fyrir, að beita verði ennþá strangari höftum á næsta ári, vegna þess, hve illa lítur út með öflun fiskjar. Fyrir því sé ég mér sem sagt ekki fært að setja mig upp á móti þessu frv. jafnvel þó að mér sé það ljóst, að hægt sé að misbeita þessum l., en það verður þá að vera á ábyrgð þeirrar stj., sem l. framkvæmir, að n. fari sanngjarnlega með sitt vald.