08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í C-deild Alþingistíðinda. (2240)

114. mál, stuðningur við togaraútgerðina

Þorsteinn Briem:

Herra forseti! Síðast þegar ég talaði í útvarp hér frá Alþingi, þá voru þau ein rök færð fram á móti mínu máli, að ég sæi ekkert nema bændurna. Það var þegar hæstv. fjmrh. hafði flutt í útvarpið framsöguræðu fjárl., þá notaði ég þann tíma, sem mér var skammtaður, til að rekja sundur sjónhverfingavef þeirra Potemkinanna, sem setið hafa í stjórn landsins. Og ræðumaðurinn, sem settur var út til að svara mér, gat ekki hrakið orð mín með neinu öðru en því, að það væri ekki að marka mig eða Bændafl., því að hann sæi ekkert nema bændurna. Ég skal nú gera sósíalistunum það til geðs að játa þessar sakir, sem ég þá var borinn.

Vegna eðlisfars míns og æskuuppeldis heima í sveitinni minni og vegna þess, að ég hefi mestan hluta æfinnar lifað meðal bænda, þá er mér gjarnt til þess að líta á málin fyrst og fremst frá sjónarmiði bóndans — og frá sjónarmiði þeirra, sem eru að reyna að stunda framleiðslu sína sem sjálfstæðir atvinnurekendur eins og bóndinn. Frá því sjónarmiði verð ég því líka að lita á þetta mál, sem hér liggur fyrir. Og þó að það í fljótu bragði virðist bóndanum fjarskylt, þá er sú stefna, sem þar liggur til grundvallar, orðin svo áberandi í þjóðlífi voru, að til þess er full ástæða, að bóndinn virði hana fyrir sér og athugi, hvernig hann eigi að snúast við, þegar roðin kemur að honum sjálfum.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, hljóðar í stuttu máli um það, að stofna skuli ríkisfyrirtæki til togaraútgerðar. Fyrirtæki þessu á ríkissjóður að leggja fé, allt að 2 millj. kr., og á að afla þess með lántöku. Auk þessara 2 millj. á að skylda bankana til að taka hluti í fyrirtækinu, líklega um 1–2 millj. kr. Og loks á að gefa almenningi kost á að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu; en þar sem þar mun bresta bæði lyst og getu, verður varla reiknað með, að fyrirtækið fái hærri höfuðstól til umráða en 4 millj. samtals.

Fyrirtækið á að mega yfirtaka og kaupa togara, hús og aðrar eignir til útgerðar fyrir þrefalda upphæð þessa höfuðstóls, svo að fyrirtækið á að fá 12 millj. eignir til umráða þegar í byrjun — í togurum, veiðarfærum, fiskhúsum og fiskreitum til útgerðar hér í Reykjavík og nokkrum kaupstöðum öðrum. En þar sem fyrirtækið hefir ekki nema 4 millj. höfuðstól, þá verður að víkja að því hvernig ætlazt er til að ná þessum 8 millj. eignum til viðbótar. Um það fjallar II. kafli. Hann hljóðar um það, að skipuð skuli 7 manna n., launuð af ríkissjóði. Í henni eiga að vera tveir menn kosnir af Alþingi, tveir menn tilnefndir af bönkunum, einn maður frá togaraútgerðarfyrirtækjum, einn maður skipaður af atvmrh. og einn maður frá Alþýðusambandi Íslands.

Þessi n. á að meta efnahag allra togaraútgerðarfyrirtækja í landinu og hafa óhindraðan aðgang að öllum gögnum og skilríkjum þeirra; en matið á að miða við væntanlegt söluverð í augnablikinu. Öll þau útgerðarfyrirtæki, sem samkv. matinu geta ekki greitt skuldir sínar að fullu og hafa tapað á síðasta ári og ekki greitt afborganir af skuldunum, skulu gerð gjaldþrota. N. á að gera sérstaka skýrslu um það, hvað af eigum slíkra félaga sé gott fyrir ríkisútgerðarfyrirtækið að fá eignarhald á. Þyki n. gott fyrir ríkisútgerðina að fá eitthvað af eignum þessara gjaldþrota félaga, skal láta þær af hendi til ríkisútgerðarinnar fyrir matsverð n. sjálfrar. Þó geta kröfuhafar að meiri hluta skuldanna krafizt yfirmats, en þá er þeim líka skylt að hlíta því mati.

Allar þessar eignir, sem n. kann að þykja heppilegt, að ríkisútgerðin eignist frá einkafyrirtækjunum, yfirtekur ríkisútgerðin með áhvílandi skuldum, og mega þær nema allt að 8 millj. skv. áður sögðu, auk þess hluta skuldanna, sem bönkunum er gert að skyldu að taka í hlutabréfum ríkisútgerðarinnar. Allar aðrar eignir togaraútgerðarfyrirtækjanna en þær, sem ríki, útgerðin vill taka undir sig, eiga auðvitað að fara á nauðungaruppboðin, sem þýðir í flestum tilfellum ekki annað en að bankarnir yfirtaki þær.

Þannig á þá að takast með ca. 4 millj. höfuðstól frá ríki og bönkum, og ef til vill að einhverju örlitlu leyti frá hluthöfum, að koma upp ríkisútgerðarfyrirtæki, sem getur til að byrja með haft um 12 millj. eignir á hendinni.

En eitthvað þarf nú þetta útgerðarfyrirtæki hins opinbera fleira en fjalirnar, til að fljóta á. Eitthvert fé þarf í sjálfan reksturinn, hvernig sem hann kann nú að ganga. Og eitthvert fé þarf til að launa stjórnarnefndunum eða stjórnarráðunum, sem væntanlega verða sett yfir svona fyrirtæki.

Fyrir þessari hv. d. liggur frv. um, að yfir síldarverksmiðjur ríkisins verði sett ráð og nefndir með 20 mönnum samtals. Ekki mundi ólíklegt, að þurfa þætti fleiri tugina í stj. og yfirstj. og þar yfirstj. svona risalegs fyrirtækis. Og ekki munu slíkar stj. og þar yfirstj., ásamt öllum forstjórum og undirstj. og undirforstjórum á hverjum stað úti um landið vinna alveg kauplaust. Ef miðað er við fóðurþunga þessara 40 manna, sem eru nú í áfengisverzluninni einni saman, þá mundi þetta fólk ekki verða mjög létt á fóðrunum hjá sósíalistískum ríkisstjórnum.

Á það hefir verið bent, og það réttilega, að hjá sumum einkaútgerðarfyrirtækjum hafi laun yfirmannanna verið mikils til of há. Og ég vil segja, að það sé bankanna, sem lána fé til slíkra fyrirtækja, að hafa þar meiri hemil á. En vart munu lægri launin og vart munu færri óþarfamennirnir, sem holað væri inn í eitthvert svonefnt starfið, til að hirða launin, þegar ríkisútgerðin kæmi til.

Hve mikið fé muni þurfa til að undirhalda þetta lið allt og borga allan annan rekstur þessarar ríkisútgerðar, er ekki auðið að segja um að fullu fyrirfram. En allt rekstrarfé verður að taka að láni með siðferðilegri ábyrgð ríkisins, þó að lagaleg ábyrgð sé ekki nefnd í þessu frv. Enda er það sjálfsagt mál, að ef á stað verður farið og útgerðin græðir ekki, þá verður að grípa til ríkisábyrgðar, til að halda uppi rekstrinum, ef ekki á allt að fara í strand.

Sennilega mundi þess í lengstu lög freistað, eftir að slíkt risafyrirtæki væri eitt sinn komið á stofn, að halda því svo lengi gangandi sem unnt væri, í von um, að þó skakkaföll kæmu fyrirþá mundi úr rætast síðar. Enda væri þá ekki auðvelt að kippa snögglega aftur að sér hendinni með slíka útgerð, þar sem fjöldi verkafólks væri þá um leið sviptur þeirri atvinnu, sem það hefði hjá ríkisútgerðinni, í stað þeirrar, sem það nú hefir hjá einkafyrirtækjum. Það gæti því þurft ríkisábyrgð á ríkisábyrgð ofan, hvað lengi sem sú ábyrgð yrði þá á annað borð tekin gild.

Ég ætla nú engu að spá um það, hverjar gætu orðið afleiðingarnar, ef þetta stóra fyrirtæki misheppnaðist, svo að ekki þætti unnt að halda því áfram. Ég ætla aðeins að minna á afdrif eins fyrirtækis, sem áður hefir verið stofnað og var að ýmsu sambærilegt við það fyrirtæki, sem hér á nú að stofna til, þ. e. síldareinkasalan sáluga. Hún starfaði aðeins í 21/2 ár. Eftir þessa stuttu æfi var útkoma hennar sú, að einkasalan hafði ekki aðeins sjálf tapað á 2. millj. kr., heldur töpuðu sjómennirnir og útgerðarmennirnir nær alveg þeirri síld, sem þeir höfðu afhent henni til umboðs síðasta sumarið.

Oft hefir nú leikið á ýmsu um síldarútveg og síldarverzlun landsmanna, en aldrei hafa þvílík ósköp gerzt í þeim atvinnuvegi eins og þegar síldareinkasölunni tókst að eyðileggja bezta markaðinn og svipta fólkið atvinnu sinni, ofan á hennar eigin töp. Sá maður, sem þá var atvmrh., tók í taumana með bráðabirgðalögum um skuldaskil einkasölunnar, áður en hún heldi lengra áfram á sinni óheillabraut. En mundi verða jafnauðvelt að stöðva þessa fyrirhuguðu ríkisútgerð, ef hún væri eitt sinn komin á stofn? Nei, þar mundu svo margir sjómenn og svo margt verkafólk eiga atvinnu sína í húfi, að sérhver landsstjórn væri næstum neydd til þess að halda útgerðinni í rekstri, hve mikill sem rekstrarhallinn væri, nema unnt yrði að tryggja rekstur skipanna í einkarekstri, svo skipin stöðvuðust ekki.

En hver segir það fyrir, með hvaða kjörum unnt yrði að koma slíku risafyrirtæki, sem þessi ríkisútgerð yrði, aftur yfir í annað rekstrarform? Hvernig gekk með sölu skipanna, sem hið opinbera keypti á stríðsárunum? Hve mikið var tapið, þegar þurfti að selja þau? Og hve mikið gæti tapið orðið, ef eigi yrði hjá komizt að selja aftur skip og eignir þessarar ríkisútgerðar? Mundu margir hafa kjark til að hefja á ný sjálfstæðan rekstur í útgerð togara, þegar þeir hefðu séð þess dæmi, hvernig Alþingi gæti með lögum tekið af þeim atvinnutækin, hvenær sem því byði svo við að horfa og eitthvað hallaðist?

Mundi það ekki geta orðið erfiðara þá að koma upp aftur rekstri, óháðum ríkisvaldinu, heldur en nú að styðja hann? Það er a. m. k. gamalt búmannsorðtak, þetta: „Hægra er að styðja en reisa.“ Og ekki mun það orðtak hafa verið gripið úr lausu loftinu, þó að ýmsir vilji nú rífa niður, áður en þeir vita, hvort þeir geti byggt upp.

Það er ekki þar með sagt, að rétt sé að reyna að reisa við öll togaraútgerðarfyrirtækin. Ég geri miklu fremur ráð fyrir, að réttara væri af bönkunum að reyna að koma þeim sumum yfir á aðrar hendur. Og ef bankarnir beiddu um aðstoð ríkisvaldsins til þess að geta stutt hagsýnustu og duglegustu útgerðarmennina og sjómennina til að yfirtaka með sanngjörnu verði þá togara, sem ekki eru nú reknir af nægri hagsýni, þá tel ég það skyldu Alþingis að veita þá aðstoð. En að beita útgerðarfyrirtækin þeim tókum, sem ég lýsti áður, tel ég eigi aðeins ósanngjarnt. heldur alveg fráleitt.

Mér verður að minnast þess, að hversu hátt sem valdamennirnir hafa gumað af því sjálfir eða fyrir munn sinna skósveina, að þeir hafi breytt hallæri í góðæri, þá tala nú staðreyndirnar annað. Á slíkum tímum er þess ekki að vænta, að framleiðslutækin seljist fyrir sannvirði eða það verð, sem fást mundi, ef atvinnuvegirnir byggju við meðalkjör. Hugsum okkur t. d., að send væri matsn. á hendur þeim bændum, sem ekki gætu að fullu staðið í skilum vegna taprekstrar á búinu og þessi n. segði: Þetta, sem ríkið vill taka, það verðið þið að láta af hendi fyrir það verð, sem við metum, ef bankinn ekki mótmælir. Annars fær hann yfirmat, en ekki þið. En hitt, sem við teljum ekki, að ríkið þurfi á að halda, það fer á nauðungaruppboðið.

Ég er ekki í miklum vafa um það, að ef slík aðferð væri höfð við atvinnufyrirtækin almennt í landinu, þá færu mörg þeirra á höfuðið. Ætli það yrðu ekki æðimörg iðnaðarfyrirtækin hér í höfuðstaðnum og víðar, sem færu sömu leiðina með slíku mati og slíkum ráðstöfunum? Og vitanlega yrðu hin stærri iðnaðarfyrirtækin tekin næst til samskonar ríkisrekstrar. Þá held ég, að mætti halda áfram með línuveiðarana. Ekki yrði þeim gleymt, þ. e. a. s. ef ríkið vildi nota þá. Svona mætti elta uppi allan atvinnurekstur landsmanna, allt niður að smæstu fleytunni og upp í afdalakotin, sem þá yrðu líklega gerð að einum allsherjar ríkisafrétti, þegar skipulagningin kæmi til.

Svo að ég tali um fiskiskipin eins og annan bústofn landsmanna, þá minnist ég þess, að togararnir voru eitt sinn kallaðir mjólkurkýr. Vafalaust höfðu menn í þá daga fullkomna oftrú á kúnum þeim. En það verður þó að játa, að þær kýr hafa mjólkað allvel til hins sameiginlega þjóðarheimilis. Og til þess eru vitanlega kýrnar, að þær séu mjólkaðar. Enginn bóndi gleymir þó því, að til þess að kýrin haldi nytinni, þarf hún að vera í holdum. En þetta hefir gleymzt að því er snertir allar mjólkurkýr þjóðarbúsins, framleiðsluna til lands og sjávar. Og togaraútgerðin er þar engin undantekning. Ég sé af skýrslum skipulagsn. atvinnumála, að af öllum togaraflotanum hafa aðeins 5 skip skilað tekjuafgangi 1935. Af þessum 5 skipum eru 2, sem virðast vera í eign sama fyrirtækis og skila samtals 1237 kr. í tekjuafgang.

En hvað bera þessi 2 skip í skatt? Skv. skýrslu skipulagsn. hafa þessi tvö skip greitt í skatt og útsvar og önnur opinber gjöld 37300 kr. á árinu 1935. Og fjöldi skipa, sem rekin hafa verið með tapi, greiðir þó um 20 og upp undir 30 þús. kr. í opinber gjöld. Þetta held ég, að sé að láta kúna mjólka af sér holdin, og hún er fljót að geldast meira, ef svo er að farið.

Og svo eru vextirnir. Bankarnir eru enn í sárum eftir gengishækkunina 1925, sem varð til þess, að Íslandsbanki fór á höfuðið. Og þó að ríkið hlypi undir bagga með báðum bönkunum, þá þurfa þeir enn að vera að vinna upp gömul og ný töp, af því að framleiðslan hefir yfirleitt ekki borið sig, nema í mestu árgæzkuárum, séðan sú gengispólitík var tekin upp, sem fylgt hefir verið síðan.

Töp sín vinna bankarnir upp aftur með því að hafa háa vexti, einkum Útvegsbankinn. enda hefir hann lakari aðstöðu. Hann tekur raunverulega 71/2% vesti af lánum sínum til útvegsins. Og það, sem verra er, að hann gerir ekki neinn mun á vöxtum af rekstrarlánum eftir því, hvort lánað er áhættulán eða gulltryggt.

Ég veit ekki betur en að bankinn taki t. d. alveg sömu vexti af rekstrarláni út á jafnvel fullverkaðan fisk, sem er vátryggður inni í húsi, og út á fisk, sem enn er óveiddur úti í rúmsjó. Ég veit ekki heldur til, að neinn munur sé gerður í vöxtum út á 1. veðrétt í fullverkuðum fiski komnum í hús og vöxtum gegn 2. eða 3. veðrétti. Þetta er ekki aðeins ósanngjarnt, þegar menn verða að bíða lengi með fiskinn. þangað til röðin kemur að honum til útflutnings, heldur er það líka mjög óheppilegt fyrirkomulag af stofnunum, sem eiga að vera einskonar uppeldisskóli fyrir landsmenn í heilbrigðum viðskiptum. Því ef gerður væri hæfilegur munur á vöxtum, eftir því hve tryggingin væri örugg, hliðstætt við það, sem er um fasteignalán gegn 1., 2. og 3. veðrétti, þá mundi það vera hið öflugasta meðal til þess, að menn gættu meiri varfærni um lántökur. þegar léleg trygging er fyrir. Mundi margt fyrirtækið haga sér í ýmsu skynsamlegar, ef hér væri réttari regla upp tekin.

Ég vil því skjóta því til hv. 1. flm., Jóns Baldvinssonar, bankastjóra sjávarútvegsbankans, sem er enginn sósíalisti, heldur hinn launhyggnasti kaupsýslumaður, þegar hann situr í Útvegsbankanum, að hann lagi þetta í sínum banka og beiti sér fyrir hinu sama hjá aðalbankanum, því allir vita, að Jón Baldvinsson er áhrifamaður, þar sem hann hefir áhuga og beitir sér, enda á hann þar ekki við aðra eins ofstopamenn að etja, eins og þá, sem stundum getur tekizt að bera hann ráðum innan hans eigin flokks.

Öll framleiðsla til lands og sjávar þarf lægri vexti, og sérstaklega þar, sem um hinar gildustu tryggingar er að ræða, eins og er um fasteignalán landbúnaðarins. En hið sama gildir vitanlega um þau lán, sem útvegurinn getur boðið nógu gildar tryggingar fyrir. Þetta er því eitt af aðkallandi nauðsynjum útvegsins, eins og framleiðslunnar allrar, að leitazt sé fyrir af bönkum og ríkisstj., með aðstoð Alþingis, um möguleika á hagkvæmari lánum en nú er.

Ég efast jafnvel um, eftir því sem mér er kunnugt um þá vexti, sem bankarnir hér þurfa sjálfir að greiða af rekstrarlánum sínum erlendis, að vextir af vel tryggðum lánum þurfi að vera svo háir sem nú er. Vaxtaþunginn stafar af því, að bankarnir eru að vinna upp gömul töp. En hann stafar ekki af því einu. Hann stafar líka af því, hve sjálfur rekstur bankanna er dýr. Manni hlýtur að vaxa það í augum, að starfskostnaður bankanna skuli vera um 11/4 millj. kr. alls (Landsb. 3/4 millj., Útvegsb. fast að 1/2 millj.). Það er mikið fé, sem þar leggst á atvinnuvegina. Og ég vil enn skjóta því til hv. 1. flm., bankastjórans, að hann beiti sér fyrir meiri hagsýni á þessu sviði, til léttis fyrir atvinnuvegina. Það eru takmörk fyrir því, hve atvinnuvegirnir geta mjólkað. Og bankamennirnir mega ekki mjólka úr þeim blóðið!

Þá eru stimpilgjöldin tilfinnanlegur skattur á rekstrarvíxla veiðiskipanna í viðbót við okurvesti. Það getur ekki heldur talizt heppilegt fyrir viðskiptalífið, að menn freistist til að taka víxla til sem lengst tíma, til að sleppa við stimpilgjaldið.

Þá er það eitt, sem ísl. útvegur á einn við að búa af útvegum allra þjóða. Þ. e. að hér er engin fríhöfn, sem kallað er. Alstaðar annarsstaðar gilda þær reglur, að ef skip leggur á land vörur, sem ekki eiga að notast innan landhelginnar, þá fást þær leystar út úr tollinum. þegar farið er með þær út fyrir landhelgina aftur.

En hér verða veiðiskip, sem koma t. d. með nýtt veiðarfæri, sem ekki er farið að nota áður en siglt er inn í landhelgi, að borga tollinn, þó að þau fari með það strax út fyrir landhelgina aftur. Þetta er mál, sem líka getur snert viðskiptasamninga við aðrar þjóðir. Og það er nauðsyn á, að það sé rannsakað, hvort hér mundi um tap eða ávinning að ræða gagnvart öðrum þjóðum, ef þessu væri breytt. Sé það viðskiptalega rétt gagnvart öðrum þjóðum, þá eigum við að taka upp þeirra háttu í þessu efni. En verði það að teljast athugavert, vegna viðskipta okkar við þær þjóðir, sem hér koma helzt til greina, þá á að bæta ísl. veiðiskipunum þetta upp á annan hátt, t. d. með lækkun eða afnámi útflutningsgjaldsins, sem hvergi mun heldur þekkjast sem gjaldstofn fyrir ríkissjóð, eða öðruvísi en sem gjöld til hafna, nema hér.

Þá eru vátryggingarmál veiðiskipanna í hinu mesta öngþveiti. Mér er sagt, að eftir lok heimsstyrjaldarinnar hafi togari greitt 12–13 þús. fyrir vátryggingu, en nú greiði samskonar togari um 20 þús. Og af skýrslum sest, að ýmsir greiða þar yfir. En í stað þess, að með lægra iðgjaldinu fengu menn bættan hvern sjóskaða, sem var yfir 10 £, þá koma nú 100 £ til frádráttar á hvert sjótjón, og ekkert greitt fyrir það sjótjón, sem er undir 2215 kr. M. ö. o., þau sjótjón, sem tíðust eru og mestan gera kostnaðinn samanlagt í heild sinni, fást alls ekki vátryggð, hér er vafalaust verkefni fyrir löggjafarvaldið og ríkisstj. að reyna að ráða bót á. Enda sambærilegt við aðrar ráðstafanir ríkisvaldsins í hliðstæðum tryggingarmálum.

Þá þarf ríkisvaldið ekki síður að vera vakandi yfir markaðsmöguleikunum, og skiptir þar eigi minnstu máli, ef unnt væri að fá ísfiskstollinn brezka lækkaðan, eða sérleyfi af þeirra hálfu til meira innflutnings. Þeim verður að skiljast, að við getum ekki borgað skuldirnar nema í vörum.

Þetta, sem nú hefir sagt verið, á jafnt við, í hvaða formi eða eftir hvaða skipulagi sem útvegurinn er rekinn. Það á jafnt við, hvort sem skipin eru gerð út sem eign einstakra manna eða hlutafélaga eða samvinnufélaga, sem sumir vilja nú kalla hlutarútgerð, vegna þess skugga, sem fallið hefir á fyrra nafnið fyrir mistökin, sem ég skal ekki gera að umtalsefni.

Mér finnst rangt að skella skuldinni á samvinnuútgerðarfyrirkomulagið, þó að óheppilegir menn hafi sumstaðar gerzt til að framkvæma það. Sannleikurinn er, að mennirnir geta verið óheppilegir og mistökin geta orðið undir hvaða skipulagi sem er. En það er auðvitað mest hætta á þeim mistökum, sem koma af því, að óheppilegir menn veljist til forstöðunnar, þegar hin pólitísku sjónarmið ráða mestu um val stj. og forstöðu, — því að þar er, eins og menn vita. margur leirinn forgylltur. Ég tel því ríkisútgerðina langsamlegasta áhættumest og viðsjálast skipulag í þessum efnum.

Einkaeignarfyrirkomulagið, hvort sem um einn einstakling eða fleiri í hlutafélagi er að ræða, hefir þann ókost, þegar um stórfyrirtæki er að ræða, að þar eru opnar dyr fyrir tortryggni úr ýmsum áttum. Einkum er það mjög óheppilegt, ef það starfsfólk, sem hjá fyrirtækinu vinnur, þykist hafa ástæðu til tortryggninnar, og getur það haft sömu afleiðingar, hvort sem sú tortryggni er á rökum byggð eða aðeins vakin upp af óhlutvöndum mönnum.

Samvinnuútgerðin hefir þar yfirburði að því leyti, að félagsmenn, sem að fyrirtækinu vinna, eiga að geta haft aðgang að því að kynna sér rekstur útgerðarinnar betur en ella, og fleiri ættu að eiga hagsmuna að gæta um það, að útgerðinni farnist vel. En þess atriðis gætir því miður minna í framkvæmd, ef á bak við er svo há ríkisábyrgð að það skiptir sjálfa félagsmennina rétt engu, hvernig fer og á hverju veltur. Of háar ríkisábyrgðir eru því einnig að þessu leyti mjög svo athugaverðar.

Hinsvegar er þú stórmikill ávinningur, ef samvinnu- eða hlutaútgerðinni er svo vel stjórnað, að hún geti komið upp raunverulegum sjóðum, sem geti stutt bæði útgerðina og þátttakendurna að komast yfir erfiðustu árin. Og þar, sem samvinnu- eða hlutaútgerðin ber gæfu til þess að lenda ekki í höndum pólitískra loddara og lýðskrumara, þá hefi ég trú á, að hún sé réttlátt fyrirkomulag og að henni muni farnast vel, þó að reynslan sýni þess hinsvegar ljós dæmi, að sérhvern góðan hlut má herfilega misbrúka. En hitt er sjálfsagt mál, að samvinnuútgerðin verður að taka tillit til þess fólks, sem að henni vinnur í landi, jafnt og til þeirra, sem sjóinn sækja, því annars næst ekki fullkominn árangur. Hlutaskiptafyrirkomulagið hvílir á aldagömlum grundvelli, sem enn hefir lítið haggazt. Það byggist á þeim grunni, sem Rómverjar reistu lögin á, „suum euique“ (hverjum sitt). Það fyrirkomulag er enn tíðast í smáútgerðinni og þyrfti að vera það víðar. En vegna aflaleysisáranna verður þó að tryggja starfsmönnum lágmarkskaup. Enda er það í rauninni ekkert nýtt, því að hlutamennirnir gömlu munu hafa haft viss hlunnindi, sem voru jöfn, hvernig sem aflaðist. En þá þarf útgerðin að geta safnað einhverju í góðu árunum, til þess að geta barið þungann fyrir starfsfólkið. þegar illa árar. Það þarf að hafa það ákveðið í hlutafélagalögunum, á þann hátt, að félögunum væri skylt að safna af ársarðinum í varasjóð, en hluthafar geti aldrei skipt öllum arði. Þessi varasjóður ætti svo að vera skattfrjáls. Þar, sem hlutaskiptum með lágmarkstryggingu verður ekki að fullu við komið, svo sem kann að vera í stórútgerðinni, ef hún er ekki rekin á hreinum samvinnugrundvelli, verður að finna ráð til að sameina betur hagsmuni starfsfólksins og útgerðarinnar, — og sérstaklega að gefa eigi tortryggninni jafnvítt svigrúm til beggja handa og nú er. Í því efni væri mikilsvert, að sem flest starfsmanna hjá útgerðarhlutafélögum ættu, þó ekki væri nema lítinn hlut í útgerðinni. Þeir öðluðust þar með öll aðalfundarréttindi og þar með þátttöku í vali endurskoðenda og stj. E. t. v. mætti og tryggja þennan rétt betur með lögum. Hvort þessari hlutareign yrði á komið smám saman, með einhverri örlágri prósentu af launum yfir vissu marki, er færi stighækkandi eftir hæð launanna, eða með einhverskonar kauppremiu í hlutabréfum, það er mál fyrir sig. En gefið mál er, að slíkir hlutir mættu aldrei reiknast hærra verði en þeir þættu sanngjarnlega metnir af yfirskattanefnd á hverjum tíma. Yrði slíkri þátttöku starfsfólksins í fyrirtækjunum, sem það vinnur hjá, við komið á einn veg eður annan. Þá teldi ég báða aðilja hafa tryggari aðstöðu.

Ef samvinnuútgerðin, hlutaskiptaútgerðin og sú útgerð, sem tíðkazt hefir á togurunum til þessa, fær ekki staðizt, ef sanngjarnt tillit er tekið til þarfa hennar og reynt að vinna að umbótum, þá er eðlilegt, að menn ræði um bæjarútgerð og fyrirkomulag hennar. Skoða ég það sem sérmál hvers kaupstaðar og skal ekki rætt af minni hálfu. Ef sú útgerð fær staðið á heilbrigðum grundvelli við hin sömu kjör og önnur útgerð, þá fæst þar reynsla, sem á verður byggt. Ég skal ekki ræða þá reynslu, sem fengin er á einum stað. Mig brestur kunnugleika til þess, að öðru leyti en því, sem blöðin hafa sagt. En meiri líkur eru til, að bæjarútgerð geti vel farnazt en ríkisútgerð, og styður margt að því, svo sem aðstaða til eftirlits og meira aðhald almenningsálitsins og það, að menn finna því betur, að þeir hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta, ef í þröngum hring er en allt of víðum o. s. frv. En þó hygg ég, að eðlilegra væri, að bæirnir ættu fiskistöðvarnar á landi og leigi þær út með svo lágri leigu sem mögulegt er, en að þeir hafi sjálfan veiðireksturinn með höndum. Og vafalaust hefir ríkissjóður nóg í hættu með sinn eiginn rekstur, þó að hann taki ekki á sig stórar ábyrgðir vegna slíkra bæjarfyrirtækja, enda virðist reynslan vera sú, að ábyrgðartilfinningin sljóvgast við það, ef ábyrgð ríkisins er á bak við.

Ég tel, að til alls annars verði frekar að taka en ríkisútgerðar, og þykist ég hafa fært að því nokkur rök. Það eina, sem gæti virzt henni til meðmæla, er það, sem fram er haldið, að hún tryggði kjör starfsfólksins, sem að henni vinnur í landi og á sjó. En gæti nú ekki einnig það brugðist? Hefir ekki ríkissjóðurinn nægilega mörg járn í eldinum nú þegar? Og gæti það ekki farið svo, að ríkissjóður brenndi sig á sama soðinu og sagt er nú um útgerðarfyrirtækin, að hann hirti gróðann, eða a. m. k. vextina, þegar skár gengi, en stæði svo galtómur uppi, þegar mest þyrfti að hjálpa fólkinu? — Og gæti það ekki verið að leika sér með forlög fólksins, að lofa því fullri forsjá, en geta svo ekki staðið við neitt, þegar virkilega reyndi á? — Og ef öll forsjá og afkoma fólksins í landinu á að vera í höndum þessa Alþingis, þar sem sjálfir stj.flokkarnir gera það að helzta kappsmáli sínu og eru að rifast í þingræðum um það, hvor stj.flokkanna hafi getað komið fleirum af sínum flokksmönnum í atvinnu hjá síldarverksmiðjum ríkisins, þá má eitthvað betur úr rætast en nú horfir, ef allt á að fara vel.

Það verður einhverntíma rifizt um jötuna, einhverntíma bitizt í stalli um moðið, þangað til jatan er tóm!