08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í C-deild Alþingistíðinda. (2244)

114. mál, stuðningur við togaraútgerðina

*Þorsteinn Briem:

Herra forseti! Ég treysti svo mjög á þolinmæði hæstv. forseta síðast, er ég talaði, þar sem ég notaði 13 mínútur fram yfir hinn afskammtaða ræðutíma, að ég mun tala mjög stutt að þessu sinni.

Ég mun þá fyrst víkja orðum mínum að hæstv. atvmrh. Það er nú allmjög haft á orði hér í þinginu, að lífdagar þessa hæstv. ráðh. í ráðherrastóli séu farnir að styttast að þessu sinni.

Má og vel vera, að hann hafi sjálfur hugmynd um, að svo sé, a. m. k. virðist ræða hans benda til þess. því að allur fyrri hluti hennar var líkastur grafskrift yfir honum sjálfum og flokki hans. Og hún var ekki fögur. Eftir stjórnartíð hans var útgerðin í kaldakoli. Togararnir bundnir við hafnargarðinn, og bankarnir vildu ekki lána fé til þess að koma þeim á flot. Þannig lýsti hæstv. ráðh. ástandinu, og það versta við þetta er það, að lýsingin er að nokkru leyti rétt, það er því miður svo komið fyrir mörgum atvinnufyrirtækjum landsins, að þau geta ekki haldið áfram. Þau verða að leggja árar í bát. Að svona er komið, er sökum þess, að gjaldeyrir framleiðslunnar er ekki rétt metinn, þessa staðreynd höfum við Bæandafl.menn bent hvað eftir annað. Hinn sænski hagfræðingur, sem Rauðka fékk á sínum tíma sér til aðstoðar, taldi krónuna um 30% of hátt metna, og þetta mun láta nærri að vera rétt. Fær framleiðandinn þannig ekki í sinn vasa nema 70% af raunverulegu verði framleiðslu sinnar. Það er kvartað undan háum tollum og háum sköttum, en mun þetta ekki vera hæsti skatturinn, sem lagður er á, og það eina stétt manna? Þó að hæstv. ráðh. lýsti ástandinu svona hörmulega, að allt væri í kalda koli, þá var eins og hann tæki inn eitthvert stímúlerandi meðal, þegar hann nefndi orðið „ríkisútgerð“. Þá hresstist hann allur upp, hvessti raustina og sá alstaðar möguleika, alstaðar ráð til þess að veiða þessa og hina fiskitegundina. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh., fyrst útlitið og möguleikarnir um bætta afkomu stórútgerðarinnar er eins glæsilegt og hann lýsti í síðari hluta ræðu sinnar, hvort ekki myndu fleiri koma þar til með að njóta góðs af en aðeins ríkisútgerðin ein. Hvort ekki myndi fara eins og segir í danska máltækinu, að „þegar rignir yfir prestinn, þá drýpur þó eitthvað á djáknann“. Hvort ekki myndi mega vænta þess, að einstaklingarnir yrðu einhvers aðnjótandi ef ríkisútgerðin græddi mikið.

Ef það þannig er rétt, að möguleikar séu u því, að ríkisútgerðin geti grætt, þá finnst mér ekki sanngjarnt að gera kröfu um, að þau togaraútgerðarfyrirtæki, sem ekki eiga fyrir skuldum við bráðabirgðamat, miðað við skyndisölu, skuli gerð upp. Mat miðað við skyndisölu verður aldrei talið réttlátt. Enda eru til fjölmörg dæmi þess, að fyrirtæki, sem ekki hafa verið talin eiga fyrir skuldum, hafa rétt sig við og orðið vel fjárhagslega örugg. Ég þykist líka vita, að mörgum atvinnurekandanum í landinu myndi fara að þykja þröngt fyrir dyrum, ef þeir ættu jafnan von á matsnefndum til þess að meta eignir þeirra, ef eitthvað gengi verr í eitt skipti en annað með atvinnurekstur þeirra, — matsnefndum, sem segðu kannske: Þú átt ekki fyrir skuldum; þú verður gerður gjaldþrota. — Slíkt væri óneitanlega hart og ósanngjarnt. Með þessu er ég alls ekki að biðja um linkind fyrir þau fyrirtæki, sem talizt geta óskilafyrirtæki. heldur hitt, að allrar sanngirni og nærgætni sé gætt.