08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í C-deild Alþingistíðinda. (2249)

114. mál, stuðningur við togaraútgerðina

*Þorsteinn Briem:

Fulltrúi Alþfl., hv. 4. landsk., bar sig eins og venjulega, furðu karlmannlega. Hann var svo sem ekki mjög niðurdreginn, þó að hann hafi nú fengið að heyra allmikinn lestur hjá ýmsum ræðumönnum, sem hér hafa talað í kvöld.

Ég skal ekki svara því að neinu leyti, sem hann deildi á aðra flokka, en aðeins svara nokkru af því, sem hann beindi til mín sérstaklega. Hann hóf mál sitt á því að tala um síldareinkasöluna sálugu, þessa, sem sjálfsagt þótti að gera skuldaskil á — þessa síldareinkasölu, sem tapaði á 3 sumrum á aðra millj. króna, –þessa síldareinkasölu, sem eyðilagði bezta síldarmarkaðinn, sem þá var til, og brást alveg þeirri sjálfsögðu skyldu að borga síldina, sem sjómenn afhentu henni til þess að selja fyrir sig, því að það var ekki fyrir síldina, sem þeir fengu verð, ekki einu sinni fyrir tunnum og salti. Þessi varð útkoman í því háreista fyrirtæki, og eitthvað á líka lund myndi útkoman verða á því fyrirtæki, sem samkv. þessu frv. á að stofna, þó að nú sé hátt á því risið, meðan hv. frv.flytjendur eru að tala fyrir því.

Hv. þm. vildi ráðleggja mér að minnast ekki á innanflokksmál Alþfl. Já, ég skal ekki fara mikið út í það, því að það kemur mér ekki við, en hinsvegar hefði hann ekki átt að vera svo ógætinn að minnast á sín eigin brot, sinn fræga forsetaúrskurð, og ekki heldur átt að minnast á það stjórnarskrárbrot, sem hans flokkur og samstarfsflokkur hans fyrrv. stöðu að.

En aftur á móti var það eftirtektarvert, að hann leiddi hjá sér að svara því, sem ég hafði beint til hans í minni ræðu út af því, sem stendur í 4 ára áætluninni, að m. a. ætti Alþfl. að taka að sér vegna atvinnuveganna að lækka vexti. Ég taldi rétt að beina sérstaklega til form. Alþfl., sem er bankastjóri, að hann hefði átt að beita sér fyrir því að lækka vextina, og þar sem hann ekki væri búinn að því, yrði hann að bæta úr því. Þessu svaraði hann alls ekki. Hann minntist ekki á það, að vextir af lánum at á fullverkaðan fisk eru þeir sömu og út á fisk í sjónum. Hann minntist ekki á, að vextirnir væru neitt lægri af lánum, sem veitt eru gegn beztu tryggingum heldur en lánum sem veitt eru gegn óvissum tryggingum. Það mun þó vera gamalt orðtæki, að það sé vissari sá fuglinn, sem er í hendi, en sá, sem er á húsþaki, og heldur myndu menn vilja kaupa rjúpuna innpakkaða í kassa heldur en á fæti, og má líkja því við fiskinn í sjónum. Kjósendurnir eiga nú eftir að dæma um þessar efndir eins og aðrar efndir á kosningaloforðum Alþfl.

Hv. þm. (JBald) svaraði ekki heldur því, sem ég minntist á út af því, sem hann sagði, að framleiðendur yrðu að bera þunga byrði, m. a. vegna starfskostnaðar bankanna. Ég skaut því til hans, hvort hann vildi vinna að því að lækka þennan kostnað. Mönnum hlýtur að vaxa allmikið í augum, að stjórnarkostnaður Landsbankans skuli vera 34 millj. kr. og Útvegsbankans um 1/2 millj. króna. Þessu svaraði hv. þm. ekki, þótt það sé óneitanlega svaravert. Honum þótti miklu ráðlegra að tala um annað; hann for að segja stærilætissögur af sjálfum sér, og vill ég þó alls ekki segja að hann sé orðinn það gamall, að það hafi verið karlagrobb. En samt sem áður var grobbið mikið, þegar hann var að tala um, að núv. ríkisstj. hefði látið gera meiri framkvæmdir en nokkru sinni hefðu verið gerðar fyrr. Þetta er nú ekki nema að nokkru leyti satt. Það kann að vera, að það hafi verið varið stærri fjárhæðum til aumra hluta, eins og t. d. atvinnubóta. En það hafa ekki alstaðar verið meiri framkvæmdir fyrir það. Ég get t. d. nefnt eitt dæmi, þar sem hefir verið varið kannske allt að því eins miklum upphæðum eins og áður, en ekki verið eins miklar framkvæmdir fyrir þessa sömu upphæð.

Ég get t. d. nefnt vegavinnuna. Árið 1933 voru vegavinnudagsverkin 111 þús., 1934 130 þús., 1935 96 þús., — er ekki 96 þús. minna en 130 þús.? — og 1936 eru vegavinnudagsverkin 95 þús. Þarna munar í þessum tveimur árum 50 þús. dagsverkum samtals. Liggur þá ekki nærri að halda, að það hafi ekki verið gerðar meiri framkvæmdir í tíð núv. stjórnar en fyrrv. stj.? Ég verð því að telja, að þetta dæmi sé eins og annað hjá þeim hv. sósíalistum, meira í munni heldur en í verkunum — meira grobb en virkileiki.