08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í C-deild Alþingistíðinda. (2251)

114. mál, stuðningur við togaraútgerðina

*Pétur Magnússon:

Herra forseti! Ég hefi aðeins 6 mínútur til umráða, svo að það er ekki margt, sem ég get drepið á. Það voru tvo atriði í ræðu hæstv. atvmrh., sem ég vil drepa á nokkrum orðum. Hann var að tala um það, sem er rétt, að útlit væri fyrir, og það væri jafnvel víst, að á þessari vertíð mundu nokkrir togarar liggja inni af því, eins og hann sagði, að það væri enginn maður, sem bankarnir vildu trúa fyrir því að gera þá út. Þetta er rétt. Hver er svo ályktun hans af þessu? Hún er sú, að fyrst enginn fæst til þess að gera togarana út, verði þeir að liggja inni. Hann gerir enga till. um að breyta til um reksturinn á þann hátt, að möguleikar séu á því að reka togarana hallalaust. Hann kemur með alls enga till., sem ekki er fyrir löngu fram komin og ekki hefir verið sýnt fram á, að mögulegt er að framkvæma. Þetta er svo háskaleg braut, að það tekur engu tali. Ef ekki er hægt að gera togarana út af einstökum mönnum, þá er það ekki hægt af ríkinu. Svo talaði hæstv. ráðh. um það með mörgum orðum, hver hætta stafaði af því, ef togaraútgerðin stöðvaðist, — og það er rétt. Það verður ekki of mikið úr því gert, en einmitt af þessari ástæðu er það svo stórkostlega hættulegt að stofna til slíks fyrirtækis, sem lagt er til í þessu frv., af því að þá væri hætta á því, að togaraútgerðin færi alveg í rústir, og miklu meiri, ef stofnað væri til ríkisrekstrar heldur en ef útgerðin væri í höndum einstaklinga, og hefi ég sýnt fram á það í minni fyrri ræðu. Það má í þessu sambandi minna á, hvernig fór, þegar bæta átti úr erfiðleikum síldarútvegsins með einkasölunni, og það er líklegt, að það liði ekki á löngu áður en eins færi fyrir þessu ríkisfyrirtæki, sem hér um ræðir.

Út af því, sem hv. 1. þm. Eyf. beindi til mín, vil ég aðeins geta þess, að ég sagði aldrei, að það hefði enginn maður verið valinn í stj. ríkisfyrirtækis eftir verðleikum. Ég sagði, að það hefði verið undantekning, að svo hefði verið gert.

Þá vil ég drepa á nokkur atriði í ræðu hv. 4. landsk. Hann sagði í fyrri ræðu sinni, að sjálfstæðismenn væru yfirleitt á móti allri nýbreytni í atvinnulífinu, ekki sízt að því er snerti togaraútgerðina. Það er einkennilegt að heyra þetta frá sömu mönnum, sem segja, að sjálfstæðismenn beri ábyrgðina á rekstri togaranna, því að þeir hafi með höndum þessa útgerð. En hvernig má það vera, að þessir menn, sem vitanlega hafa alltaf verið með nýbreytni í rekstri fyrirtækjanna á hverju ári, séu á móti allri þessari nýbreytni, sem þeir hafa verið að framkvæma? Hitt er annað mál, að breyttir tímar hljóta að leiða til þess, að nýjar starfsgreinar séu teknar upp í hverjum atvinnurekstri. Það var ekki eðlilegt, að árið 1924, þegar þorskurinn var svo eftirspurð vara, væri verið að senda togarana til þess að veiða ufsa og karfa, slíkt hefði enginn maður látið sér til hugar koma, því að þá var annar rekstur, sem borgaði sig betur En hitt er eðlilegt og sjálfsagt, að þegar sú atvinnutegund, sem áður bar sig bezt, getur ekki skilað arði lengur, sé gripið til nýrra úrræða, því að það er það, sem breyttir tímar leiða af sér, og það er gagnslaust að ætla að telja mönnum trú um, að slík nýbreytni sé ákveðnum stjórnmálaflokki að þakka. Hv. þm. sagði, að ef Sjálfstfl. hefði verið við völd síðustu 10 ár, hefði síldarbræðslan aldrei komizt upp. Það verður náttúrlega hver að hafa sína skoðun í því efni. Ég er sannfærður um, að ef sæmilega hefði verið búið að einkarekstrinum, ef hann hefði haldið áfram að þróast eins og á árunum 1924–1927, þá væri ekki aðeins búið að koma upp þessari síldarbræðslu, heldur mundi sá atvinnurekstur standa með meiri blóma en hann gerir nú, þó að hann hafi gengið vel siðasta ár. Hitt er ég ekki í neinum vafa um, að ef sæmilega hefði verið búið að einkarekstrinum, væri togaraflotinn nú þegar endurnýjaður miklu meira en raun er á nú. Það er einkennilegt að heyra hv. þm. tala um, að Sjálfstfl. hafi ekki komið fram með nein nýmæli til viðreisnar sjávarútveginum, þegar þess er gætt, að hv. þm. og flokksbræður hans eru að tina upp till., sem Sjálfstfl. hefir komið með undanfarin ár; það er einkennilegt, að þeir skuli bera fram þessar till. hér á Alþingi og hrópa svo út um allt landið, að nú séu þeir að frelsa föðurlandið og það séu þeir, sem hafi fundið ráð til að rétta við þennan atvinnuveg.

Það var eitt, sem þessi hv. þm. sagði og ég er honum alveg sammála um, og það var það, að stærri upphæðir hefðu verið veittar til atvinnubóta en nokkru sinni fyrr, og það væri núv. stjfl. eingöngu að þakka, og það hefði verið öðruvísi, ef Sjálfstfl. hefði farið með völdin. En hvernig stendur á þessari fjárveitingu, og hvers vegna þarf að afla fjár til þessarar fjárveitingar? Þetta stafar af því einu, að atvinnuvegum landsins hefir hnignað. Ég segi bara það, að hver hefir til síns ágætis nokkuð, en ég hélt ekki, að hv. þm. færi að hæla sér og sínum flokki af því, að málefnum landsins hefði verið stýrt þannig, að atvinnulífinu hefði hnignað í landinu á valdatíma þeirra. Ég er viss um, að ef Sjálfstfl. hefði farið með völdin á þessu 10 ára tímabili, hefði aldrei komið til þess, að það hefði þurft að afla þessa mikla fjár, sem á síðustu árum hefir verið veitt til atvinnubóta, heldur hefði verið búið þannig að atvinnuvegunum, að þeir hefðu sjálfir getað notað vinnuaflið og það hefði ekki þurft að leggja nýjar byrðar á þá til þess að hafa eitthvað handa fólkinu að gera. Þetta er það eina, sem ég get verið sammála hv. 4. landsk. um af því, sem hann talaði um afstöðu flokkanna í þessu efni.