08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í C-deild Alþingistíðinda. (2253)

114. mál, stuðningur við togaraútgerðina

*Þorsteinn Briem:

Þetta er síðasta umferðin, og ætla ég því ekki að fara mikið út í deilum við einstaka menn út af orðum, sem fallið hafa, en mér er sagt, að mín fyrsta ræða í þessum útvarpsumr. hafi ekki heyrzt, og ætla og því að drepa nokkuð á það, sem ég sagði þá. Það er rétt að minna á það, sem ég sagði í sambandi við togaraútgerðina. Ég benti á, hversu þungir skattar væru á atvinnuvegunum, sérstaklega á sumum togaraútgerðarfélögum. Ég benti á, hversu óhagstað lánakjör útgerðin ætti við að búa og hversu miklir tollar væru lagðir á hana, og hún nyti jafnvel ekki þeirra réttinda, sem allur sjávarútvegur nýtur í öðrum löndum, að hafa fríhöfn. Ég benti á, að mikið ólag væri á vátryggingarmálum togaraútgerðarinnar, og hversu nauðsynlegt væri að tryggja þessa starfsemi með því að Alþingi tæki þau mál til meðferðar. Ég benti á það, hversu mikil nauðsyn væri á því að leita markaða, að auka innflutning til Englands og lækka þá tolla, sem á þeim viðskiptum eru. Ég benti á, að tilraunum til að afla markaða væri haldið áfram og teknar 30 af hverjum l00 kr., sem við flyttum út fyrir, í því skyni. Ég benti á, að í staðinn fyrir þau félög, sem nú fá ekki lengur að halda útgerðinni vegna skulda sinna, ætti að koma þeim fyrirtækjum yfir á aðrar hendur, með samvinnufyrirkomulagi eða hlutaskiptum. Ég benti á ýmislegt, sem gæti bætt fyrirkomulag og skipulag togaraútgerðarinnar; ég lét bæjarútgerð hlutlausa, því að það er sérmál bæjanna, en ég tel ríkisútgerð varhugavert og áhættusamt fyrirkomulag. Ég tel slíka risaútgerð, sem á að vera svo stór, að hún samsvari allri þeirri togaraútgerð, sem nú er rekin, og hæfilega, ekki aðeins vegna áhættunnar, sem leiðir af að hafa svo mikið á einni hendi, heldur og vegna þess, að ef út á þá braut væri gengið, mundi áreiðanlega ekki verða langt að bíða, að þetta fyrirkomulag yrði tekið upp á fleiri sviðum; iðnaðurinn mundi fljótt koma með og allur stærri iðnaður verða rekinn með þessu fyrirkomulagi. Og Alþfl. hefir gefið loforð um að gera tilraunir með ríkisbúrekstur. Það yrði því næsta sporið, að ríkið yrði látið fara að reka þennan atvinnuveg. Það er sagt, að við minnumst þess, sem Einar bóndi á Þverá sagði, er Noregskonungur bað Íslendinga að gefa sér Grímsey. Hann sagði, að þar mætti færa hér manns, og ef menn legðu langskipum að landinu, mundi mörgum kotbóndanum þykja verða þröngt fyrir dyrum. Þetta 12 millj. fyrirtæki á að fá í hendur eignir samsvarandi nær helmingi allra jarða í þessu landi. Þeir, sem fram á þetta fara, eru því ekki eins lítilþægir eins ag Noregskonungur; þeir biðja ekki um Grímsey, heldur heimta þeir aðra hverja sýslu. Ætli það sé þá ekki bezt að hafa ráð Einars og ljá hvergi á sér fangstaðar, því að ef vér föllum þeim í fang, mun einhverjum bóndanum þykja verða þröngt fyrir dyrum.