08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í C-deild Alþingistíðinda. (2259)

125. mál, Landsbanki Íslands

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og tekið er fram í grg. þessa frv., er það flutt fyrir tilmæli hæstv. fjmrh. Frv. sýnir þær breyt. á landsbankalögunum, sem Framsfl. vill fallast á, að gerðar séu á þessu þingi. Það er aðeins um tvær breyt. að ræða í þessu frv. frá landsbankalögunum eins og þau eru nú. Hin fyrri er sú, að fundir landsbankanefndar séu lögmætir, ef meiri hl. er mættur, eða 8 af 15. í stað þess að 2/3 hl. nefndarmanna þurfa nú að mæta, eða 10. Það sýnist sjálfsagt að hafa þetta svo, og ég fæ ekki skilið, hversvegna svo hefir verið ákveðið í fyrstu, sem raun er á. Með því fyrirkomulagi getur harðvítugur minni hl. komið í veg fyrir, að landsbankanefnd gegni skyldustörfum sínum, t. d. að kjósa bankaráð.

Þá er önnur breytingin, sem lagt er til að gerð verði. Hún er sú, að samþ. landsbankanefndar þurfi að koma til, ef gefa á eftir einum viðskiptamanni bankans meir en 100 þús. kr. Landsbankalögin gera ráð fyrir því, að landsbankanefnd sé hin eiginlega yfirstjórn bankans; það er beinlínis tekið fram í lögunum, og því sýnist eðlilegt, að þegar um svo stórfellda fjármálaráðstöfun er að ræða, að einum viðskiptamanni séu gefnar eftir 100 þús. kr. af skuld, þá sé það ekki gert nema með samþykki yfirstjórnar bankans.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál á þessu stigi þess, en ef þörf þykir að taka fleira fram um það fyrir hönd Framsfl., geri ég ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. geri það. — Legg ég svo til, að málinu verði vísað til fjhn. að þessari umr. lokinni.