14.04.1937
Neðri deild: 38. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (2276)

119. mál, byggingar- og landnámssjóður

*Frsm. (Emil Jónsson):

Það er sjálfsagt ekki ástæða fyrir mig að blanda mér í deilu þeirra hv. þm. Borgf. og hv. þm. Mýr. um það, hvor þeirra sé þingvanari eða viti betur, hvað felst í ályktunum Alþingis. En ég get sagt, hvað fyrir mér vakir sem einum flm. þessarar þáltill., og ég ætla þá að skýra hv. þm. Borgf. frá því, að þessi till. er í beinu sambandi og í framhaldi við till. skipulagsnefndar í þessu efni. Þær till. voru hvorki komnar fram sem traust eða vantraust. hvorki á núv. eða fyrrv. stjórnir, heldur beinlínis vegna þess, að 16. gr. l. um byggingar- og landnámssjóð hafði ekki verið framkvæmd, en skipulagsnefnd taldi nauðsynlegt, að yrði gert. Ég get vel hugsað mér, að ákvæði þessarar gr. hafi ekki verið framkvæmd af þeirri ástæðu, að lán byggingar- og landnámssjóðs hafi verið álitin of dýr fyrir bændur, eins og hv. þm. Borgf. og meðflm. hans halda fram.

Það eru uppi tvær stefnur í þessu máli. Önnur er sá, að fara hægt í lánveitingar og nota til þeirra aðeins hið árlega framlag ríkissjóðs. Hin sú, að taka lán handa sjóðnum til aukinnar starfsemi og nota framlag ríkissjóð til þess að greiða árlegan vaxtahalla sjóðsins. Með till. er lagt til, að tekin sé sú stefna, að auka lánveitingar til bænda. Hún tekur enga afstöðu til þess, hvort þær lánveitingar verði ódýrari en áður fyrir bændur eða ekki. það er náttúrlega alveg rétt hjá hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Borgf., að ef sjóðurinn fær aukið fé til útlána, þá verður sú starfsemi dýrari fyrir sjóðinn, en lánin verða fyrir það ekki dýrari fyrir bændur en þau hafa verið. Hitt er annað mái, hvort framlög ríkissjóðs hrökkva til þess að greiða vaxtamismuninn í sjóðnum, en hvað það snertir er ekkert til fyrirstöðu, því 250000 kr. á ári geta aldrei annað en hrokkið til þess að greiða þann mun. Það mun vera rétt, að kjör bænda, sem lán fá, séu að vísu erfiðari en kjör sjóðsins, en þrátt fyrir það álít ég, að sú leið, sem till. okkar felur í sér, sé vel fær.

Hvað því viðvíkur, að hv. þm. Borgf. og hv. þm. A.-Húnv. bendi á nýja leið til þess að leysa byggingarmál sveitanna með sínum till., þá er það út af fyrir sig rétt, en sú leið er aðeins dulbúin aðferð til þess að fá meira tillag úr ríkissjóði til byggingar- og landnámssjóðs, því það er ekkert annað en framlag úr ríkissjóði að íþyngja byggingar- og landnámssjóði. Ef á að auka framlagið úr ríkissjóði til bygginga í sveitum, þá hallast ég fremur að því, að það framlag yrði beint, en ekki dulbúið, eins og lagt er til í frv. þessara hv. þm.

Nú er um það að ræða, hvort auka eigi lánsfé til bænda, eða hvort veita eigi styrk þeim, er lán fá, eins og þessir hv. þm. vilja vera láta, því til þess að standa straum af núv. vaxtahalla er byggingar- og landnámssjóður fullfær.