14.04.1937
Neðri deild: 38. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (2278)

119. mál, byggingar- og landnámssjóður

*Pétur Ottesen:

Hv. þm. Mýr. var að tala um barnaskap. Það er rétt fyrir hann að leita á náðir sakleysisins, þegar honum er sýnt fram á það, að hann sé að brjóta í bág við hollustu sína við ríkisstj. Ég skal ekki raska ró hans. Ég veit, að skilningur hv. þdm. er svo góður, að þeir þurfa engan skilningsauka frá mér til viðbótar því, sem komið er fram.

Hv. þm. Hafnf. vildi ekki sverja fyrir það, að þáltill. væri vantraust á stj., en ef það væri, þá væri till. einnig vantraust á fyrrverandi ríkisstjórnir.

Af því ég sé hér sitja andspænis mér einn hv. þm., sem áður átti sæti í ríkisstj., þá vil ég taka ráð fram, að gegn honum eða fyrri stjórnum getur þessi till. ekki skoðazt sem vantraust, því það hefir aldrei fyrr komið kvörtun frá Búnaðarbankanum út af því, að ríkisstj. geri ekki skyldu sína í þessu efni; þess vegna er þetta ekki vantraust á aðrar ríkisstj. en þá, sem nú situr. (PZ: Hefir komið nokkur kvörtun frá Búnaðarbankanum?). Hvernig lítur hv. þm. á hv. þm. Mýr.? Er hann ekki einn af bankastjórum Búnaðarbankans? — eða er hann kannske einhver utanveltu —? — ég ætla ekki að segja of mikið.