14.04.1937
Neðri deild: 38. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (2279)

119. mál, byggingar- og landnámssjóður

Páll Zóphóníasson:

Ég veit ekki til, að nein kvörtun frá Búnaðarbankanum hafi komið til þingsins eða forseta þess eða nefnda um það, að ríkisstj. svikist um að leggja byggingar- og landnámssjóði til fé. Slíkt erindi hefir hvorki komið á lestrarsalinn eða verið tilkynnt, og ég er viss um, að ef Hilmar bankastjóri væri spurður um það, hvort hann hefði klagað ríkisstj. fyrir Alþingi, þá segði hann svo ekki vera. — Hitt er annað mál, að meiri hl. landbn. er sammála um að leggja til, að breytt sé um stefnu um lánveitingarnar, og því er þessi þáltill. fram komin.