05.03.1937
Sameinað þing: 5. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (2295)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

*Héðinn Valdimarsson:

Eins og hv. þm. Mýr. lýsti yfir, er þessi till. til þál. borin fram af aðalmönnum og varamönnum af hálfu stjórnarflokkanna í utanríkismálanefnd. Ég skal ekki fara að rekja sögu sjálfstæðismálsins, en aðeins geta þess, að á þinginu 1928 bar Alþfl. fram þá till., að skipuð yrði utanríkismálanefnd. Þessi till. var samþ., og hefir n. starfað síðan. Eftir að þessi n. var skipuð hafa utanríkismálin verið tekin fastari tökum heldur en áður var gert af þingi og stj. Að sjálfsögðu geta alltaf komið ýms mál fyrir í utanríkismálan., sem ágreiningur kann að rísa út af, en það er þó óhætt að segja það með vissu, að meira samkomulag hefir ríkt um þessi mál heldur en innanlandsmálin. En n síðustu tímum hefir það komið fyrir, að Sjálfstfl. hefir hætt að taka þátt í störfum utanríkismálan. Hann hefir að vísu kosið sína fulltrúa í n., en þeir hafa ekki mætt, og þær ástæður, sem menn læra fyrir þessu, eru þær, að hv. form. Sjálfstfl. geti ekki starfað í n. með einum vissum manni, sem er í utanríkismálanefnd; aðrar ástæður hafa ekki verið færðar fyrir þessu. Í þeirri till., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að ríkisstjórnin, í samráði við utanríkismálanefnd, komi með till. og undirbúi meðferð utanríkismálanna eins og þau koma til verða, þegar Ísland hefir tekið þau að fullu í sínar hendur. Ég vil benda á ýmsan undirbúning, sem nauðsynlegur er fyrir utan það, sem að Alþingi snýr, t. d. að undirbúa menn til að rækja ýms störf innanlands og utan í sambandi við þessi mál, svo sem samningagerðir við erlendar þjóðir, og að sjálfsögðu þá ekki sízt sambandsþjóð vora Dani. Það er ekki ætlazt til eftir þessari till., að skilnaður þessara mála fari öðruvísi fram heldur en vinsamlega, og munu Danir sjálfir ekkert hafa á móti því, að þetta fari svo sem öll rök liggja til. Af þeim málum, sem Danir fara með í okkar umboði, eru utanríkismálin þau helztu, og verður ekki annað sagt en að við megum vel við una, hvernig þau mál hafa verið meðfarin af hálfu Dana í okkar umboði. Að sambandslögin feli í sér meiri hlunnindi fyrir Dani heldur en Íslendinga, skal ég ekki um deila, þó að það verði að sjálfsögðu ekki hrakið, að fleiri Danir njóta nú góðs af ákvæðum samningsins heldur en Íslendingar. En þetta er sem sagt mál, sem þarf að hugsa vel og skipa á þann hátt, sem beztur þykir. Ég vildi mega vænta þess, að þetta mál fengi góðar undirtektir hv. stjórnarandstæðinga, og ef það eru aðeins einhver smávægileg formsatriði, sem þeir setja fyrir sig í sambandi við þessa þáltill., þá gefst hér tækifæri til að ræða þau atriði, og vænti ég þess, að slíkt þurfi ekki að standa fyrir því, að allir flokkar geti komið sér saman um afgreiðslu þessa máls.