05.03.1937
Sameinað þing: 5. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (2297)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

*Þorsteinn Briem:

Ég verð að segja, að það gladdi mig að heyra þau orð af vörum hv. 1. flm. þessarar þáltill., að hann hefði kosið, að allir fl. hefðu getað fylgzt að í þessu, máli. Það gladdi mig að heyra það, að hann harmaði, að allir fl. hefðu ekki getað tekið þátt í meðferð þeirra mála, sem nefnd eru utanríkismál. Það gladdi mig að heyra þau ummæli af hans vörum, að utanríkismálin væru sameiginlegt vígi allra landsins barna og tákn þess, að þau stæðu enn í sínu fulla gildi orð Fjölnismanna: „Íslendingar viljum vér allir vera“. Þessi orð glöddu mig mjög. Og ég efast ekki um, að þessi orð hv. 1. flm. hafi verið mælt af einlægum hug. En jafnframt því get ég ekki orða bundizt, að þessi orð, svo gleðileg sem þau voru, vöktu hjá mér nokkra undrun, ekki vegna þess, að ég efist um, að sá, sem orðin mælti, meini þau, heldur vegna þess, að hjá þeim ráðandi stjórnarflokkum hefir þetta skoðunarmið og löngun í þessa átt ekki komið ljóslega fram. Skal ég ekki að þessu sinni fara nánar út í að telja til þess dæmi, heldur aðeins minna á, að á undanförnum þingum hefir það átt sér stað, þótt það sé í allmiklu ósamræmi við þessi orð, að einn flokkur þingsins hefir með sameiginlegum atkv. þessara flokka á þingi verið útilokaður frá að fylgjast á formlegan hátt með í meðferð utanríkismála í gegnum utanríkismálanefnd. Ég verð að skilja þessi orð hv. flm. þannig, að hér sé ný stefna tekin að þessu leyti, og þá get ég fagnað því.

Bændafl. getur lýst því yfir, að hann aðhyllist þá yfirlýsingu, sem Tryggvi Þórhallsson gaf á þingi 1928 um utanríkismál. Bændafl. getur tekið undir þau orð hv. flm. till., að Íslendingar verði að treysta sjálfum sér, svo í utanríkismálum sem í öðrum málum, ef þar á að nást æskilegur árangur. Þetta hefir reynslan sýnt, m. a. í þeim dæmum, sem áður hefir verið vitnuð í, samninga okkar við okkar næstu þjóðir, og einnig samninga okkar við aðrar helztu viðskiptaþjóðir okkar, svo sem ítalíu, Spán og Þýzkaland.

Hv. l. flm. mælti á þá leið, að menn mundu vera misjafnlega trúaðir á það, hversu fær þjóðin væri til að auka öll sín mál í sínar eigin hendur. Ég vil taka það fram, að ég kannast ekki við þess dæmi, að neitt hafi komið fram frá núv. þingflokkum, sem sýni þetta, nema ef vera skyldi það, að þess hefir orðið vart nú á síðustu árum, að sá sligandi væri í sumum málum, sem snerta utanríkismálin, sérstaklega landhelgisgæzlunni, eins og verið hefir á undanförnum árum í ýmsum öðrum málum, sem utanríkismálunum við koma. En með því að ég óska ekki eftir umr. um það mál í sambandi við þessa þáltill., skal ég ekki segja fleira um það.

Ég hygg því, að öllu athuguðu, að um stefnuatriði þessa máls verði ekki ágreiningur. Hitt getur orðið skoðunar- og jafnvel álitamál, á hvern hátt við eigum að undirbúa okkur undir það, að taka þessi mál öll í okkar hendur, og hvað snertir það atriði þá tel ég, að þessi þáltill. gefi þegar tilefni til nokkurs ágreinings, þar sem það er ekki sérstaklega tekið fram í þessari till., að öllum flokkum þingsins skuli gefast kostur á að taka þátt í og fylgjast með þeim undirbúningi, sem þar er fyrirhugaður. Vil ég í því sambandi vitna til þeirra ágætu orða, sem hv. 1. flm. lét falla, að það væri sín ósk, að allir flokkar þingsins gætu fylgzt með í þessum málum.

Viðvíkjandi þeirri brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 71, get ég tekið fram, að ég tel 1. málsl. brtt. öllu skýrari en tilsvarandi málslið í aðaltill., en síðari málsl. hefir þann kost að mínum dómi, að hann tryggir öllum flokkum þingsins rétt til að fylgjast með og taka þátt í ákvörðunum og undirbúningi þeirra mála, sem hér ræðir um. Mun ég því greiða atkv. við þessa umr. með þessari brtt., en vil hinsvegar fyrir hönd þess flokks, sem ég tilheyri, áskilja mér rétt til að bera fram brtt. við síðari umr. En ég vil taka það fram, að af hendi Bændafl. er það skilyrðislaus krafa, að allir flokkar fái rétt til að fylgjast með og taka þátt í þeim undirbúningi, sem nauðsynlegur er til þess, að okkar íslenzka ríki geti tekið stjórn allra sinna mála í sínar hendur.