16.02.1937
Efri deild: 2. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

Kosning fastanefnda

Magnús Guðmundsson:

Ég geri ekki ráð fyrir, að Sjálfstfl. hafi neitt við það að athuga, þó að fjölgað verði í þessum tveimur n. Úr því að til eru starfskraftar í hv. d., sem ella verða ónotaðir, finnst mér óráðlegt að taka ekki góðu boði um framlag slíkrar vinnu.

En að því er það snertir, að svo náin samvinna sé milli Bændafl. og Sjálfstfl., að það sé hægt að koma þessu fyrir með bandalagi á milli þessara tveggja flokka, þá vil ég segja hv. þm. S.-Þ. það, að mér finnst stjórnarflokkarnir vilja hafa sína umboðsmenn í n., þó að þar sé náin samvinna á milli, og ef hv. þm. S.-Þ. vill líta sér nær, ætti hann að skilja það, að Bændafl. vill hafa sína eigin umboðsmenn í aðalnefndunum. Annars ætla ég ekki út í neitt pólitískt karp við hv. þm. S.-Þ., þó að hann vildi ympra á því. En út af því, að hv. þm. S.-Þ. sagði, að Sjálfstfl. bæri ábyrgð á því, að Bændafl. sé til, þá held ég, að ábyrgðin sé mest hjá hv. þm. sjálfum, sem er svo ráðríkur í sínum flokki, að hann rak þessa menn burt. Hann ætti ekki að kenna öðrum um það, sem er vissulega hans eigin sök.

Annars skal ég ekki fara út í að ræða samvinnu milli flokka. Eftir að nú er komin á samfylking milli þriggja flokka hinumegin, þá held ég, að þeir ættu ekki að vera að öfundast yfir því, þó að hinir 2 (JJ: Eru ekki 3 þeim megin?) séu ekki að fjandskapast, því að stj.fl. ættu að hafa nægan liðstyrk þar á móti. Annars hefir engin samvinna verið gerð milli Bændafl. og Sjálfstfl.