05.03.1937
Sameinað þing: 5. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (2302)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

*Þorsteinn Briem:

Ég get þakkað hv. síðasta ræðumanni fyrir þau orð, að sjálfsagt sé að hafa samvinnu við Bændafl. um þetta mál og að flokkurinn eigi rétt á að eiga sæti í utanríkismn. Ég skoða því sem tekin aftur ummæli hæstv. utanríkismrh., þar sem hann virtist aðeins vilja bjóða Bændafl. upp á leið, sem honum er ekki fær. Þakka ég hv. þm. sem ráðandi manni í Alþfl. þessi ummæli og skoða þau sem síðustu yfirlýsingu hans. Gleðst ég yfir þessari yfirlýsingu, því að annars hefði ég orðið að líta svo á, sem aðrir flokkar ætluðu sér að troða á rétti eins flokks, rétti, sem þingflokkar eiga allir.