05.03.1937
Sameinað þing: 5. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (2303)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég get látið mér vel líka undirtektir þær, sem málið hefir fengið við þessa umr., því að þær hafa sannað það, sem ég hefi haldið fram, að hv. þm. myndu yfirleitt sammála um meginatriði þessa máls.

Ég þarf ekki að ræða það frekar en gert hefir verið af hv. 2. þm. Reykv., hvort ástæða hafi verið til fyrir okkur að taka það fram í till., að við álitum rétt að segja upp sambandsl., þegar tími væri til kominn. Flokkarnir eru áður búnir að gefa yfirlýsingu um þetta mál, og verður að skoða hana sem þeirra síðasta orð í málinu, meðan ekki kemur annað fram, og álítum við því óþarft að taka þá yfirlýsingu serstaklega upp í till. okkar. Álítum við, að till. beri það fullgreinilega með sér, að flokkar þeir, sem að henni standa, séu í aðalatriðum sammála í þessu efni.

Hv. þm. G.-K. fór nokkuð nákvæmlega út í sum atriði viðvíkjandi sambandsl. og óskaði t. d. eftir því, að flokkarnir gæfu yfirlýsingu um það, hvaða afstöðu þeir vildu taka til ákvæðanna um ríkisborgararétt. Um þetta er það að segja, eins og ég hefi þegar tekið fram, að fyrir liggur yfirlýsing um það, og samkvæmt henni er gert ráð fyrir, að þegar lögunum sé sagt upp, þá sé um leið skuldbindingum í því efni lokið. Í umr. um landhelgisgæzlu hefi ég minnzt á þetta og látið í ljós það álit, að sameiginlegum ríkisborgararétti ætti að vera lokið með uppsögn sambandsl. En að því er landhelgisgæzluna snertir, álít ég ekki rétt að ræða það mál nú, meðal annars af því, að ég veit ekki betur en að fyrir liggi till. frá sjálfstæðismönnum um það efni, og verður þá það atriði væntanlega rætt í sambandi við hana.

Þá sagði hv. þm., að það væri rangt hjá mér, að það gilti einu, hvort mál þetta færi í utanríkismn. eða n. þá, sem þeir sjálfstæðismenn vilja skipa. Ég sagði ekki þetta, heldur hitt, að það mætti gilda Sjálfstfl. einu, hvor n. væri, því að hann myndi fá inn í hina nýju n. suma þá sömu menn og hann á nú í utanríkismn. Hitt er ekki mín skoðun, að það gildi einu, hvor n. sé, því að utanríkismn. er sú, sem samkvæmt þingsköpum á að fara með utanríkismálin, og þeir, sem í henni sitja, ættu yfirleitt að vera öðrum kunnugri þessum málum. Hv. þm. benti á, að sá ljóður væri á ráði utanríkismn., að Bændafl. ætti ekki sæti í henni, og hv. 10. landsk. gerði einnig kröfu til sætis í n. fyrir hönd þess flokks. Ég get sagt eins og hv. 2. þm. Reykv., að ég hefði ekkert á móti því, að Bændafl. ætti sæti í n. Ég tel rétt að fylgja þeirri reglu, sem fylgt hefir verið fram að þessu, að gefa öllum flokkum kost á að sitja í utanríkismn. Hitt er annað mál, að það gæti orðið örðugt viðfangs, ef flokkarnir yrðu margir, en sæti í n. hinsvegar takmörkuð að tölu. En það vill nú svo vel til, að í sögu n. er til fordæmi um það, hvernig leysa má þetta mál. Frá því 1928, þegar n. var fyrst sett á stofn, og til 1934 var það svo, að Alþfl. hafði ekki bolmagn til að fá fulltrúa í n., en það mál var þá leyst þannig, að stærsti flokkur þingsins, Framsfl., dró einn mann sinn út úr n., til þess að Alþfl. gæti fengið þar sæti. Nú fyndist mér viðeigandi, að þessari reglu væri fylgt, að stærsti flokkur þingsins, sem flesta fulltrúa í n., tæki einn mann sinn úr n., til þess að annar flokkur, sem engan á, gæti fengið þar sæti, og ætti þetta að geta orðið nú, ekki sízt með tilliti til þess, að þeir flokkar, sem hér er um að ræða, eru báðir í stjórnarandstöðu og ættu því að geta unnið saman, og þar sem slík ráðstöfun myndi í engu raska hlutföllunum í n.

Vil ég að síðustu leggja til, að málinu verði vísað til utanríkismn., og gefst þá væntanlega tækifæri til að athuga nánar orðalag till. milli umr. Fer ég þess því á leit við hv. sjálfstæðismenn, að þeir taki sína till. aftur við þessa umr., svo að hægt verði að athuga báðar till. og full eining geti orðið við síðari umr.