15.04.1937
Sameinað þing: 10. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í D-deild Alþingistíðinda. (2329)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

*Héðinn Valdimarsson:

Í sambandi við þetta mál hefir ekki þótt nauðsynlegt að koma fram með till. um konungssamband okkar við Dani. Í því sambandi hefir ekki verið spurt um annað en till. Sjálfstfl., sem telur sig vera forvígisfl. sjálfstæðismála þjóðarinnar, en er það ekki og hefir aldrei verið. Það er ekki hægt að sakast við ykkur alþýðuflokksmenn fyrir það, þó að við spyrðum um till. Sjálfstfl. í þessu efni. Og það er ekki hægt að neita því, hvorki fyrir hv. þm. G.-K. eða aðra, að þetta mál, konungssamband okkar við Dani, er eitt af mestu málefnunum í þessu sambandi. Það er mikið höfuðatriði í sjálfstæðismálum þjóðarinnar, hvort við verðum undir konungi, sem er erlendur maður og konungur í öðru ríki, eða landið verður lýðveldi, þegar við getum neytt uppsagnarákvæða sambandslagasamningsins. Og að vera að tala um, að með því að minnast á þetta stóra mál og gera fyrirspurn um það til Sjálfstfl. sé verið að reyna að vekja deilur, er vitanlega fjarstæða. Við alþýðuflokksmenn erum ekkert að deila við Sjálfstfl. út af þessu. Ég hefi krafizt yfirlýsinga af hálfu flokkanna um það, en engin svör fengið. Hitt er annað mál, að ef ekki verður hægt að fá nein svör frá flokkunum um þetta efni, og sérstaklega þó ef þeir snúast á móti afstöðu Alþfl., Þá verður þetta stórt deilumál. Ég álít, að fólkið í landinu eigi heimtingu á að fá að vita um afstöðu flokkanna einnig hvað þetta snertir.

Ég ætla ekki að fara inn á persónu hv. þm. G.-K. Hann er vanur, þegar hann stendur upp, að tala m. a. um útlit mitt og skaplyndi, en ég ætla að láta hann einan um slíka hluti.