16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (2343)

136. mál, fuglafriðunarlög

*Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég hefi ásamt 2 öðrum hv. þm. leyft mér að bera fram till. til þál. um endurskoðun 2 hinum almennu fuglafriðunarlögum, en eins og kunnugt er, þá eru lög þessi orðin gömul og þurfa því endurskoðunar við. — Sérstaklega eru það tvö atriði í þessum lögum, er telja verður mjög óheppileg og því þörf á að breyta. Það eru fyrst ákveðin um friðun álfta og álftareggja, og í öðru lagi tilhögunin á friðun rjúpunnar. Eins og ýmsa hv. þm. mun sennilega reka minni til, þá bar ég fyrir nokkrum árum fram frv. um að ófriða álftina, en það náði ekki fram að ganga. Síðan hefi ég fengið mjög ákveðnar áskoranir um að taka það frv. upp aftur, eða þá að reyna með öðru móti að fá álftina friðaða, því að reynslan er margbúin að sanna það, að þegar góðæri eru, þá fjölgar henni svo mjög, að hún verður víða hreinasta plága, t. d. er víða kvartað um það, að hún eyðileggi engjar manna. Í Skagafirði er hún talin hinn mesti vágestur í flæðiengjunum. Þegar búið er að hleypa úr áveituhólfunum á vorin og nýgræðingurinn er að byrja að koma upp, þá dregur hún hann upp með rótum eða sparkar honum niður. Fyrir þessu eru menn með öllu varnarlausir, því að ekki má stugga við þessum fagra fugli. Þá eru álftirnar líka hinir mestu vargar í veiðiám og vötnum. því að það er sannað, að þær leggjast á uppfæðing lax og silungs. Oft ráðist þær og á sauðfé manna, sérstaklega á lömb á vorin, og valda á þann veg töluverðu tjóni. Það þarf því að taka fleira með í reikninginn en hinn „fagra svanasöng“, þegar um álftirnar er rætt. — Annars er það svo, að friðun álftarinnar kemur ekki fyllilega að notum. því að þegar harðæri er, fellur hún oft í stórum stíl, og er það sízt betri dauðdagi fyrir hana en þó að hún sé skotin. Það má vel vera, að menn greini á um það, hvort rétt sé að ófriða álftina með öllu, en hitt má þó athuga, hvort ekki sé rétt að ófriða hana í þeim héruðum, sem svo mikið er af henni, að hún gerir mikinn usla og veldur verulegu tjóni.

Þá kem ég að rjúpunni. Hún er alfriðuð allt árið, nema frá 15. okt. til 31. des. ár hvert, og getur auk þess verið alfriðuð ár og ár í senn með stjórnartilskipun. Þetta verður að teljast óheppilegt, því að úr því að leyft er að veiða rjúpu á annað borið, þá getur varla annað komið til mála en að hafa veiðitímann rýmri en lögin ákveða, þegar rjúpnamergð er mikil og markaður góður fyrir hana, því að það er alkunnugt, að þegar rjúpan hverfur eða fækkar snögglega, sem oft kemur fyrir, þá er það ekki af manna völdum, heldur af einhverjum öðrum ástæðum, sem menn þekkja ekki enn sem komið er með vissu.

Ýmislegt fleira þarf og að athuga í sambandi við fuglafriðunarlögin, eins og t. d. það, hvort rétt sé, að egg þeirra fugla, sem friðaðir eru, séu líka friðuð. Af öllum þeim ástæðum, sem ég nú hefi nefnt, tel ég rétt að taka fuglafriðunarlögin til gagngerðrar endurskoðunar og láta kunnáttumenn okkar á þessum sviðum fara höndum um þau.