01.03.1937
Sameinað þing: 4. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (2358)

34. mál, sjómælingar og rannsóknir fiskimiða

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Kostnaði við sjómælingarnar í fyrra var eftir samkomulagi skipt milli ríkissjóðs og fiskimálasjóðs. Ég vildi beina því til fjvn., sem ég geri ráð fyrir, að fái þetta mál til athugunar, að hún setji sig gaumgæfilega inn í kostnaðarhlið málsins. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að fiskimálasjóður ætti að borga verulegan hluta þess kostnaðar, sem af þessu leiðir. — Þá vil ég benda á, hvort ekki væri rétt, að varið væri árlega einhverri upphæð í þessu skyni. Vildi ég benda fjvn. á að athuga, hvort hún teldi heppilegt að setja einhverja vissa upphæð í fjárlög næsta árs, sem verja ætti til þessa máls.