19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (2385)

158. mál, hafnarbætur á Raufarhöfn

*Flm. (Gísli Guðmundsson):

Þeir, sem til þekkja, telja mikla nauðsyn vera á því að gera ýmsar umbætur á höfninni á Raufarhöfn, dýpka hana og bæta innsiglinguna. Eins og kunnugt er, þá er höfn þessi mikið notuð um síldartímann, og væri miklu meira notuð, ef hún væri betri. Það er því vegna þeirrar notkunar, sem sérstaklega er nauðsynlegt og aðkallandi að gera þarna umbætur.

Það er orðið nokkuð langt síðan höfn þessi var mæld upp, og eitthvað lítilsháttar hefir hún verið athuguð síðan fyrir tilhlutun vitamálaskrifstofunnar, en skjallega liggur ekki neitt fyrir um þær athuganir. Eins og sjá má á till., þá er hún ásamt mér flutt af hv. þm. Ísaf., sem, eins og kunnugt er, er formaður í síldarútvegsnefnd. Að hann er meðflm. að till., er vegna síldveiðiflotans, hinnar miklu nauðsynjar, sem flotanum er á því að fá sæmilega höfn á þessum stað. — Ég mun svo ekki hafa þessi orð mín fleiri, en vænti þess, að hv. dm. skilji þá nauðsyn, sem hér er um að ræða fyrir síldveiðar landsmanna, og samþ. till.