17.04.1937
Sameinað þing: 11. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (2390)

147. mál, framkvæmdaleysi í jarðrækt

*Flm. (Jón Ólafsson):

Ég skal verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að halda ekki langa ræðu. Það, sem hefir komið af stað hugleiðingum um, hvernig ræktun á allmörgum jörðum er háttað, eru þær breyt., sem gerðar voru á síðasta þingi og mikið hefir verið rætt um bæði í blöðum og á mannamótum, og er það sérstaklega annar kafli jarðrækarlaganna, sem um þetta fjallar, og það, að því hefir verið haldið fram, að þetta framkvæmdaleysi að því er snertir ræktun allmargra býla stafaði að allverulegu leyti af því, að bændur, sem á þessum býlum búa, hafi fengið tiltölulega of lítinn styrk fyrir það, sem þeir hafa gert, og þess vegna hníga breyt. á jarðræktarl. í þá átt að lækka jarðræktarstyrkinn hjá þeim bændum, sem mikla jarðrækt höfðu með höndum, en láta hina fá 20% hærri styrk, eða m. ö. o., að þeir, sem hafa fengið undir þús. krónum fyrir jarðabætur, skyldu fá 20% meira. Ég held, að fáum hafi dottið í hug, hvað aumt ástandið í þessum efnum er yfirleitt á landinu, og ég verð að segja, að þegar ég fór að hugleiða þetta, sá ég undireins, að þau 20%, sem menn áttu að fá til viðbótar í jarðræktarstyrk, mundu ekki gera nokkurn skapaðan hlut til þess að leysa úr þessum vandræðum. Þegar ég rakst á þessar rannsóknir í „Rauðku“ eftir skipulagsnefnd atvinnumála, varð ég dulítið hissa á því að sjá, hvernig ástandið er. Ég veit ekki til, að Búnaðarfélag Íslands hafi gert sér þá grein fyrir þessu máli, sem að gagni má koma, og yfirleitt hygg ég, að mönnum hafi ekki verið vel kunnugt um, hvernig ástandið í þessum efnum er í raun og veru. Sú bót, sem átti að ráða á þessum vandræðum, kom mest fram í því að lækka styrkinn til þeirra, sem mest höfðu unnið að ræktun landsins; skipulagsnefnd hefir rannsakað þetta allýtarlega, og í skýrslum hennar kemur það fram, að 496 býli á landinu hafa ekki fengið eina krónu í jarðræktartyrk: 753 býli hafa fengið til jafnaðar 4,50 kr. í þessi 10 ár, sem jarðræktarlögin hafa gilt, og 2141 býli, sem unnið hafa að jarðarbótum, hafa fengið frá 100–500 kr. styrk allan tímann, hafa aðeins fengið 25 kr. að meðaltali á ári öll þessi ár, sem jarðræktarlögin hafa verið í gildi.

Þegar litið er á það, að meira en helmingur allra býla á landinu hefir ekki notað sér þessi fríðindi jarðræktarlaganna, er það fyrirsjáanlegt, að þau 20%, sem boðin eru fram yfir það, sem verið hefir, munu koma að mjög litlu gagni, því að þau 733 býli, sem ekki hafa fengið nema 4,50 kr. til jafnaðar árlega, mundu aðeins fá um 90 aura hækkun frá því, sem verið hefir. En þau, sem hafa fengið að meðaltali 25 kr., fá 5 kr. hærri árlegan styrk fyrir það, sem þau gera. Og það er engin ástæða til að ætla, að þessi 20% muni hrinda þessum málum svo í framkvæmd, að nokkurt verulegt gagn verði af. Það verður því að leita einhverra annara ráða. En fyrst verður að rannsaka, af hverju þetta stafar. Það getur verið, að þessi býli hafi miklar flæðiengjar, og það getur einnig verið, að fjöldi býla þurfi ekki á jarðrækt að halda vegna þess, að þau hafi nytjar af veiði í sjó eða vötnum, en það getur líka verið, að ábúðarréttur margra bænda sé svo hæpinn og svo festulaus, að þeir þess vegna vilji ekki verja fé sínu til jarðræktar. En ég ætla nú fljótt á litið, að fjöldi bænda sé svo settur, að þeir geti ekki af eigin rammleik lagt fé svo nokkru nemi á móti jarðræktarstyrknum, og ef svo er, þá er sannarlega ástæða til að rannsaka þetta mál og síðan leita ráða til þess að gera býli þessara manna lífvænleg, því þegar um er að ræða fátækt og framkvæmdaleysi, þá er ástæða til að hefjast handa, vegna þess að það er vitanlegt, að það þarf ákveðið ræktað land — a. m. k. þar, sem ekki eru flæðiengjar, — til þess að hægt sé að hafa lífvænlegan bústofn, en ég geri ekki ráð fyrir meira til að byrja með. — Samkv. jarðamatinu 1932 er töluvert á þriðja þúsund grasbýla á landinu, sem hafa minna en 3 ha. ræktaðs lands til að lifa á, og töðufengur á allflestum býlunum er ekki nema 30 kaplar af ha. Ég sé því ekki, hvernig þessir menn eiga að komast af, hvað þá að þeir hugsi um að hafa eitthvað meira en nákvæmlega til hnífs og skeiðar, eins og t. d. að byggja sæmileg húsakynni, bæði fyrir menn og skepnur. Þetta ástand er svo ömurlegt sem hugsazt getur.

Annars er hægt að gera um þetta allmargar aths., og það er hægt að fara inn á ýmislegt, sem sýnir enn betur ástandið í sveitunum hvað snertir verðmæti ræktaðs lands og húsakynna, sem menn eiga við að búa. — Samkv. fasteignamatinu frá 1932 eru 4487 býli, eða 78% af öllum býlum landsins, að verðmæti til jafnaðar í kringum 8 þús. kr. á býli. Og ég get ekki skilið, að á því býli, sem er að fasteignamati undir 10 þús. kr., geti verið um sæmileg húsakynni að ræða eða yfirleitt nokkur þægindi.

Ég er því sammála þeim, sem nú koma með till. um að lyfta undir það, að býlin verði betur byggð, og er það ekki hvað sízt nauðsynlegt, þar sem sjávarútvegurinn hefir gengið svo illa sem raun er á, að keppt verði að því, að sem flestir tolli á sínum býlum og að þau verði aukin svo, að fleira fólk geti á þeim lifað heldur en að undanförnu hefir verið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta miklu fleiri orðum. Í raun og veru er þetta mál þannig, að það er ekki hægt að segja neitt ákveðið um það. Fyrsta sporið verður því að vera það, að fá rannsókn á þessum atriðum og skýrslur þar að lútandi. Ég hefi lagt til, að Búnaðarfél. Ísl. gerði falið að annast þessar rannsóknir, að svo miklu leyti sem það getur annað því. En vel getur verið — ég er ekki svo fróður um þessa hluti, að ég geti um það sagt, — að eitthvað þurfi að ferðast til þess að kynna sér allar ástæður, því í jarðamatinu stendur aðeins, að hlunnindi séu þessi og þessi, en ekkert hvað mikil þau séu, og ég get vel hugsað, að það þurfi töluvert mikla nákvæmni til að komast að því, af hvaða ástæðum menn hafa ekki hafizt meira handa um jarðrækt heldur en raun hefir verið á.

Að svo mæltu vil ég mælast til þess, að málinu verði vísað til síðari umr. að þessari umr. lokinni.