17.04.1937
Sameinað þing: 11. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (2397)

152. mál, raforkuveita til Hafnarfjarðar og aðrar raforkuveitur

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Út af fyrri lið þessarar till. skal ég geta þess, að um áramótin síðustu var samkv. l. nr. 28 23. júní 1932, um undirbúning á raforkuveitum til almenningsþarfa, skipuð raforkumálanefnd, og var meginverkefni hennar að rannsaka og undirbúa þau mál, sem lúta að vatnsvirkjun, og jafnframt var henni falið að gera heildartill. um skipun þeirra mála. — Sogsvirkjunin verður sennilega fullgerð á næsta hausti, og það hefir nokkuð verið unnið að rannsókn á raforkuveitum út frá henni, en eftir er að taka ákvörðun um rekstrarfyrirkomulag og eignarumráð yfir þeim veitum, en það er m. a. verkefni raforkumálan. Hinsvegar er nú sýnt, að útilokað er, að hægt sé að fá till. frá henni nú á þessu þingi, þannig að ekki er unnt fyrr en á næsta þingi að ganga frá þessum málum. — En nú er svo ástatt um Hafnarfjarðarkaupstað, að hann hefir þörf fyrir mikið og ódýrt rafmagn, og Sogsveitunni er einnig þörf á að koma orku sinni í peninga. Þess vegna lít ég svo á og er raforkumálanefnd sammála í því, að nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir til þess að leggja línu til Hafnarfjarðar, þótt ekki sé búið að ákveða framtíðarskipulag raforkumálanna. — Í till. er gert ráð fyrir því, að Reykjavíkurbær leggi línu frá Vífilsstöðum til Hafnarfjarðar, en ríkissjóður ábyrgist, að línan verði yfirtekin, bænum að skaðlausu, þegar ákveðið verður um framtíðarskipulag veitunnar. — Ég skal geta þess, að ég hefi um þetta rætt við borgartjórann og bæjarráð, og útlit er fyrir, að samningar geti tekizt. Hinsvegar er — ef samningar takast ekki — ríkisstj. gefin heimild til þess að leggja þessa Vífilsstaðalínu, sem áætlað er, að kosta mundi um 80 þús. kr.

Annar liður till. fjallar um heimild fyrir ríkisstj. til þess að láta rannsaka frekar en þegar hefir gert verið raforkuveitur út frá Sogsvirkjuninni sunnanlands og virkjun Laxár norðanlands. — Á þessu þingi liggja fyrir allmargar till. um sérstakar rannsóknir á tilteknum veitusvæðum, en sú till., sem ég flyt hér, nær út yfir þær allar. — Nokkrar línur hafa þegar fengið dálítinn undirbúning og áætlun auk Hafnarfjarðarlínunnar. T. d. er lína til Akraness áætluð kosta um 300 þús. kr., með lögn á nokkra bæi; lína til Eyrarbakka og Stokkseyrar, einnig með lögn á nokkra bæi, um 260– 280 þús. kr., og lína frá Hafnarfirði til Keflavíkur um 320 þús. kr., líka með lögn á nokkra bæi. Þessar áætlanir hafa verið gerðar eftir athugun á landslagi, og skortir ekkert annað en að fullgera nokkrar mælingar og fá endanlegar útboðslýsingar. — þá hefir og verið gerð lausleg athugun á línu um Rangárvellina og þaðan til Vestmannaeyja, og er sá kostnaður lauslega áætlaður um 800 þús. kr., og ennfremur á línu frá Akranesi til Borgarness, sem gert er ráð fyrir, að kosti um 280 þús. kr., einnig lauslega áætlað. — Þá liggja og fyrir till. frá sveitum norðanlands um að láta athuga línustæði frá Eyjafirði yfir til Siglufjarðar og gera samanburð á henni og væntanlegri virkjun í Fljótum, svo og um línu til Húsavíkur frá Laxá í Aðaldal.

Ég tel, að hér sé um svo mikið nauðsynjamál að ræða, að sjálfsagt sé, að ríkisstj. hafi heimild til þess að láta framkvæma þessar rannsóknir og að eðlilegra sé að hafa hana í einni heild heldur en að hafa margar þál., sína um hvert atriði þessara almennu rannsókna.

Að lokum vil ég mælast til þess, að þessi till. verði samþ. Ég skal ekki setja mig gegn því, að hún fari til fjvn., ef þess er óskað, en þá vænti ég, að n. hraði afgreiðslu sinni.