17.04.1937
Sameinað þing: 11. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (2398)

152. mál, raforkuveita til Hafnarfjarðar og aðrar raforkuveitur

*Pétur Ottesen:

Hæstv. atvmrh. hefir nú lýst, hvað komið er rannsókn þessara mála. — Við 3 þm. flytjum nú þáltill. á þskj. 231, þar sem skorað er á ríkisstj. að hraða sem mest rannsókn og undirbúningi löggjafar um raforkuveitur frá Sogslínunni til Akraness, Borgarness, Keflavíkur og annara sjávarþorpa á Reykjanesskaga — en þessi rannsókn hefir nú eftir upplýsingum hæstv. ráðh. þegar farið fram og að frv. verði lagt um það efni fyrir Alþ. að þeirri rannsókn lokinni. Nú vildi ég, af því að mér skilst, að þetta mál muni eiga að afgr. með samþykkt þessarar till. frá hæstv. atvmrh., aðeins árétta það, sem í till. okkar þremenninganna felst, að undinn verði bráður bugur að því að undirbúa þetta mál undir þingið, þannig að það verði fenginn grundvöllur undir fyrirkomulag þessara raforkuveitna út frá Soginu, því að mér skilst, að það fyrirkomulag, sem hér er talað um viðvíkjandi Hafnarfirði, sé aðeins bráðabirgðafyrirkomulag, vegna þess, hve þörfin fyrir rafmagn sé þar sérstaklega brýn. Ég get gengið inn á það, að þörfin sé brýnni þar heldur en annarsstaðar, með tilliti til þess, hvað mikill markaður þar er fyrir rafmagn og hvað um stuttan veg er að fara frá aðallínu Sogsins til Hafnarfjarðar. Hinsvegar er það vitanlegt, að stærri kauptúnum í nágrenninu er þörfin hvað afnot snertir af rafmagninu alveg jafnbrýn eins og Hafnarfirði, því að þar, sem komið hefir verið upp rafmagnsleiðslu með mótorafli, er rafmagnið fyrst og fremst ákaflega dýrt, og auk þess er það svo, a. m. k. á Akranesi, að það mótorafl, sem þar er til staðar til þess að framleiða rafmagn, er of lítið til þess að fullnægja þörf kaupstaðarins. Það er því brýn nauðsyn á því, ef fjárhagskringumstæður leyfa, að koma rafmagni beint til þessa staðar, og sama er vitanlega að segja um Borgarnes og Keflavík.

Ég vænti þess, að þeir, sem með stjórn landsins fara nú á næstunni, neyti allrar þeirrar aðstöðu, sem þeir hafa, til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd, þannig að undirbúningur liggi helzt fyrir næsta Alþingi, sem væntanlega kemur saman í haust.