06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (2444)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Jón Pálmason:

Það er augljóst, að sú þáltill., sem hér liggur fyrir, hefir það víðtækan tilgang, að hann getur gripið inn í svo að segja allt viðskipta- og fjármálalíf þjóðarinnar. Satt að segja hefði mér fundizt æskilegt, að gerðar hefðu verið hér á þingi fljótvirkari ráðstafanir í þessum vandamálum heldur en þessi till. fer fram á. Þó tel ég hana stefna í rétta átt og vil því þrátt fyrir allt lýsa ánægju yfir, að hún er fram komin.

Það er vitað, að margar aths. eru uppi á meðal þjóðarinnar, og hafa lengi verið, um bankamál okkar. Það hefir verið talsverð óánægja yfir því, hvernig lánsstofnanirnar í landinu yfirleitt eru reknar, hvað mikill kostnaður er við rekstur þeirra og hvað lítið þær fullnægja viðskipta- og lánsfjárþörf þjóðarinnar.

Við höfum 3 aðalbanka, með mörgum útibúum, og við vitum, að rekstrarkostnaður þeirra hefir á undanförnum árum verið hvorki meiri né minni en hátt á 2. millj. kr. Úti á landsbyggðinni a. m. k. trúir enginn maður, að þetta þurfi að vera svona dýrt. Og þegar athugað er, að fjármagn það, sem þessar lánsstofnanir hafa yfir að ráða, er svo takmarkað sem raun ber vitni um, þá verður ennþá augljósara, að unnt mundi vera að koma þessum málum fyrir á einfaldari og ódýrari hátt. Að öðru leyti er mikið rannsóknarefni fyrir höndum í sambandi við það, hvernig veitufé þjóðarinnar eigi að ganga út til einstaklinganna. Eins og sakir standa nú og verið hefir á undanförnum árum, þá er þetta þannig, að miklu meira af veltufé þjóðarinnar gengur í gegnum verzlunina heldur en lánsstofnanirnar. Hér er rekin láns- og skuldaverzlun, og verzlunarfyrirtækin, bæði félög og einstaklingar, fá lánsféð að miklu leyti hjá þeim aðiljum, sem þau hafa viðskipti við erlendis. Þetta fyrirkomulag er frá mínu sjónarmiði bæði dýrara og óheppilegra heldur en ef hægt væri að koma því svo fyrir að útrýma láns- og skuldaverzlun og láta allt það veltufé, sem nú fer gegnum verzlunina, ganga í gegnum lánsstofnanirnar. Ég nefni þetta af því, að það er frá mínu sjónarmiði einn þáttur þess víðtæka rannsóknarefnis, sem væntanleg n. verður að hafa með höndum.

Þá er annað hlutverk, sem þessari n. er ætlað, sem sé að gera rannsóknir viðvíkjandi afgreiðslu gengismálsins, og í sambandi við það hefi ég leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 220. Það er kunnugt, að síðan verðfallið varð á okkar framleiðsluvörum, eða a. m. k. frá því 1930 og fram á þennan dag, hefir verðskráning íslenzku krónunnar ekki að fullu svarað til þess verðgildis, sem hægt hefir verið að fá fyrir erlendan gjaldeyri í íslenzkum peningum. Sérstaklega hefir þetta verið mönnum ljóst hin síðustu ár, að krónunni hefir verið haldið uppi með þvingunarráðstöfunum, í fyrsta lagi með því að láta skráningu hennar fylgja gengisskráningu annarar þjóðar, og í öðru lagi með þeim takmörkunum og höftum, sem nú eru á innflutningsverzlun okkar. Þau höft eru sem kunnugt er nauðvörn okkar þjóðar til þess að geta haldið eðlilegu samræmi í viðskiptunum við útlönd, en verka óneitanlega í þá átt að halda uppi verði aðfluttu vörunnar, m. a. vegna þess, að það er betra færi á að selja eina vöru háu verði, ef takmarkað er, hvað mikið má flytja af henni inn. Mér er það fullkomlega ljóst, að hvenær sem horfið verður að því ráði að fella gengi okkar krónu, þarf í sambandi við það að gera margvíslegar ráðstafanir í okkar viðskipta- og fjármálalífi, og það er einmitt það, sem ég álít, að eigi að vera höfuðverkefni þessarar n., að því er gengismálið snertir. Hinu ætlast ég til, að sé slegið föstu með þáltill., að það geti ekki lengur gengið, að gengi krónunnar sé haldið uppi með þvingunarráðstöfunum á kostnað framleiðenda í landinu. Ég er hræddur um, að það hljóti að fara svo, ef við ekki verðum fyrir stórum höppum fjárhagslega, að eftir því sem lengur er dregið að fella gengi krónunnar, því stærra verði hrunið og verri afleiðingar þess í okkar viðskiptaháttum. Nú er það víst, að um leið og krónan væri felld yrði að gera breyttar ráðstafanir að því er snertir innflutnings- og gjaldeyrismálin. Og sérstaklega þarf, frá mínu sjónarmiði séð, að rannsaka gaumgæfilega, hvernig ætti að haga viðskiptunum með þann hluta af okkar framleiðslu, sem seldur er innanlands. Þessi víðtæku rannsóknarefni eru svo flókið og vandasamt mál, að ég tel fulla þörf á, að þeim séu gerð skil í þessu sambandi, þótt menn geti orðið sammála um það, að gengi ísl. krónunnar sé of hátt, samanborið við hennar raunverulega verðgildi.

Ég skal svo ekki að sinni fara um þetta miklu fleiri orðum. En út af ósk hv. 1. flm. till. um það, að atkvgr. um brtt. mína sé látin bíða til seinni umr. málsins, skal ég taka það fram, að ég legg enga áherzlu á það, hvort atkvgr. fer fram við fyrri eða síðari umr. En ég vildi leggja brtt. fram, til þess að hún gæti verið til athugunar í sambandi við þáltill. sjálfa nú þegar. — Ég geri ráð fyrir, að málinu verði nú vísað til fjvn., og gefst þá síðar tækifæri til að gera nánari grein fyrir afgreiðslu málsins. Get ég viðurkennt, að það væri e. t. v. ósanngjarnt að heimta brtt. mína borna undir atkv. nú, þar sem hún er svo seint fram komin.