06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (2446)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég hefi raunar engu við það að bæta, sem hv. 1. flm. sagði um þáltill. sjálfa, en vegna brtt. á þskj. 220 vil segja orfá orð. Með þessari brtt. er ætlazt til, að Alþingi slái því föstu, að íslenzka krónan sé fallin. Eins og menn vita, hefir það verið svo í áratug, að gengi íslenzku krónunnar hefir ekki farið eftir eftirspurn á erlendum gjaldeyri, heldur hefir það verið ákveðið að meira eða minna leyti af stofnun, sem Alþingi hefir sett til að ráða þeim málum, nefnilega gengisnefnd, sem skipuð var árið 1924 eða 1925. Jafnvel áður en hún var skipuð, var þessu máli skipað með íhlutun hins pólitíska valds. Það fyrirkomulag, að verðið á erlendum gjaldeyri fari eftir eftirspurninni, hefir því yfirleitt ekki verið haft hér. Það hefir yfirleitt ekki verið fylgi fyrir því, að taka upp þá aðferð, að láta verðgildi ísl. krónunnar breytast eftir framboði og eftirspurn á erlendum gjaldeyri. Þar sem verðskráning krónunnar fer þannig fram fyrir milligöngu stofnunar, sem Alþingi hefir til þess sett, og sú stofnun hefir ekki breytt verðskráningu hennar, þá er algerlega óviðeigandi, að Alþingi setji það inn í þáltill. sem staðreynd, að krónan sé fallin. Þegar ég mæli á móti slíkri afgreiðslu þessa máls út af fyrir sig, stendur það í rauninni ekki í neinu sambandi við þá deilu, hvort íslenzka krónan er eðlilega skrásett eða ekki. Það er staðreynd, að gengi ísl. krónunnar hefir verið látið fylgja gengi sterlingspundsins af aðilja, sem Alþingi hefir sett til að skrá gengið, og það er óviðeigandi, að þingið láti fara frá sér yfirlýsingu um, að krónan sé fallin, þegar gengi hennar hefir ekki verið breytt af þeim aðilja. — Hitt er svo atriði út af fyrir sig, hvort menn vilja, að krónan verði felld. Ég býst við, að það, sem vakir fyrir hv. flm. brtt., sé það, að láta þá skoðun sína koma fram, að fella eigi gengi krónunnar, en það gat hann gert á annan hátt heldur en með þeirri fullyrðingu, sem í brtt. felst. Í þessu máli eru þessar leiðir til: Í fyrsta lagi, að haldið sé því fyrirkomulagi, sem nú er, að bankarnir hafi einkasölu á gjaldeyrinum og miðli honum eftir getu og þörfum. Önnur er sú, að verð á erlendum gjaldeyri sé látið fara eftir framboði og eftirspurn. Þá fellur auðvitað niður einkasala bankanna á erlendum gjaldeyri, og þá verða menn að vera við því búnir, að krónan hækki aftur, ef framboðið á erlendum gjaldeyri kynni að verða meira en eftirspurnin. Hvort það er þessi leið, sem vakir fyrir hv. flm. till., skal ég láta ósagt. En það mun vera meining hans með brtt., að vegna þess að krónan er að hans dómi of há nú í augnablikinu, eigi n. að taka til athugunar lækkun hannar. En tilgangur okkar er sá, að n. geri framtíðarráðstafanir í þessum málum, og því liggur það ekki fyrst og fremst fyrir henni að ákveða, hvaða verð skuli vera á krónunni í augnablikinu, heldur hvernig skráningunni skuli vera komið fyrir framvegis — hvort bankarnir eigi að hafa framvegis einkasölu á gjaldeyri, eins og nú er, eða hvort gjaldeyrisverzlunin eigi að vera frjáls, með það fyrir augum, að krónan geti þá hækkað aftur, eins og 1924, eða jafnvel hvort fær sé þriðja leiðin, sem Böðvar Bjarkan hefir stungið upp á, að miða gengisskráninguna við verð á framleiðsluvörum á hverjum tíma. — Þeir, sem vildu láta krónuna hækka 1924, fylgdu þá hinni frjálsu gjaldeyrisverzlun. Hin síðari árin hefir krónunni verið haldið stöðugri með einkasölu bankanna á erlendum gjaldeyri.