06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (2447)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Hannes Jónsson:

Ég þarf ekki að segja margt um þáltill. á þskj. 104. Bændafl. hefir farið fram á það, að fram færu útvarpsumræður um gengismálið á næstunni, og tel ég líklegt, að úr því verði, og get því sleppt almennum umræðum um það mál að þessu sinni. En ef hv. þm. A.Húnv. tekur till. sína á þskj. 220 aftur, mun ég taka hana upp, svo að yfirlýsing þingsins fáist um það, hvort núverandi gengisskráning sé réttlát eða á óheilbrigðum grundvelli. Því að hvað ætti að þýða að veifa ráðh. heimild til að skipa n. til að athuga, hversu gengisskráningunni verður bezt fyrir komið, ef núverandi fyrirkomulag er hið ákjósanlegasta? En í brtt. hv. þm. A.-Húnv. felst það, að krónan sé skráð of hátt með núverandi gengi. Þetta er að vísu engin ný uppgötvun, því að þessi sannleikur hefir lengi verið ljós öllum atvinnurekendum hér á landi, og á sömu skoðun var sænski hagfræðingurinn Lundberg, sem skipulagsnefnd atvinnumála fékk sér til aðstoðar. Það er í rauninni orðið á allra vitorði, að krónan er skráð of hátt, þótt um það megi deila, hve mikið eigi að lækka hana. Ég hefi oftsinnis bent á beinustu leiðina til réttlátrar skráningar, en mér er ljóst, að fleiri leiðir eru til, til þess að draga úr ranglætinu, og verður þá að velja þá næstbeztu, ef sú bezta fæst ekki farin. Annars fer ég ekki lengra út í þetta mál að sinni vegna væntanlegra útvarpsumræðna. En ég vildi gjarnan sjá það af atkvgr. um brtt. hv. þm. A.-Húnv., hvort meiri hl. lítur svo á, að krónan sé nú réttlátlega skráð eða ekki.