06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (2449)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Jón Pálmason:

Það er rangt hjá hv. þm. Hafnf., að því sé slegið föstu í brtt., að krónan sé þegar fallin. En hitt fullyrði ég, að ástandið hefir lengi verið svo, að krónan hlýtur að falla, og þá verður það verkefni samkv. till. minni að taka til athugunar, hversu lækkunin megi verða, án þess að allt of mikið rót komist á atvinnuvegina.

Hæstv-. fjmrh. var hér að tala um það, að ef til vill fælist í till. minni, að verð á krónunni ætti að fara eftir framboði og eftirspurn á erlendum gjaldeyri. En ég hefi haldið því fram, að gengið ætti að breytast eftir kaupmætti krónunnar. Hitt tel ég með öllu fráleitt, að hringla með dagsgengi, eins og felst í till. Böðvars Bjarkans.

Hæstv. fjmrh. viðurkenndi, að krónan væri nú skráð í hærra gengi en hún myndi seljast fyrir á frjálsum markaði. Þetta er án efa fyllilega rétt og sannar það eitt, að lækkun krónunnar er óhjákvæmileg í náinni framtíð, þar sem ómögulegt hlýtur að vera að halda öllu lengur uppi óeðlilegri gengisskráningu á kostnað framleiðenda.

Viðvíkjandi ummælum hv. þm. V.-Húnv. um það að taka brtt. mína upp aftur, vil ég taka það fram, að ég tek hana aðeins aftur til síðari umr. samkv. ósk hv. 1. flm.

Út af því, sem hv. þm. Hafnf. sagði um athugun skipulagsnefndar á þessu máli, verð ég að segja það, að ég hefi hvergi séð í hinu mikla nál., að n. hafi tekið til athugunar hið mikla misrétti, sem gengisskráningin skapar á milli framleiðslu og vinnu. Það hefir verið sagt, að hinn sænski hagfræðingur, sem n. hafði sér til aðstöðar. hafi talið, að krónan væri 40% of há. Hv. þm. Hafnf. hefir nú mótmælt þessu, en vonandi kemur bráðlega hið sanna á daginn.