06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (2450)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Ég þarf ekki margt að segja, því að till. minni hefir yfirleitt verið vel tekið, þó að ýmislegt hafi blandazt inn í umr., að sumu leyti óskylt. Hv. þm. A.-Húnv. þykja ráðstafanir þær, sem till. gerir ráð fyrir, ekki nógu fljótvirkar. Það hefði raunar verið æskilegt að gera beinni ráðstafanir þegar á þessu þingi, en þó er mest um það vert, að það, sem gert verður, sé gert af fullu viti og að yfirveguðu ráði.

Það er ekki rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að einungis sé tæpt á gengismálinu, eins og líka hefir raunar komið fram hjá hv. þm. V-Húnv. Ef grg. er lesin, kemur skýrt fram, hvað fyrir flm. till. vakir í því efni. Hv. 1. þm. Reykv. taldi hér vera um svo vandasamt mál að ræða, að ekki veitti af tveim n., annari fyrir bankamálin. en hinni fyrir gengismálið. Þetta mætti vera athugandi. En fyrir Framsóknarfl. vakti það, að flokkarnir myndu velja þá menn í þessa n., sem þeir treystu bezt til að hafa yfirsýn um fjármál þjóðarinnar, og í öðru lagi voru gengismálið og bankamálin talin svo skyld, að eðlilegt væri, að sama n. fjallaði um hvorttveggja.

Mér þykir hv. þm. V.-Húnv. nokkuð bráðlátur í þessu máli, sem öðrum, er honum þykir sem ekki megi bíða atkvgr. um till. hv. þm. A.- Húnv. þar til við 2. umr. Hann heimtar atkvgr. í dag, þó að till. hafi ekki verið útbýtt fyrr en á þessum fundi. Ég get ekki séð, að það skaði hans stefnu, þó að atkvgr. bíði í nokkra daga. Hann vill fá úr því skorið, hvernig þingið líti á gengismálið, og ég held, að það gæti eins orðið eftir nokkra daga. Yrði það sannari mynd af þing viljanum, sem fram kæmi eftir nokkra daga, er þm. hefði gefizt kostur á að kynna sér málið. Annars veit ég ekki, hvort hann er svo ákveðinn í málinu sjálfur, eða hvort hann hefir þegar allt í huga viðvíkjandi því, hvernig þessum málum skuli haga. Ég hefi lesið frv. hans, sem liggur nú fyrir Nd., og ég hefi ekki séð því slegið þar föstu, að krónan verði að lækka. Hann varpar þar öllum sínum áhyggjum upp á n. þá, sem hann ætlar að búa til, en þó virðist fyrirkomulagið eiga að vera líkt og nú er. Ég sé því ekki, að ske myndu nein ósköp, þó að frv. hans yrði samþ. Ég vona því, að hann falli frá kröfum sínum, því að annars yrði að fresta umr. Það verður að teljast óhæfilegt að afgreiða mál, sem vísa á til n., með því að greiða atkv. um einstök atriði þess, áður en n. hefir getað athugað það. Hv. þm. boðar útvarpsumr. um gengisskráningartill. sínar, og er það ekki lítið gleðiefni að eiga von á að heyra ennþá í útvarpinu ræðu hans, er hann hélt hér við umr. um Kveldúlfsmálið.

Hv. þm. Hafnf. þótti einkennilegt, að hér skyldi vera minnzt á að athuga l. sparisjóða, einkum þar sem ég hefði áður flutt frv. um það efni. Þegar ég samdi það frv., vakti ekki fyrir mér sérstaklega viðhorf sparisjóða til bankalöggjafar landsins. En mér finnst eðlilegt, að þegar fara á að breyta bankalöggjöfinni, verði gerðar breytingar á l. um sparisjóði í samræmi við það. Og þó að ég hafi samið þessi l. um sparisjóði. álít ég mig ekki svo fullkominn, að ekki megi taka verk mitt til frekari athugunar.

Ég vona, að till. þessi fái að ganga til 2. umr. og að fallið verði frá því að knýja fram atkvgr. um einstök atriði, áður en n. getur tekið þau til athugunar.