06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (2451)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Ásgeir Ásgeirsson:

Ég er nú einn í þessari gengisn., sem hefir haldið genginu föstu undanfarin 6 ár. Fyrir 6 árum var tekin sú ákvörðun að fylgja sterlingspundinu eftir. Sú ákvörðun var tekin, áður en aðrar þjóðir tóku upp þessa sömu stefnu, þær er síðar hafa neyðzt til þess. Svo að við höfum að nokkru leyti haft forystu um þetta mál, enda auðveldara fyrir okkur, þar sem við höfum innleyst okkar gjaldeyri í sterlingspundum síðan 1925. Núverandi gengi sterlingspundsins hefir haldizt óbreytt undanfarin 72 ár. Þarf því sterkar röksemdir til að gera það líklegt, að okkur beri nú að breyta gengi krónunnar.

Sumir halda því fram, að bændastéttinni sé gert rangt til með því að halda uppi núverandi gengi. En henni væri vafalaust gert meira rangt til með því að lækka það. Hún flytur inn meira en út og myndi því tapa á lækkun gengisins. Bændur flytja út helminginn af kjötframleiðslu sinni, en hinn helmingurinn er seldur innanlands, og eins langmest af mjólkurframleiðslunni. Ef gengið lækkaði, myndu bændur segja: „Við viljum fá verðhækkun innanlands, því að við höfum tapað á þessu; við höfum orðið að kaupa vörur frá útlöndum fyrir lækkaða krónu.“ En það er hægt að hækka afurðaverðið til bænda með öðrum auðveldari ráðum en gengislækkun. Ef bændur vilja, að kaupgeta haldist eða hækki í kaupstöðum, eru til færari leiðir til þess.

Bændastéttin sem heild (og það verður að líta á hana sem heild í þessu tilliti, þar sem hún býr við verðjöfnun bæði að því er kjöt og mjólk snertir) hefir sömu hagsmuna að gæta um það, að krónan verði ekki lækkuð, sem verkamenn og aðrir launamenn. En jafnvel þó að svona fjölmennar stéttir hafi hagsmuna að gæta í þessu efni, mætti hugsa sér, að krónan væri skráð hærra en atvinnulífið þolir. En þess er ekki að vænta, að þeir aðiljar gangi inn á gengislækkun, nema þeir fái tryggingu fyrir hækkun síðar, ef þeir eiga hana skilið. Það er því rétt, sem hæstv. fjmrh. segir, að ef setja skal reglur um það, hvaða gengi skuli skrá, þá verður að fara eftir því, hvaða gengi gefur jafnasta afkomu í þjóðfélaginu. Það má ekki bresta genginu til dæmis bara fyrir sjávarútveginn eða atvinnurekendur og sleppa öllu tilliti til launamannanna. Það, sem mestu hlýtur að ráða um gengisskráninguna, er verðlagið innanlands, og mér finnst það hafa tekizt furðu vel undanfarið að varðveita verðlagið óbreytt. Það þykir beztur árangur af seðlapólitík hvers lands, ef tekst að halda verðlaginu óbreyttu. Og það má heldur ekki gleyma framfærslukostnaði fólksins í landinu.

Ég býst ekki við, að menn hér fari að hugsa alvarlega um gullinnlausn, því að hún hefir aldrei verið effektív í þessu landi. Ég gæti trúað, að okkur gæti tekizt að fara skynsamlegar að en aðrir í okkar gjaldeyrispólitík, þar sem bankar eru hér allir reknir af ríkinu og gull hefir aldrei haft mikið að segja í viðskiptum okkar við önnur lönd.

Í till. er það látið liggja milli hluta, hvort krónan eigi að hækka eða lækka, eða þá að standa í stað. N. sú, sem skipa skal, á fyrst um sinn aðeins að rannsaka, hvað af þessu sé réttast. Ef í n. væru fulltrúar fyrir sem flesta hagsmuni, þá er ekki nema gott, að rannsókn eins og þessi fari fram. En ég álít rétt að sameina þetta tvennt: seðlabanka og gengisrannsókn, því að það eru aðeins tvær hliðar á sama málinu. Gengisskráningin á að vera hjá þeim, sem ráða seðlapólitíkinni. Það er og full ástæða til að athuga okkar bankamál á ný, því að aðstæður eru mjög breyttar síðan 1928. Nú á þjóðin alla banka landsins, og yrði því að sjá um, að sá banki, sem fer með seðlaútgáfuna, yrði jafnframt seðlabanki fyrir hinar peningastofnanirnar.

Ég fylgi till. í aðaldráttum, en brtt. kemur ekki til greina að svo stöddu.