06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (2459)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Jón Pálmason:

Ég þarf í rauninni ekki að bera af mér sakir, því að ýmislegt af því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, er þannig vaxið, að það er varla svaravert. Hann talaði t. d. um, að enginn sjálfstæðismaður hér á Alþingi færi eftir sannfæringu sinni og að það væri auðseð, að ég dansaði eftir vilja Framsfl. í því að vilja ganga inn á, að atkvgr. um þessa brtt. yrði frestað. Hvaða orsakir eru til alls þessa gauragangs í hv. þm.? það eitt, að hv. frsm. þessa máls fer vinsamlega fram á það við mig, að ég gangi inn á að fresta atkvgr. um þessa brtt. og að ég sé ekki ástæða til annars en að ganga inn á það. Ég skal játa, að hv. 1. þm. Eyf. er góður flokksmaður í Framsfl., en ég hefi ekki heyrt, að hann væri í foringjaliði hans, eins og hv. þm. V.-Húnv. var að tala um. Ég skal ekki fara nánar út í þetta, en ég vil aðeins ítreka það, að ég hefi ekki á neinn hátt slakað til á skoðun minni í þessu efni. Hv. þm. ber þetta fram aðeins í þeim tilgangi að reyna að slá sér upp því og láta líta svo út, sem hann öðrum fremur sé að vinna í þessu máli fyrir alþjóðarhagsmuni. — Að öðru leyti skal ég ekki fara út í málið, þó að tilefni gæfist til, sérstaklega frá hv. þm. V.-Ísf., því að hann fór inn í umræðurnar á mjög villandi hátt, sérstaklega að því er snertir bændastéttina, þar sem hann taldi það vera henni í óhag, að krónan væri felld. Það er atriði, sem er töluvert flókið mál, og fæ en trauðlega tækifæri til að skýra það til hlítar hér.

Að það sé okkar þjóð til hagsmuna, að hnýta okkar gjaldeyri aftan í gjaldeyri brezka heimsveldisins, álít ég álíka og að hnýta viljugum hesti aftan í bíl og láta hann hlaupa á meðan hann getur staðið, en dragast aftan í bílnum, þegar hann ekki lengur getur fylgt honum. Ég álít, að okkar gengispólitík sé komin á svipað stig með því að vera tjóðruð aftan í enska gjaldeyrinum. — Annars finnst mér það undarlegt, ef þingsköp leyfa það, að annar maður geti komið í veg fyrir frestun á atkvgr. um till.. sem flm. sjálfur hefir gengið inn á, að atkvgr. sé frestað um, eftir beiðni frá frsm. viðkomandi máls. Ég vildi helzt óska eftir, að hæstv. forseti segði til um, hvort það sé heimilt, að annar þm. geti gripið á þann hátt inn í.