06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (2461)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Pétur Ottesen:

Það er komin hér fram ósk um það, að þessar umr. verði látnar niður falla í miðjum klíðum og málinu á því stigi vísað til n.

Ég ætla, að þetta sé óvenjulegt, þegar um er að ræða þingsályktunartill., sem búið er að ákveða að viðhafa 2 umr. um, því að þegar svo stendur á, man ég ekki eftir, að ekki hafi verið lokið við fyrri umr. og málinu á því stigi vísað til n.

Hitt hefir aftur á móti komið fyrir, þegar um er að ræða till., sem búið var að ákveða eina umr. um, og sérstök ástaða hefir þótt til að láta athuga slík mál í n., að þá hafi umr. verið frestað, til þess að geta samrýmt það við fyrri ákvörðun um að hafa eina umr.

En þegar um er að ræða till., sem búið hefir verið að ákveða að hafa tvær umr. um, man ég ekki eftir, að slíkt hafi verið viðhaft og hér er farið fram á og fast er sótt. Það má vel vera, að hægt sé að rúma þetta innan þeirra takmarka, sem sett eru í þingsköpum; um það skal ég ekkert segja, en óvenjulegt er það, miðað við þann gang mála, sem verið hefir hér á Alþingi.