06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (2465)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Jörundur Brynjólfsson:

Ég vil meina, að hæstv. forseti hafi litið fullfljótt á ákvæði 40. gr. þingskapa. 40. gr. þingskapa, um afturköllun, á við það, þegar till. er afturkölluð til fulls, og flm. hennar ætlar henni ekki að koma til atkvgr., hvorki fyrr né síðar. Hér stendur allt öðruvísi á; hér er aðeins um frestun að ræða, og á þm. rétt á að óska eftir því við forseta, að atkvgr. megi fresta um till., sem fyrir liggur, þar til við síðari umr. málsins.

Ég vil benda á það, að við afgreiðslu fjárl. er á hverju þingi meira eða minna af till. frestað frá einni umr. til annarar. Er það ríkjandi venja, en þar stendur allt öðruvísi á, og má ekki blanda þessu saman. Annars hefi ég enga ósk að láta í ljós um það, hvort umr. verði frestað eða ekki; ég er tilbúinn að greiða atkv. um till., en það er vitanlegt, að við fyrri umr. um þingsályktunartill. er greitt atkv. um efni till., og er það sambærilegt við 2. umr. frv., og af þeirri ástæðu hefir þetta ráð verið tekið upp, ef menn greinir á um efnið.