06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (2467)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Pétur Ottesen:

Ég verð að segja það, að ég skil ekkert í þeim úlfaþyt, sem komið hefir upp hér í Sþ. í dag út af þessari brtt., sem hv. þm. A.-Húnv. hefir borið hér fram. Og mér virðist þær umr., sem út af brtt. hafa spunnizt, harla einkennilegar, þar sem þar hafa atzt við menn, sem ég ætla, að séu ekki mjög ósvipaðrar skoðunar um þetta mál og það atriði, sem brtt. fjallar um. — Ég sé ekki annað, með bezta vilja, en þessi brtt. sýni okkur ljóslega framan í það ástand, sem er í þessum efnum. Og hver er hér, sem þorir að neita því, að ísl. krónan sé fallin í verði? Mér þætti gaman að sjá framan í þann mann, sem hefði djörfung til þess, ef hann hefði einhverja ábyrgðartilfinningu. Við skulum hugsa okkur, ef maður hefði ráð á nokkrum pundum og mætti selja þau í frjálsri verzlun, hvað hann gæti fengið fyrir þau, og hvort það yrði ekki ljóst, að ísl. krónan er fallin frá því verðgildi, sem hún er talin vera í á innlendum markaði. Og við þurfum ekki að vera að gera neinar tilraunir í þessum efnum, því að Alþingi er búið að viðurkenna þessa staðreynd. Það hefir gert það m. a. með aðgerðum sínum gagnvart atvinnuvegunum, sjávarútveginum og landbúnaðinum, til þess að reyna að gera þeim kleift að mæta þeim vandræðum, sem þeir hafa ratað í vegna þess ósamræmis, sem verið hefir á milli tilkostnaðarins og þess afurðaverðs, sem þeir hafa borið úr býtum. Það stendur svo á fyrir okkur, að við erum háðir heimsmarkaðsverðinu með okkar afurðir, og þetta verð hefir, eins og kunnugt er, fallið gífurlega á síðustu árum. Og til þess að láta þetta ekki koma fram á innanlandsviðskiptunum, hefir verið gripið til þess að taka öll yfirráðin yfir gjaldeyrinum af framleiðendunum og fá þau í hendur sérstakri n., sem skammtar svo þeim, sem gjaldeyrinn eiga, en ekki nema nokkurn hluta þess raunverulega verðgildis, sem hefir verið greitt fyrir vöruna á erlendum markaði. Ég er því hissa á því, að það skuli koma fram í þessum umr., að það sé hættulegt fyrir Alþingi að viðurkenna þessa staðreynd, að krónan er fallin. Ég held, að það hafi verið fjmrh., sem lagði mestan þunga á það í sinni ræðu, að unnið væri á móti þessu. Það er þó öllum kunnugt, að krónan er fallin, og ekki sízt hæstv. fjmrh., sem hefir þessi mál með höndum í umboði þess pólitíska valds í landinu.

Ég verð að segja það, að mér virðist eðlilegast, úr því að hér á að fara að skipa n., sem á að hafa það verkefni með höndum að taka þetta mál til athugunar, þá verði það gert á þeim grundvelli, sem fyrir liggur. Það þarf ekki að athuga, hvort krónan er fallin, það er fullljóst, heldur hvað hægt er að gera til þess að viðurkenna þennan sannleika vegna atvinnuvega landsmanna. Því það sjá allir menn, að ef ekki fæst eitthvert samræmi í þetta og atvinnuvegirnir eru reknir með sífelldu tapi ár eftir ár, þá leiðir það til þess falls fyrir okkar afkomu, að það er ekki hægt að sjá út yfir þá örðugleika, sem af því leiddu. Þess vegna virðist mér, að úr því skipa á n. í þessu sambandi, þá eigi að gera það með það fyrir augum, hvernig á að mæta þeirri staðreynd, sem við horfumst í augu við, að krónan er fallin og að það er óhrakið, að tilkostnaður og afurðaverð atvinnuveganna hefir leitt til hins hrörnandi ástands þeirra, svo að ef það heldur áfram, hlýtur það að leiða til beins hruns fyrir atvinnuvegina.

Ég er því hissa á því, að hv. flm. þessarar till., sem að mínum dómi á þakkir skildar fyrir að hafa fært málið inn á þessa braut, skuli ekki vilja halda þessari till. sinni fram, því að það er vitanlegt, að samkvæmt þingsköpum á að greiða atkv. um slíka till. við þessa umr. málsins; þetta hlýtur að vera byggt á misskilningi á þingsköpum hjá hv. þm., en ekki á því, að hann geti verið nokkuð hikandi í þessu efni, þar sem hann stendur fyrir svo réttmætu máli. Það má bæta því við í þessu sambandi, að ef það verður ekki tekið til athugunar og viðurkennt, að krónan er fallin, má búast við því, að þeim mörgu millj., sem búið er að leggja í sölurnar af opinberu fé fyrir íslenzka atvinnuvegi, landbúnað og sjávarútveg, geti verið alveg á glæ kastað, ef svo á að búa að atvinnuvegunum eftirleiðis, að þeir fái ekki staðizt á þeim grundvelli, sem þeir eru komnir inn á eftir aðgerðir þess opinbera á fjárhag þeirra. Hér er því ákaflega mikið í húfi, og ég verð að segja, að þó að verið sé að blanda því inn í þessar umræður og talað um það, að einn flokkur ráði yfir öðrum og skipi honum fyrir verkum, þá er til eitt afl, sem allir verða að beygja sig fyrir, sem sé það, ef atvinnuvegirnir eru þannig staddir, að við því er búið, að þeir hrynji í rústir; það er þetta afl, sem rétt er að tala um í þessu sambandi, því að þetta er ærið verkefni við að glíma, eins og ástatt er hjá okkur nú.