19.04.1937
Sameinað þing: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í D-deild Alþingistíðinda. (2476)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Hæstv. fjmrh. hefir að nokkru leyti tekið af mér ómakið, svo að ég get verið mjög stuttorður um það, sem ég þarf að segja hér. Mér skildist að ein af höfuðástæðunum til þess, að hv. 9. landsk. er á móti skipun þessarar mþn., sé sú, að fyrir þinginu lægju frv. um bankamál, sem hann vildi samþ. En það er orðið alkunnugt og opinbert í þinginu, að það stendur til, að þingið hætti störfum innan mjög skamms tíma. Ég hygg því, að hv. þm. geti sannfærzt um það, að héðan af er ekki um það að ræða, að þessi frv. verði samþ. Hann taldi, að skipun þessarar mþn. myndi tefja málið og hefta það, að nokkrar ráðstafanir yrðu gerðar út af bankamálum. Ég held þvert á móti, að það mundi flýta fyrir því, að á næsta þingi eða þinginu 1938 komi fram vel undirbúið frv. frá mþn., og hygg ég, að slíkt myndi verða betra heldur en ef þm. ættu þá að fara að semja slíkt frv. — Ég hefi ekki neinn við það að bæta, sem hæstv. fjmrh. sagði út af orðum hv. 9. landsk. um frv. Alþfl. um seðlabanka, sem hefir verið undirbúið af skipulagsnefnd atvinnumála. Ég ætla ekki, frekar en hann gerði, að fara niðrandi orðum um þá n., og ekki heldur um frv. En það frv. er þó áreiðanlega samið með tilliti til annara breyt., sem kann að vera þörf á að gera í bankamálunum.

Hv. 9. landsk. taldi, að þetta mál þyldi enga bið. Ég fæ ekki betur séð en að biðin yrði lengri, en þessi n. væri ekki skipuð.

Að öðru leyti skal ég ekki nota mér leyfi hæstv. forseta til að tala oftar en þingsköp heimila.