24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Með frv. þessu er leitað staðfestingar á bráðabirgðalögum, sem út voru gefin 12. maí síðastl., eða skömmu eftir þingslit í vor. Tilefni þeirra l. var það, að tveir af fimm stjórnarnefndarmönnum í stj. síldarbræðslna ríkisins óskuðu að leggja niður starf sitt. Þá þegar var ekki hægt að skipa menn í þeirra stað samkv. l., sem fyrir voru, þar sem gert var ráð fyrir, að þingkosnir menn væru í þessari stjórnarnefnd. Þess vegna voru sett um skipun þessarar stj. ákvæði með bráðabirgðal. En samtímis var sú breyt. gerð að fækka stjórnendunum úr 5 í 3. Liggja til þeirrar ráðstöfunar ýmsar ástæður; fyrst sú, að með því að hafa 5 manna stjórn voru allmiklir örðugleikar á að ná stj. saman á fundi, sem hefir verið léttara síðan, og á ýmsan hátt hefir samvinna í stj. verið betri.

Ég vil taka það fram, að ég kynnti mér það áður en l. voru gefin út, að nægur þingmeirihl. var fyrir því, að l. voru gefin út eins og þau voru gefin út af ríkisstj. hálfu.

Vil ég svo gera það að till. minni, að frv. þessu verið vísað til sjútvn. að umr. lokinni.