19.04.1937
Sameinað þing: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (2481)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Frsm. minni hl. (Sigurður Einarsson):

Þetta verður aðeins örstutt aths. Hæstv. fjmrh. var að reyna að snúa út úr orðum mínum áðan, þegar ég var að tala um það, að hann og hv. þm. G.-K. hefðu staðið hlið við hlið og snúið bökum saman í „Kveldúlfsmálinu.“ En ég get upplýst hæstv. ráðh. um það, þótt honum kunni að vera það óljóst til að byrja með, að þessi samlíking er ekki út í bláinn, því að það þarf ekki annað en að önnur hlutaðeigandi persóna snúist eins og kvarthring, til þess að þetta geti átt sér stað; í þessu tilfelli er það hv. þm. G.-K., sem hefir staðið kyrr á sínum stað, þar sem hann hefir verið frá öndverðu, en hæstv. fjmrh. hefir tekið snúning í þessu máli, eins og raunar mörgum öðrum, þannig að þeir hv. þm. G.-K. og hann standa nú ýmist hlið við hlið í málunum eða snúa bökum saman. Og ég verið að segja, að mig undrar það ekkert, þó að hæstv. ráðh. kunni illa við að sjá sjálfan sig í þessum stellingum.