24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Ólafur Thors:

Ég tel ekki rétt, að frv. þetta fari umræðulaust til n. Eins og hæstv. ráðh. sagði, fer það fram á staðfestingu bráðabirgðalaga, sem út voru gefin 13. maí síðastl., eða 2 dögum eftir að síðasta Alþingi sleit. Þetta mál vakti þá þegar allmiklar deilur og var af hendi okkar sjálfstæðismanna gert að árásarefni á hæstv. atvmrh., og reyndar á stj. alla, og að minni hyggju mjög að verðleikum, því að ég held, að það sé ekki of sterkt að orði kveðið, þó að sagt sé, að með útgáfu þeirra bráðabirgðal. hafi verið haft í frammi allmikið gerræði og þingræðinu sýnt með því hin mesta fyrirlitning. Ég er ekki fjarri því, að færa megi allgild rök að því, að slík notkun 23. gr. stjskr. sé umfram það, sem stjórnarskrárgjafi hafi nokkurntíma ætlazt til.

Ég minnist þess, að á öndverðu síðasta þingi barst mér til eyrna, að það hefði komið til mála milli stjórnarflokkanna að reka frá störfum alla stj. síldarverksmiðjanna, sem var skipuð 5 mönnum, og setja ný fyrirmæli um skipun þeirrar stj., þannig að í staðinn fyrir 5 menn: 4 kjörna af Alþ. og 1 af ráðh., sem væri formaður stj., í stað þess skyldi stj. vera skipuð 3 mönnum, sem allir væru skipaðir af atvmrh. Þegar ég heyrði þetta, þótti mér ekki líklegt, að hæstv. ríkisstj. teldi ástæðu til þess að breyta þá og þegar þessum l., sem höfðu verið sett þá nýverið, á haustþinginu 1934, og öðluðust gildi 19. jan. 1935. Og mér þótti ákaflega ólíklegt, að hæstv. ríkisstj. teldi sér fært — ég nota það orð — að svipta Sjálfstæðisfl. öllum möguleikum til áhrifa á það, hvernig þessi stj. yrði skipuð, — stj. þess fyrirtækis í landinu, sem útvegsmenn og sjómenn eiga meira undir en nokkru öðru fyrirtæki, nema þá fiskimálan. Mér þótti ennfremur ólíklegt, að ríkisstj. mundi, eins og þá fylgdi sögunni, láta það henda að sinni að skipta um stj. verksmiðjanna þannig, að hún léti alla gömlu stjórnarnefndarmennina fara frá störfum. Ég lagði þess vegna varla trúnað á þetta. Svo var það 30. marz síðastl., að mér var tjáð, að þetta væri fastmælum bundið. En þrátt fyrir það, að mér sagði þetta maður, sem í alla staði er trúverðugur maður, lagði ég enn ekki trúnað á þetta, enda fór svo, að um þetta heyrðist svo ekki meira á meðan þingið stóð, og staðfestist ég í trúnni á það, að innan stjórnarflokkanna væru svo margir varfærnir og sanngjarnir menn, að þeir sæju sér ekki fært að gera svo gagngerða breyt. á skipun þessara mála. En svo kom síðasti dagur Alþingis, sem vakti hjá mér nýjan grun um, að einhver fótur væri fyrir þessari fregn. Sá atburður varð við kosningu endurskoðunarmanna landsreikningsins, að vikið var frá því starfi þeim manni, sem af hendi Alþfl. hafði gegnt því. Enda þótt sá maður hafi haft til þess mjög takmarkaða hæfileika, þá veit ég ekki, hvort menn hafi álitið það sérstaklega ráðlegt að víkja honum frá starfinu. En menn festu fyrst og fremst hugann við hitt, að alþýðuflokksmaðurinn Páll Þorbjörnsson var þá kjörinn endurskoðandi. Þetta þótti þá þegar staðfesta þann grun, að Páll Þorbjörnsson, sem átt hafði sæti í stj. síldarverksmiðjanna, mundi eiga með þessum hætti, — svona til uppbótar og því til öryggis, að hann þyrfti ekki að naga hausa og bein í Vestmannaeyjum — að víkja úr stj. síldarverksmiðjanna og fá svo endurskoðun landsreikninganna til að hugga sig við. En samt verð ég að viðurkenna, að þó að þetta virtust vera nokkrar líkur, þá veigraði ég mér samt við að festa trúnað á, að hæstv. ríkisstj. hefði það í hyggju, sem þetta virtist þó geta bent til, vegna þess að mér fannst gerræðið svo mikið, að mér þótti ólíklegt, að hæstv. atvmrh. vildi lána nafn sitt til þess. Því að það hafa allir viðurkennt, að svo viðurhlutamikið sem það er og málefnislega örlagaríkt að svipta Sjálfstaðisfl. öllum áhrifum á stjórn þessa fyrirtækis og taka úr höndum Alþingis allt áhrifavald á stjórn þess og fá það í hendur einum manni, nefnilega atvmrh., þá er það, að gera þetta, út af fyrir sig svipur hjá sjón, ef þetta er gert á lögformlegan hátt á Alþ., hjá því sem að gera það eins og það var gert, með bráðabirgðal., rétt eftir að Alþ. sleit. Ég vænti þess vegna, að allir virði mér það til vorkunnar, þó að ég veigraði mér við að festa trúnað á þetta. En ég fékk ekki lengi að lifa í sælli oftrú á hæstv. atvmrh., því að 2 dögum eftir þinglokin komu út þessi bráðabirgðal., sem nú á að staðfesta með frv. því, sem hér liggur fyrir. Með þessum bráðabirgðal. var þá Alþ. svipt öllu því valdi, sem það hafði yfir þessum málum, og það fengið í hendur ráðh. Að svipta Alþ. þessu valdi og fá það ráðh. í hendur, er eins og ég hefi sagt, mjög viðurhlutamikil ráðstöfun. En að gera það með bráðabirgðal. verður að teljast gerræði. Og að gera það með bráðabirgðal. 2 dögum eftir að Alþ. hefir lokið störfum, er að mínu viti verknaður, sem fullkomlega sýnir fyrirlitningu þeirrar stj., sem það gerir, fyrir Alþingi.

Hæstv. atvmrh. sagði, vitanlega sér til afsökunar, að sér hafi verið nauðugur einn kostur að skipa þessu máli með bráðabirgðal., vegna þess að 2 af 5 stjórnarnefndarmönnunum hafi sagt af sér og komið stj. í óvæntan bobba. Ja, ég vildi nú gjarnan mega leggja trúnað á þessi orð hæstv. ráðh. En mér er það ekki hægt. Ef ráðh. hefði ekki verið búinn, áður en þingi lauk, að láta Páli Þorbjörnssyni í té borgun fyrir þennan „óvænta bobba“, sem hann ætlaði að koma stj. í, þá teldi ég, að leggja mætti trúnað á þessi orð hæstv. ráðh. En af því búið var að kjósa þennan stjórnarnefndarmann síldarverksmiðja ríkisins í endurskoðun landsreikninganna, meðan Alþingi stóð, þá held ég, að maður verði af því að álykta, og hafi fulla ástæðu til þess, að þessi ráð hafi öll verið ráðin, áður en þingi lauk. Ég verð þess vegna að láta megnustu óánægju í ljós yfir því, að þessi bráðabirgðalög hafa verið gefin út.

Hæstv. ráðh. sagði, að auðvitað hefði hann, áður en hann gaf bráðabirgðalögin út, kynnt sér vilja Alþingis og tryggt sér meirihlutafylgi til þessarar ráðstöfunar. Ég vil spyrja hann, þar sem öllum er vitanlegt, að þetta var ráðið, áður en þingi var slitið, hvers vegna hann notaði ekki þennan meiri hluta til þess að samþykkja efni bráðabirgðalaganna á lögformlegan hátt. Á hinn bóginn vil ég leiða athygli að því, að Alþingi, eins og það er skipað nú, var búið að fjalla um þetta mál. Frv. um stjórn síldarbræðslu ríkisins og önnur atriði henni viðkomandi var borið fram á þingi 1934, og þá í því formi, að stj. skyldi skipuð þremur mönnum, sem ráðh. tilnefndi, eins og hæstv. ráðh. hefir nú lögfest með bráðabirgðalögunum. Þetta fyrirkomulag neitaði Alþingi að sætta sig við, og gerði þá breyt. á frv., að stj. skyldi skipuð 5 mönnum, en ekki 3, og ekki samkvæmt vali atvmrh., heldur skyldi Alþingi velja 4 stjórnarnefndarmennina og ráðh. skipa aðeins einn. Þessi breyt. var gerð í Nd., m. a. með stuðningi hv. þm. V.-Ísf., hv. þm. V.-Húnv. og Magnúsar Torfasonar. Þannig fór málið til Ed., og var reynt að koma því þar aftur í það form, sem hæstv. ráðh. hefir nú lögfest, en það tókst ekki. Hæstv. ráðh. hefir því með bráðabirgðalögum, útgefnum 2 dögum eftir þingslit, breytt þessum lögum úr því formi, sem Alþingi hafði samþ., yfir í það form, sem báðar deildir þingsins höfðu beinlínis neitað að samþykkja. Ég veit, að hæstv. ráðh. skilur mætavel, að það er eðlilegt, að stjórnarandstaðan eigi erfitt með að sætta sig við slíka misbeitingu á heimild 23. gr. stjskr. til útgáfu bráðabirgðalaga. Ég er ekki í vafa um, að hann finnur, að þessar aðfinnslur mínar eru á fullum rökum byggðar. Ég veit hinsvegar, að það er rétt, að hæstv. atvmrh. hefir ekki ráðið í þessu máli, — að það var eitt af hinum örðugustu deilumálum milli stjórnarflokkanna. Það höfðu staðið harðar deilur, bæði út af Jóni Gunnarssyni framkvæmdarstjóra og ýmsu öðru í sambandi við síldarverksmiðjur ríkisins og stjórn þeirra. Ég hefi hér aðallega beint aðfinnslum mínum til hæstv. atvmrh., sökum þess að hann ber formlega ábyrgð á þessum bráðabirgðalögum. En ég hygg, að það megi með fullu réttlæti gera alla ríkisstj. ábyrga fyrir þessari ráðstöfun, því að ég efast ekki um, að hæstv. atvmrh. hefir gefið bráðabirgðal. út með fullu samþykki hinna ráðherranna.

Það getur verið, að hæstv. ráðh. færi fram þá afsökun, ef honum finnst það vera afsökun, að samkomulagið innan verksmiðjustjórnarinnar hafi ekki verið eins og ákjósanlegt hefði verið. En ég held samt, að það verði ekki undir neinum kringumstæðum hægt að telja heimilt að grípa til þessara ráða til þess að lagfæra það, sem miður kann að hafa farið í þessu efni.

Ég vil svo aðeins, vegna þess að í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að 3 menn séu í stjórn síldarverksmiðjanna, og aðrir 3 til vara, bera fram þá fyrirspurn til hæstv. ráðh., hverjir séu varamenn í þessari stjórn. Mér hefir ekki tekist að komast að því ennþá, þótt það væntanlega eigi ekki að vera neitt leyndarmál.