24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Ólafur Thors:

Ræða hæstv. ráðh. gefur mér ekki tilefni til mikilla andsvara, og þarf ég því ekki margt að taka fram umfram það, sem ég er búinn að segja. Ég hygg hann hafi misskilið mig, þar sem ég nefndi gerræði og fyrirlitningu fyrir þingræðinu í sambandi við þessi bráðabirgðalög. En hugsun mín var sú, að það yrði að álítast óforsvaranlegt virðingarleysi fyrir þingræðinu að gefa út bráðabirgðalög 2 dögum eftir þingslit, þegar aðstaðan er í raun og veru óbreytt.

Ég get ekki sætt mig við þá skoðun hæstv. ráðh., að alltaf sé leyfilegt að gefa út bráðabirgðalög, ef vitað er um þingvilja fyrir þeim; hún getur leitt út í svo miklar öfgar, þótt hæstv. ráðh. hafi e. t. v. nokkuð til síns máls. Með þeim hætti mætti þá eins hætta öllu þinghaldi, sem margur mundi sennilega lofa guð fyrir, a. m. k. þeir, sem eiga að greiða kostnaðinn, þótt við lýðræðismennirnir teljum, að ekki sé hægt að komast af án þess, þar sem á annan hátt er ekki tryggt, að hinn eiginlegi vilji þjóðarinnar komi fram. Ef stj. veit, að hún hefir sína flokka á bak við sig, er nægilegt samkvæmt þessari kenningu, að hún kalli saman stuðningsmenn sína við og við eða hafi samband við þá á annan hátt til að ganga úr skugga um fylgi þeirra við þær ráðstafanir, sem hún vill gera. Ég verð að líta svo á, að þessi ástæða hæstv. ráðh., að útgáfa bráðabirgðalaga sé ávallt vítalaus, ef vitað er um samþykki meiri hl. þings, sé ákaflega mikið í einræðisáttina frá eðlilegu þingræði.

Hæstv. ráðh. sagðist enga játningu ætla að gera um það, að sér hefði verið kunnugt um það, þegar þingi lauk, að 2 stjórnarnefndarmenn síldarverksmiðjanna ætluðu að segja af sér, en hann vildi ekki neita því heldur. Og þegar ég legg orð hans nú við það, sem ég áður vissi um þetta efni, hygg ég, að megi skoða þetta sem fulla yfirlýsingu. Hafi þetta í raun og sannleika verið svo, sem ekki er vafa bundið, að hæstv. ráðh. hafi vitað þegar þingi lauk um þessa breyt., sem verða átti á verksmiðjustjórninni eftir þing, þá var ótækt af honum að fresta ekki heldur þingslitum um einn dag, ef með þurfti, heldur en að grípa til heimildar 23. gr. stjskr. um útgáfu bráðabirgðalaga. Ég er ekki í vafa um, að hæstv. ráðh. finnur, að það leiðir menn út í margskonar öfgar og lítilsvirðingu fyrir þingræðinu, ef farið er inn á þá braut að stytta sér leið með því að spyrja sína fylgismenn í krókum og skúmaskotum um afstöðu þeirra og byggja svo þar á útgáfu bráðabirgðalaga, í stað þess að leggja málin hreinlega fyrir Alþingi. Ég vil ekki vefengja hæstv. ráðh. um það, að hann hafi haft meiri hl. þings á bak við sig, en hæstv. ráðh. skilur það, að við stjórnarandstæðingar hljótum að gera ráð fyrir, að meiri hl. þings sé á móti þessari ráðstöfun, sem sami þingmeirihluti var búinn að lýsa sig andvígan fyrir skömmu. Aðalatriðið er það, að með bráðabirgðalögum er lögfest 2 dögum eftir þingslit það, sem Alþingi, eins skipað eins og það er enn, var búið að tjá sig andvígt. Það er ekki nóg með það, að lögfest væru ákvæði, sem Alþingi var búið að fjalla um, heldur voru það ákvæði, sem það var búið að neita að fallast á.

Ég vil leyfa mér að beina einni fyrirspurn til hæstv. forsrh., sem ég sé, að er staddur hér í d., í sambandi við þetta mál. Í 1. gr. þeirra bráðabirgðalaga, sem hér er farið fram á, að staðfest verði, segir, að stjórn síldarverksmiðjanna skuli skipuð 3 mönnum, sem atvmrh. tilnefni til 3 ára í senn. En flokksþing Framsfl., sem nú er nýafstaðið, gerði um þetta mál samþykkt, þar sem segir m. a., að þess verði að krefjast, að „allir aðalstjórnmálaflokkar Alþingis hafi jöfn ítök í stjórn síldarverksmiðja ríkisins“. Ég vil nú spyrja hæstv. forsrh. í tilefni af þessu, hvort hans flokkur vill afgreiða þessi lög þannig, að stjórn síldarverksmiðjanna verði aftur þingkjörin. Mér skilst helzt, að í samþykkt flokksþingsins sé átt við, að þessir flokkar, sem sæti eiga á Alþingi, fái sinn mann hver í verksmiðjustjórninni, nema svo sé, að Bændafl. sé ekki talinn með „aðalflokkunum“.

Þessari fyrirspurn vona ég, að hæstv. forsrh. svari. Mér er að vísu nægilegt, að hann svari þessu fyrir sitt leyti, því að ég veit, að hann getur ráðið því, sem hann vill ráða, í sínum flokki, svo að ef hann er þessu samþykkur, mun ég sjá um að Sjálfstfl. taki einnig undir þessa samþ. Framsfl., og þá ætti að vera hægt að breyta lögunum í viðunandi form.