20.04.1937
Sameinað þing: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (2517)

162. mál, dánarbætur o. fl.

*Garðar Þorsteinsson:

Mér þykir leiðinlegt, að hv. 1. landsk. skuli vera á móti brtt. minni, og það sé fyrir það, að með henni sé gengið út á víðari grundvöll. Ég vil því, til þess að styðja þessa till. mína, lesa hér upp úr 11. gr. 5. tölul. alþýðutryggingalaganna, með leyfi hæstv. forseta:

„Foreldri, sem var á framfæri hins látna að öllu eða nokkru leyti, þegar slysið vildi til. hlýtur 1500 kr. Sé þannig ástatt um bæði foreldrin, og búi þau samvistum, hljóta þau þó aðeins sameiginlega 2500 kr.“ — Nú er það í till. hv. 1. landsk., að það sé heimilt fyrir tryggingastjórnina að greiða þessar 1500 kr. bætur, þó foreldri sé ekki á framfæri hins látna. Þá er 6. liður þannig: „Systkini hins látna, sem væru á framfæri hans, þegar slysið vildi til, hljóta dánarbætur á sama hátt og börn.“ — Hér er um líkt tilfelli að ræða og átti sér stað. er slysið varð við brunann á Siglufirði. Sá maður, sem þar er um að ræða, átti systkini, sem hann hafði séð fyrir, og þrátt fyrir það, þótt tryggingarstjórnin vildi ekki greiða bætur til þeirra systkina, og þá ekki gengið út á breiðari grundvöll með því að greiða bætur til allra systkina, þá er það sýnilegt, að í þessu tilfelli voru systkinin ekkert betur komin, eins og þá stöð á fyrir þeim, heldur en það hefðu verið foreldrar, sem hefðu misst þarna þann mann, sem séð hefði fyrir þeim, úr því þessi systkini voru upp á þennan mann komin. Þetta er því algerlega misskilið hjá hv. 1. landsk.