20.04.1937
Sameinað þing: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (2519)

162. mál, dánarbætur o. fl.

*Gísli Guðmundsson:

Ég geri ráð fyrir, að fleiri láti til sín heyra um skilning sinn á þessum greinum alþýðutryggingalaganna, sem hér er um að ræða. Eins og ég sagði áðan, er það skoðun ýmsra lögfræðinga, að sú skoðun, sem tryggingarstj. hefir lagt í lögin, sé algerlega röng. Ég vil þá fyrst benda á 77. gr. laganna, þar sem talað er um, að til örorkubóta og ellilauna sé árlega varið:

1. Árlegum vöxtum af ellistyrktarsjóðum.

2. Tillaginu frá Lífeyrissjóði Íslands, eftir því sem ákveðið er í 79. gr.

3. Framlögum úr bæjar- og sveitarsjóðum eftir ákvörðun bæjar- og sveitarstjóra.

Mér finnst það koma vel fram í þessari grein, að ellistyrktarsjóðsgjaldinu eigi að halda út af fyrir sig, og eins og 82. gr. ber með sér, þá er ætlazt til, að þessu gjaldi sé haldið sér og um það gefin sérstök skýrsla. Hinsvegar hefir ekki verið bent á það af hv. 1. landsk., hvaða ákvæði í lögunum mæli fyrir um þá framkvæmd, sem tryggingarstj. vill hafa, og meðan enginn bendir á þau ákvæði með rökum, mun ég halda fast við þessa skoðun mína á lögunum. Vegna þess bárum við hv. þm. Barð. fram frv. um þetta, að tvennskonar skilningur var lagður þessi ákvæði, og ætlunin var að reyna að gera ákvæði laganna ótvíræðari. Og ég vil benda á, að ákvæði laganna benda til þess, að minn skilningur er réttur, og það hefir ekki verið bent á nein ákvæði í lögunum, sem fara í gagnstaða átt.