20.04.1937
Sameinað þing: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (2520)

162. mál, dánarbætur o. fl.

*Garðar Þorsteinsson:

Út af ræðu hv. þm. V.-Sk. vil ég taka það fram, að ég get ekki verið honum sammála um þetta mál. Ég játa það, að skylda foreldra til framfærslu sinna barna er ríkari en framfærsluskylda systkina, þar sem menn hafa aldrei framfærslurétt gagnvart sínum systkinum, því eins og 11. gr. ber með sér, eru engin ákvæði til um það, að systkini séu á framfæri bróður síns.

Ég vil út af því taka tvo dæmi: Annað tilfellið er það, að bróðir á 2 systkini, sem eru 8 og 9 ára, foreldrar eru báðir dánir, en hann sér fyrir hinum ungu systkinum sínum. Ef svo þessi bróðir dæi, þá finnst mér, að hin ungu systkini hans eigi fullan rétt til dánarbóta, alveg eins og þau hefðu misst foreldra sína. En tryggingarstj. segir, að þau tvö systkini hafi ekki verið á framfæri hans og þau eigi því engan rétt til dánarbóta. Og tryggingarstofnunin byggir rök sín á því, að samband milli systkina sé ekki eins náið eins og á milli foreldra og barna. En hér er um misskilning að ræða, vegna þess að í báðum tilfellunum missist sá aðili, sem sér fyrir þeim, er dánarbætur þurfa, og þetta tvennt er því alveg sama eðlis, og þótt ekki sé getið um það í opinberum skýrslum, að systkini séu á framfæri bróður síns, þá er það óréttmætt, að þau fái ekki dánarbætur eins og þau hefðu misst foreldra sína.

Mörg fleiri slík dæmi má taka, sem sanna það, að þessi ráðstöfun er algerlega óréttmæt. Ég skil ekki í því, að þm. skuli ekki vilja taka til greina þessa till., sem er aðeins bending til tryggingarstj. og gefur tilefni til, að lítið sé með sanngarni á málið. Og þótt mér virðist, að það eigi að drepa þessa till. mína, þá tek ég hana ekki aftur.