14.04.1937
Neðri deild: 38. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (2531)

117. mál, hús á þjóðjörðum

*Jón Pálmason:

Það kom fram hjá hv. flm., að honum er það ljóst, að þjóðjarðirnar eru ekki undantekning frá þeirri reglu, sem er orðin býsna almenn í okkar landi, að húsabyggingar á sveitabýlum eru víða óviðunandi. En mér finnst þó, án þess að ég ætli að mæla á móti þessari þáltill., að hún hafi í sjálfu sér litla þýðingu. Það hefði verið miklu meira virði í sambandi við þessi byggingarmál sveitanna, ef hægt hefði verið að fá til afgreiðslu það frv. um byggingarsjóð sveitanna, sem við nokkrir höfum flutt, en ekki lítur út fyrir, að verði. Annars var það ætlun Alþingis með l. um erfðaábúð og óðalsrétt, að með þeim væri að mjög miklu leyti ráðin bót á þessu að því er snertir þjóðjarðir, því að svo framarlega sem þær heyrðu ekki undir það, að ábúendurnir keyptu þær og gerðu að ættaróðali, sem heimilt er samkv. l., þá er gert ráð fyrir því samkv. 9. gr. þessara l., að þeir menn, sem fengju erfðaábúðarrétt á þeim, hefðu leyfi til að taka lán út á veð í jörðunum, til þess að byggja upp á þeim viðunandi hús. Samkv. því ákvæði eru þessir menn, sem hv. 9. landsk. ber sérstaklega fyrir brjósti í þessu efni, ekki verr settir heldur en aðrir bændur landsins að því er snertir aðstöðu til húsabóta.

Þetta vildi ég aðeins benda á, en hinsvegar er það náttúrlega ekki til neins ills, þó að þessi þáltill. yrði samþ.