14.04.1937
Neðri deild: 38. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (2532)

117. mál, hús á þjóðjörðum

Flm. (Sigurður Einarsson):

Í sjálfu sér þarf ekki miklu að svara í þessu sambandi. Að vísu er það ekki rétt hjá hv. þm. A.-Húnv., að þessi till. hafi ekki mikla þýðingu. Það, sem hann vildi segja, var það, að hún væri ekki víðtæk, og það er rétt; hún tekur til aðeins lítils hluta af jörðum, en það er sá hluti jarðanna, sem mér skilst, að Alþingi sem yfirstjórnanda eigna hins opinbera standi a. m. k. nokkuð nær að sjá um, að verði ekki verr úti en aðrar jarðir. Eins og tekið er fram í grg., var mér kunnugt um það ákvæði 9. gr. l. frá 8. febr. 1936, um erfðaábúð og óðalsrétt, að ábúanda, sem hefir jörð í erfðaábúð, skuli heimilt að taka lán, sem nema má allt að 50% af fasteignamati landsins, til húsabóta á jörðinni. Þetta gefur nokkuð gilda ástæðu til að ætla, að þessi ákvæði komi mönnum ekki að eins miklu haldi og lítið gat út fyrir, vegna þess að það er ekki eins og hér séu fríðindi, sem ekkert er tekið í staðinn fyrir, því að í sömu l. er það opinbera leyst undan skyldu ábúðarlaganna til húsabóta, og svo er það, að þessi lán mega ekki vera nema tiltölulega mjög lág, ef afkoma manna á ekki að vera hætta búin. Ég hefi ráðfært mig við fróða menn um það, hvað gera mætti ráð fyrir mestum húsabótaskuldum á meðalþjóðjörð eða kirkjujörð, og mér er tjáð, að slíkar skuldir mættu ekki vera nema 2500 kr. í mesta lagi, svo ég er hræddur um, að um leið og það opinbera sem lánardrottinn er leyst undan þeirri skyldu að gera húsabætur á jörðum sínum, en hinsvegar er gefin lánsheimild fyrir 50% af fasteignamati landsins, þá verði í raun og veru allur vandinn í þessu efni lagður á herðar ábúandans sjálfs.