14.04.1937
Neðri deild: 38. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (2534)

117. mál, hús á þjóðjörðum

*Jón Sigurðsson:

Ég skal ekki fara að ræða mikið um till. þá, sem hér liggur fyrir, því að ég býst við, að hún fari til stj., eins og hv. 2. þm. N.-M. stakk upp á. En ég get ekki látið vera að láta í ljós, að mér kemur ekkert óvart, þó að margar slíkar till. eigi eftir að koma fram hér á Alþingi, og það er ekkert undarlegt, þó að þeir hv. alþm., sem hæst hafa hrópað um þær, að ríkið eigi að eiga allar jarðir í landinu, fái að kenna á því, að nokkur böggull fylgi því skammrifi. Alþingi hefir lagt þungar kvaðir á landsdrottna, ef það eru prívatmenn, þyngri en á ríkið, en nú fæ ég ekki annað séð en að ríkið fari að verða nokkuð hart úti í þessu efni, a. m. k. hvað snertir þær jarðir, sem það er að kaupa núna. Þær eru margar veðsettar upp í topp og sumar gerfallnar að húsum, svo óumflýjanlegt er að byggja upp á þeim, ef þær eiga hreint og beint ekki að fara í eyði. Á hvaða bjargir á að vísa landsetum slíkra jarða, veit ég ekki.