01.04.1937
Sameinað þing: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (2541)

23. mál, uppbót á bræðslusíldarverði

Ólafur Thors:

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta mál, vegna hinnar ýtarlegu framsöguræðu hv. 1. flm., þm. Vestm. Ég get vitnað til þeirra upplýsinga, sem hann gaf um málið, og þær tölur, sem hann nefndi, eru óhraktar, enda hefir í rauninni ekki verið gerð nein tilraun til að hrekja þær. Hæstv. atvmrh., sem þó andmælti till., lét sér nægja að lýsa yfir því, að hann skorti í bili gögn til þess að afsanna þau rök, sem hv. þm. Vestm. færði fram. Ég mundi þess vegna alveg hafa leitt þetta mál hjá mér, ef hæstv. atvmrh. hefði ekki í lok ræðu sinnar snúið máli sínu inn á þá braut, að beina ámælum til þeirra manna og þeirra blaða, sem á síðastl. vori tóku baráttu upp fyrir því, að útborgað síldarverð á þessu ári yrði meira en fyrirhugað var í öndverðu af þeim, sem fóru með yfirstjórn þessara mála, hæstv. ráðh. sjálfum og stjórn síldarverksmiðjanna. Þarna verður að standa fullyrðing á móti fullyrðingu, en ég hika ekki við að fullyrða, að barátta sjálfstæðismanna í þessu máli réði því, að útborgað síldarverð var þó eins hátt og það varð, því að ætlun valdhafanna var sú, að greiða a. m. k. ekki hærra en 4.50 kr. fyrir mál, og raunar stöð lengst af til, að útborgað yrði minna, þó með það fyrir augum að greiða eitthvað meira seinna, ef niðurstaðan á rekstri verksmiðjanna sýndi, að það væri fært; en við, sem hlustuðum á ræðu hæstv. ráðh., hljótum að draga þá ályktun, að ef hníga átti að því ráði, sem hann og aðrir ætluðust til um útborgun síldarverðs, þá hefði niðurstaðan orðið sú, að þrátt fyrir það, að afurðaverðið gerði kleift að greiða sjómönnum bæði það, sem greitt var, og það, sem nú er farið fram á, uppbótina, þá hefði reynzt örðugt að sækja þann feng í hendur valdhafanna. Ég vil í þessu sambandi leiða athygli að því, að það er rétt, sem hæstv. atvmrh. sagði, að það verðlag, sem síldarbræðslustöðvar ríkisins ákveða á hverjum tíma, verður ákveðandi fyrir það verðlag, sem aðrar verksmiðjur landsins greiða fyrir keypta síld. Það virðist a. m. k. ástæða til að ætla, að svo verði, meðan óbreytt er heimild borgaranna til þess að auka við og reisa nýjar verksmiðjur, en einmitt af þeim ástæðum ber valdhöfunum að hafa fulla hliðsjón af því á hverjum tíma, að gera kjör útvegsmanna og sjómanna ekki þyngri en ástæða er til.

Ég er einn af þeim mönnum, sem hafa hag af því að vissu leyti, að síldarverðið sé ekki ákveðið hærra en svo, að verksmiðjurnar, sem kaupa síld, geti haft sæmilegan afgang, en ég hika ekki við að fullyrða, að enda þótt greiddar hefðu verið 6 kr. síðasta ár, var samt hægt að hafa sæmilega afkomu fyrir verksmiðjurnar, svo að ekki sé meira sagt, og við, sem börðumst fyrir því, að síldarverðið yrði hærra en ætlað var, færðum auk venjulegra og eðlilegra raka fram þá viðbótarástæðu, að sjómenn og útvegsmenn, sem þarna áttu hlut að máli, höfðu flestir borið mjög skarðan hlut frá borði vegna afkomu þorskveiðanna og voru þess vegna mjög illa undir það búnir að taka nokkuð rýrari kost um verðlag síldarinnar heldur en fyllstu nauðsyn bar til með hliðsjón af sæmilegu öryggi um afkomu verksmiðjanna. Ég vil nota tækifærið til þess að lýsa yfir því fyrir mitt leyti, að ég álít ótækt, að ríkisvaldið leggist á þá sveif, að meina mönnum að koma sér upp bræðslustöðvum. Það er ekki til hagsbóta, hvorki fyrir útvegsmenn né sjómenn, að sem minnst samkeppni ríki um verðlag á bræðslusíld Ég fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, að Íslendingar verði á næstu árum að byggja miklu meira en þeir hafa gert á því, að auka einmitt framleiðsluna á síldarmjöli og síldarlýsi, en það verður ekki gert með öðrum hætti en að reisa nýjar síldarverksmiðjur. Ég hygg, að ég sé þar í samræmi við skoðun sjálfstæðismanna innan þings og utan og í því, að við mundum vilja eiga þátt í því, að reyna að bæta söluhorfur útvegsmanna og sjómanna á síld, með því að greiða fyrir, en ekki stemma stigu fyrir því, að síldarverksmiðjum yrði fjölgað, annaðhvort af völdum einstaklinga eða ríkisins; það verður að svo komnu máli ekki aðalatriðið, heldur hitt, að möguleikarnir verði færðir út á þessu sviði. Það er öllum vitanlegt, að Íslendingar hafa nú þurft að þola þá raun, að sjá á bak bezta markaðinum fyrir þá útflutningsvöru, sem á undanförnum árum hefir að langmestu leyti staðið undir nauðsyn þjóðarinnar fyrir erlendum gjaldeyri til greiðslu á aðkeyptum notaþörfum, og úr þessu böli verður að mínu viti ekki bætt á annan raunbetri og hraðvirkari hátt heldur en einmitt með því, að auka framleiðsluna á síldarmjöli og síldarlýsi; og um þá framleiðslu er það að segja, að enda þótt hún, eins og ölll önnur framleiðsla, færi að sjálfsögðu með sér allverulega áhættu um verðlagssveiflur á heimsmarkaðinum, þá er þó sá munur á þeirri áhættu og hinni, sem við til þessa höfum orðið við að búa, að markaðurinn fyrir þessa voru er í miklu fleiri löndum og margfalt stærri en markaðurinn fyrir saltfiskinn. Það er þess vegna bæði eðlileg krafa útvegsmanna og sjómanna og nauðsyn þjóðarinnar, að það verði ýtt undir það í fyrsta lagi, að síldarverksmiðjustarfrækslan sé færð út, og í öðru lagi, að það verðlag sé greitt fyrir framleiðsluvörunn, sem á hverjum tíma er hægt að borga með eðlilegum hætti. Og það er fjarri öllum sanni, að við, sem á síðasta sumri héldum uppi málsvörn fyrir útvegsmenn og sjómenn um hækkað verðlag á síld, værum að stofna til einhverrar ógæfu eða gera leik að því að stofna í voða þessari nauðsyn þjóðarinnar um síldarframleiðslu; það var einmitt þveröfugt. En þegar hæstv. ríkisstj. og verksmiðjustjórn þóknaðist að ganga gegn réttmætum og sanngjörnum kröfum útvegsmanna í þessu efni, þá hafði það í fór með sér alvarlega hættu. Ég fyrir mitt leyti studdi kröfur útvegsmanna og sjómanna í þessu efni, og ég verð að segja, að enda þótt ég beri ekki mikið traust til núverandi hæstv. ríkisstj., þá ber ég alltaf það traust til hennar, að hún mundi aldrei láta það henda, að sú ógæfa hlytist af þessari deilu um útborgað verð á síld, að til nokkurrar stöðvunar kæmi á síldarframleiðslunni, og ég treysti því fyrir það tvennt, að annarsvegar vissi ég vel, hvert verð síldarinnar var, og þar af leiðandi, að það var langt frá, að farið væri fram á það ýtrasta sem hægt hefði verið að krefjast, og hinsvegar vissi ég líka, að ríkisstj. var það engu síður ljóst en mér, og raunar öllum öðrum mönnum, sem nokkuð eru kunnugir högum og háttum þjóðarinnar, að það mátti ekki undir neinum kringumstæðum koma til þess, að síldarflotinn stöðvaðist.

Þetta mál liggur nú upplýst fyrir, og raunar ber það vitni um, að þar kröfur, sem við bárum fram, voru fullkomlega sanngjarnar, svo að ég segi ekki meira, en í því liggur líka sönnun þess, að ef það var nokkur, sem tefldi á tæpasta vaðið, þá vorum það ekki við, heldur þeir, sem þrjózkuðust við að uppfylla kröfurnar.

Út af fyrirspurn hæstv. ráðh. til flm. till. um það, með hverjum hætti þeir hyggðu að tryggja, að þeir sjómenn og útvegsmenn, sem höfðu haft viðskipti við aðra verksmiðjueigendur en ríkið, fengju uppbót, ef till. yrði samþ., er það fyrst að segja, að það er ekki mikil ástæða til þess að bera fram þessa fyrirspurn fyrir mann eins og hæstv. ráðh., sem er búinn að lýsa yfir því, að hann ætli að vera á móti till., því það er þá sama og hún verði felld. Í öðru lagi get ég gert hæstv. ráðh. það til geðs að svara því, að það er náttúrlega ekki innan eðlilegs verkahrings Alþingis að skylda þá einstaklinga, sem þennan atvinnurekstur stunda og hafa hagnað í skjóli þess verðlags, sem síldarverksmiðjur ríkisins ákveða, til þess að greiða viðskiptamönnunum uppbót. Ég er að vísu ekki svo vel að mér í lögfræðinni, að ég geti sagt, hvort slíkt væri löglegt, en frá almennu viðskiptalegu sjónarmiði held ég, að þetta sé ekki hægt. Ég skal að vísu viðurkenna, að það er nokkuð rétt í því, sem hæstv. ráðh. sagði, að það er að vissu leyti neyðarúrræði, að þurfa að leggja inn á þá braut, að koma eftir á og heimta slíka uppbót greidda af hendi ríkisverksmiðjanna. Það skal viðurkennt, að það hefir nokkuð til síns máls, að fyrst ríkið tekur á sig áhættuna, þegar illa gengur, og ber sjálft eða ríkisverksmiðjurnar þann halla, sem kann að leiða af því, að verðlagið á vissu ári hefir verið ákveðið barra en reynslan sýndi, að hægt væri að greiða, þá er viss sanngirni, sem mælir með því, að ríkisverksmiðjurnar hljóti þann hagnað, sem verða kann í góðærinu. En þó er á þessu sá annmarki, að samkv. l. og samkv. öllum anda og tilgangi lagasetningarinnar um starfrækslu bræðslustöðvanna er svo til ætlazt, að þeir útvegsmenn, sem á hverjum tíma skipta við ríkisverksmiðjurnar, fengju að njóta þess, sem afurðaverðið veitti, án þess að þurfa að taka á sig halla af þeim viðskiptum, sem orðið hefir af öðru ári hjá öðrum mönnum, því að það eru vitanlega ekki sömu mennirnir, sem hafa skipt við ríkisverksmiðjurnar 1936, og þeir, sem skiptu við þær á árinu 1935, a. m. k. ekki nema að nokkru leyti. við, sem stóðum að þessari kröfu, getum rökstutt okkar mál bæði með því, að við vorum búnir að bera fram kröfuna, áður en verðlagið var ákveðið, og vorum þá þegar búnir að fara fram kröfunni til stuðnings alveg óyggjandi rök, og svo var hinsvegar hitt, að þörf sjómanna og útvegsmanna fyrir að fá að njóta hins raunverulega verðlags var fyrirfram auðsæ.

Ég skal svo ekki að öðru leyti, ef ekki gefst tilefni til, fjölyrða frekar um þetta mál, því að ég sé ekki, eins og ég tók fram í byrjun míns máls, ástæðu til að færa frekari sannanir fyrir kröfu okkar, því að það hefir hv. 1. flm., þm. vestm., gert á þann hátt, að það er ekki að minni hyggju hægt að véfengja hans málflutning.